2004-03-11 11:01:56# 130. lþ. 82.1 fundur 397#B launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000--2002, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), EOK
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[11:01]

Einar Oddur Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu er farið yfir launakerfi starfsmanna ríkisins á bls. 41--45. Það vill svo til að nokkrum sinnum á undanförnum árum hefur einmitt þetta launakerfi komið mjög til umræðu. Ég hef reynt að gera grein fyrir því nokkrum sinnum við litla hrifningu en ég vonast til þess, virðulegi forseti, að þingmenn lesi þessa kafla, sérstaklega á bls. 41--45, aftur og aftur svo að tryggt sé að allir viti við hvaða vandamál við erum að fást, hversu viðkvæm þau eru og erfið viðureignar. Þau eru mjög erfið, kjaramálin í heild sinni. Þessa skýrslu sem nær til sex stofnana er greinilega beðið um sérstaklega af hálfu ráðuneytisins og ég ætla að þessar sex stofnanir séu kannski þær sem hafa átt í hvað meiri erfiðleikum en aðrar, flestar hverjar. Það er huggun harmi gegn að við vitum af fleiri stofnunum úti um landið þar sem hefur gengið betur að hemja kostnaðarþróunina en þó má hverjum verða ljóst að hér erum við að fást við vandamál sem okkur hefur ekki tekist að leysa.

Kjarasamningar lækna eru þannig að ég mundi ekki kalla þá venjulega kjarasamninga, heldur væri nær að kalla þá einhvern óskapnað. Ég veit um fáa sem skilja þá samninga, kannski þá sem skrifuðu undir þá þó að mér sé það til efs.

Ég vil líka benda á úrskurð kjaranefndar frá 2002 um samninga heilsugæslulækna en ég tel að það plagg eigi að vera skólabókardæmi um hvernig samningar á vinnumarkaði eiga ekki að vera.

Við vitum öll að það er þverpólitísk samstaða um það hvernig við ætlum að standa að heilbrigðismálum. Við ætlum að fjármagna þau meira og minna á grundvelli samhjálpar og því verðum við öll að standa að þessum málum og koma þeim í annað form en þau eru í í dag.

Ég hef lengi haldið því fram við þá miklu ágætisstétt, lækna, að hún væri á villigötum í launamálum. Þeir verða að koma að þessum hlutum þannig að þeir, sem mest menntaða stéttin, þeir sem mesta kunnáttu hafa í heilbrigðismálum, axli þá ábyrgð sem verður að fara saman í forustu, að menn axli bæði fjárhagslega og faglega ábyrgð. Ég held að það sé sú leið sem við verðum að fara vegna þess að allar tilraunir hins opinbera á umliðnum árum sem hafa verið mjög miklar til þess að hemja launakostnað og kostnaðarþróunina í hinum ýmsu heilbrigðisstofnunum hafa mistekist. Við verðum bara að horfast í augu við það, okkur leyfist ekki undan að líta.

Ég tel að núna loksins séum við með í höndunum tæki sem við þurfum til þess. Við höfum náð tökum á því að við getum mælt hjúkrunarþyngdina, við vitum hvernig við ætlum að kostnaðargreina hana. Við höfum bestu þjóðskrá í heiminum. Við vitum að faraldsfræðin er mjög góð á Íslandi. Þess vegna erum við með hlutlægar upplýsingar til að miða þennan rekstur við. Auðvitað er það best komið þannig að hinar menntuðu stéttir beri ábyrgðina eins og ég sagði áðan, bæði faglega og fjárhagslega.

Við verðum að viðurkenna að það er alvörumál þegar launaþróun fer á einum stað í ferli sem er ekki í neinu samráði við annað í þjóðfélaginu. Það virkar nákvæmlega eins og skemmt epli. Það eyðileggur allan vinnumarkaðinn. Þess vegna er þetta mjög mikið alvörumál sem menn verða að horfa til, að við getum ekki lifað við það að slíkt ferli sé svona misvísandi. Ég held og reyndar veit ég, herra forseti, að það er til tæki til að breyta þessu. Við eigum að hafa hugrekki til að fara nýjar leiðir við stjórn þessara stofnana og skipulag þessara mála. Við höfum margreynt það en það sem við höfum reynt og gert hefur ekki dugað. Þess vegna ber okkur að hugsa nýjar hugsanir. Við getum staðið öðruvísi að þessu og eigum að gera það með þeim tækjum sem við höfum í höndunum í dag.