Húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:11:37 (5125)

2004-03-10 15:11:37# 130. lþ. 81.6 fundur 598. mál: #A húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Suðurk., Margrét Frímannsdóttir, hefur beint til mín fyrirspurn: ,,Á hvern hátt verður brugðist við athugasemdum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands við húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni? Hvenær má vænta þess að úrbótum verði lokið?``

Úttekt Heilbrigðiseftirlits Suðurlands á ástandi húsnæðis á Sogni var gerð 4. desember sl. og athugasemdir settar fram í sex liðum í bréfi til Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi. Þaðan voru þessar athugasemdir sendar til ráðuneytisins. Það er unnið að frekari kostnaðaráætlun vegna þeirra framkvæmda sem farið er fram á og það er einnig unnið að því í ráðuneytinu þessa dagana í tengslum við vinnu fyrir fjárlög næsta árs að safna saman upplýsingum um nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir á húsnæði sjúkrastofnana og heilsugæslustöðva og raða þeim í forgangsröð. Það eru mörg brýn verkefni á þeim lista og eru úrbætur á þeim atriðum sem Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur fundið að á Sogni þar á meðal. Það leiðir af eðli máls að þar sem slíkar athugasemdir eru settar fram er mikil þörf og ástæða til þess að bregðast við því.

Hins vegar þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þm. sem á sæti í fjárln. að fjárveitingar til ... (Gripið fram í.) Hann á það ekki lengur, nei. (MF: Því miður ...) Já, ég er á eftir tímanum. Takmarkaðar fjárveitingar til viðhalds stofnana setja þessum málum mjög þröngar skorður svo ekki sé meira sagt. Ég verð því að segja alveg eins og er að ráðuneytið er í miklum vanda í þessum efnum. Þess vegna get ég ekki fullyrt um það á þessari stundu hve mikið verður unnt að vinna að viðgerðum á húsnæðinu á Sogni en við teljum að í það þurfi að ráðast. En eins og fram hefur komið eru fjárveitingar takmarkaðar til þess á þessu ári svo ég er ekki bjartsýnn um að því verði lokið á þessu ári en þetta er eitt af þeim málum sem við verðum að taka upp af okkar takmörkuðu fjármunum.