Fölsuð myndverk

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:01:37 (5088)

2004-03-10 14:01:37# 130. lþ. 81.1 fundur 476. mál: #A fölsuð myndverk# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:01]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að túlka þá grein sem hv. þm. lagði út af. Ef hv. þingmaður eða aðrir telja að það sé forsenda til málshöfðunar og bótakrafna af hálfu listamanna á grundvelli þeirrar greinar vegna þess að höfundaréttur hafi verið brotinn á þeim með fölsun myndverka er það ekki mitt hlutverk sem dómsmrh. að meta það. Það verður að láta á það reyna á grundvelli höfundalaganna og ef það er ágreiningur um þessa þætti er sjálfsagt að dómstólar skeri þar úr um.

Ef menn líta svo á að fölsuð mynd sé skerðing á sæmdarrétti höfundar er það sérstakt álitamál sem ég var ekki spurður um þegar ég fékk þessa fyrirspurn, heldur var ég spurður hvort ríkisstjórnin hygðist beita sér fyrir því að samkvæmt lögum yrði heimilað að eyða fölsuðum myndverkum. Það var spurningin sem ég svaraði.

Varðandi túlkun á höfundaréttarlögunum og spurningunni um sæmdarréttinn verð ég að vísa því til annarra en mín, að leggja mat á það. Hér eru sérfræðingar í höfundarétti, til er sérstök höfundaréttarnefnd og fleiri sem koma að því að túlka höfundaréttinn. Sá réttur fellur þar að auki ekki undir dómsmrn. heldur menntmrn. og mér finnst eðlilegt að menn spyrji þá sem hafa slík mál á sinni könnu frekar en mig fyrir utan að ég tel að álitamálið sé þess eðlis að rétt sé að leita til dómstólanna til að fá úr því skorið.