2004-03-11 11:12:14# 130. lþ. 82.1 fundur 397#B launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000--2002, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[11:12]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hæstv. heilbrrh. Jóni Kristjánssyni sem hér hefur kynnt skýrslu um launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana á árunum 2000--2002. Frjálsl. telur að við eigum að tryggja öllum landsmönnum rétt til að njóta bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni, að ríkisvaldið sjái um fjármögnun til heilbrigðisþjónustunnar og leiti leiða til að nýta þetta fjármagn sem best. Þó að rétt geti verið að nýta kosti einkaframtaks í heilbrigðisþjónustunni þar sem því verður við komið skal það gert með það að leiðarljósi að nýta fjármuni almennings sem best.

Þegar sú skýrsla sem hér er til umfjöllunar er skoðuð læðist óneitanlega að manni sá grunur, eða réttara sagt sú spurning, hvort fjármunir almennings séu nýttir með sem skilvirkustum hætti í heilbrigðisþjónustunni. Að sjálfsögðu velur maður að ætla að það eigi við í sem flestum tilvikum en kannski er víða pottur brotinn þegar grannt er skoðað.

Hér höfum við fengið að vita að launakostnaður við nokkrar, ég undirstrika nokkrar, en ekki allar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafi aukist um tvöfalt meira á árunum 2000--2002 en hækkun launavísitölu á sama tímabili. Þá hlýtur maður að spyrja hvernig farið sé með fé almennt á slíkum stofnunum. Hér er launaliðurinn hjá starfsmönnum heilbrigðisstofnana til umræðu. Frjálsl. telur sjálfsagt og eðlilegt að starfsfólk slíkra stofnana njóti sem bestra launakjara. Gott og vel. En menn verða að sjást fyrir og eiga fyrir launahækkunum, og launaliðurinn má ekki koma niður á starfsemi og þjónustu sem þessar stofnanir veita.

Fram kemur í skýrslunni að laun heilsugæslulækna hafi hækkað um 28--55% frá nóvember 2002. Auðvitað munar um þessar hækkanir, sérstaklega í ljósi þess, eins og fram hefur komið í umræðunni, að um 70% af kostnaði heilbrigðisstofnana er launakostnaður. Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni þegar við sjáum þær tölur sem Ríkisendurskoðun hefur komið með og hæstv. heilbrrh. hefur kynnt fyrir hinu háa Alþingi í dag hvort launa- og verktakagreiðslur, einkum og sér í lagi til lækna á landsbyggðinni, séu ekki komnar út úr kortinu. Þeir sem mest fá, á sjö stöðum allt í kringum landið, þéna á bilinu 14--20 millj. kr. árlega. Þetta eru allt að helmingi hærri tekjur en meðallaun lækna í fullu starfi við Landspítala -- háskólasjúkrahús en þess ber þó að geta að margir þeirra starfa utan við á eigin stofum og þær tekjur sem þeir afla þar koma væntanlega ekki fram í þessari könnun. Maður hlýtur þó að spyrja sig hvort læknar sem vinni svo mikið að þeir hafi 14--20 millj. kr. í árslaun séu ekki hreinlega yfirkeyrðir af vinnu og því vænlegra að fjölga stöðugildum til að létta þeim störfin.

Fjölmörg dæmi eru um að ekki sé ráðið í lausar stöður á landsbyggðinni. Ekki hafa fengist skýr svör um það hjá hæstv. heilbrrh. hvort það sé vegna fjárskorts. Reynt hefur verið að bera við að ekki hafi tekist að ráða í stöður hjúkrunarfræðinga en þær hafa einfaldlega ekki verið auglýstar. Skýrsla ríkisendurskoðanda bendir á að samræmi skorti tilfinnanlega milli launakerfis heilbrigðisstofnana og fjárlagakerfis ríkisins. Þegar stofnanir semja sérstaklega við sitt fólk hefur komið í ljós að gengið hefur verið til samninga án þess að fjármunir séu fyrir hendi.

Virðulegi forseti. Þarna hljótum við að kalla bæði hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh. til ábyrgðar. Enn og aftur, fólk á að njóta sanngjarnra launa fyrir störf sín í heilbrigðisgeiranum en það hlýtur að vera á ábyrgð stjórnvalda að geta staðið við það sem þau og stjórnendur ríkisstofnana lofa án þess að svo mikilvægar stofnanir sem heilbrigðisstofnanir okkar eru lendi í uppnámi árlega vegna þess að ekki er innstæða fyrir loforðunum og allt í bullandi mínus þegar árið er gert upp.