Atvinnuráðgjöf

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:33:29 (5137)

2004-03-10 15:33:29# 130. lþ. 81.7 fundur 697. mál: #A atvinnuráðgjöf# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tók ekki eftir að hv. þm. treysti sér til að koma með það inn í umræðuna hvar þau svæði eru sem hún er að fjalla um og þau hafa ekki verið skilgreind það ég veit. Ráðstafanir okkar og starf okkar miðast að sjálfsögðu við landsbyggðina í heild sinni þegar ég er að fjalla um bæði starf Byggðastofnunar og nýsköpunarmiðstöðvarinnar hvað varðar byggðamál. Nýsköpunarmiðstöðin hefur svo sannarlega sýnt fram á það nú þegar að hún gegnir mjög mikilvægu starfi. Hún var að kynna starf sitt fyrir nokkrum dögum á því ári sem liðið er frá því hún hóf starfsemi sína og það hefði verið fróðlegt fyrir hv. þm. að fylgjast með því.

Það er ekki rétt sem kemur fram í máli hv. þm. að framlög til atvinnuþróunarfélaganna hafi ekki verið hækkuð. Það hefur verið gert. Atvinnuþróunarfélögin gegna, eins og kom fram í máli mínu áðan, mjög mikilvægu starfi og eru í nánum tengslum bæði við nýsköpunarmiðstöðina og Byggðastofnun.

Ástæða er til að geta þess líka að verulegum fjármunum er varið til kaupa í hlutafélögum af hálfu Byggðastofnunar sem er sérstakt átak sem ákveðið var af hálfu ríkisstjórnarinnar. 350 millj. kr. var varið til kaupa í hlutafélögum, í sprotafyrirtækjum á landsbyggðinni, sem skiptir náttúrlega verulega miklu máli. Það er mjög margt sem verið er að gera en það er ekki þar með sagt að ég sé að segja að ekki sé hægt að gera betur. Auðvitað á maður alltaf að hafa það að markmiði að gera betur.

Í lok umræðunnar er ástæða til að nefna að það hefur stórdregið úr flutningi fólks af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, stórdregið úr þeim flutningum, og ég tel að það sé ákveðinn árangur af því starfi sem hefur verið í gangi á sviði byggðamála og lýsi mikilli ánægju með það.