Samkeppnismál

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 10:44:09 (5195)

2004-03-11 10:44:09# 130. lþ. 82.91 fundur 398#B samkeppnismál# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[10:44]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Það er ekkert svar að segja að verið sé að skoða málið á milli ráðuneyta. Þessir hæstv. tveir ráðherrar hafa verið að skoða málið síðan í september, hvor með sinn fulltrúa í nefnd ásamt fulltrúa lagadeildar Háskóla Íslands. Fulltrúar þessara hæstv. ráðherra hafa komist að einróma niðurstöðu. Hvað er til fyrirstöðu, hæstv. forseti?

Hæstv. viðskrh. hefur upplýsingaskyldu gagnvart þinginu og henni er skylt að svara því hér hvað veldur því að ekki sé hægt að láta þessa tillögu koma til framkvæmda. Það nægir okkur ekki, hæstv. forseti, að hæstv. viðskrh. voni að málið leysist. Valdið er hennar og ábyrgðin um leið og það er hennar að svara því hvað eigi að gera, og hvernig.

Hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir að hún teldi þá leið sem lögð er til einmitt í þessu frv., og m.a. Samkeppnisstofnun hefur mælt með, réttu leiðina. Hefur hæstv. ráðherra skipt um skoðun? Ábyrgðin er hennar.

Ég vil líka geta þess að í hv. efh.- og viðskn. er frv. sem Samf. lagði fram með Lúðvík Bergvinsson í broddi fylkingar um þetta mál. Það var nefnt hér áðan. Umsagnir um það mál hafa borist og þar hefur m.a. réttarfarsnefnd sem er ráðgjafarnefnd á sviði dómsmrn. undir hatti dómsmrh. mælt með því að sú leið verði farin. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra hvar í ósköpunum hún ætli að finna sérfræðinga sem mæli með annarri leið. Tónn hæstv. ráðherra Björns Bjarnasonar í þessu máli minnir því miður allt of mikið á þær raddir sem heyrast stundum úr röðum sjálfstæðismanna, að samkeppnisyfirvöld megi ekki styrkja um of, Samkeppnisstofnun skuli helst leggja niður.

Hæstv. viðskrh. þarf að standa vörð um hag neytenda í þessu máli og það er ekki eftir neinu að bíða með að leggja fram frv. sem þessir ágætu hæstv. ráðherrar hafa unnið að sameiginlega síðan í september.