Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 11:30:56 (5209)

2004-03-11 11:30:56# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[11:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðu mikið um þetta mál. Ég kom sjónarmiðum mínum á framfæri við 2. umr. og þá varð hér ágæt umræða um Evrópumál í tiltölulega almennu samhengi í tengslum við frv. um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins. Það er ástæðulaust að endurtaka hana hér nema menn vilji skemmta sér við það út af fyrir sig að æfa sig meira í þeim efnum.

Ég gerði grein fyrir þeim fyrirvörum sem ég hef við mál þetta sem við styðjum, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, með þeim fyrirvörum þó sem ég gerði rækilega grein fyrir í ræðu minni, og þarf ekki að endurtaka. Ég vil gera einn þátt málsins aðeins ítarlegar að umræðuefni og hann varðar opnun hins sameiginlega vinnumarkaðar á Evrópska efnahagssvæðinu og í Evrópusambandinu öllu þegar og eftir því sem hann verður að veruleika með stækkun svæðisins og hinum nýju aðildarríkjum að austan.

Í skýrslu sem liggur fyrir þinginu um störf Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og ég hafði ekki í höndum þegar ég ræddi málið við 2. umr. er komið inn á það starf sem efnahags- og atvinnumálanefnd Norðurlandaráðs hefur unnið að í þessu máli á undanförnum missirum og sagt sérstaklega frá starfshópi sem undirritaður sat í og hafði það hlutverk að huga að vinnumarkaðsmálum í tengslum við fyrirhugaða stækkun Evrópusambandsins. Það var sem sagt unnið undir formerkjum vinnumarkaðssamstarfs við Eystrasaltsríkin og ég vek athygli hv. þingmanna á því að sú skýrsla liggur fyrir og menn geta lesið sér þar til um þennan þátt starfa efnahags- og atvinnumálanefndar Norðurlandaráðs á þessu sviði. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Vinnumarkaðsmál Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna voru mikið til umræðu árið 2002 en þá náðist ekki samstaða í nefndinni um tillöguflutning á þessu sviði. Í ljósi þess að samþætting vinnumarkaðar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna mun aukast mjög við stækkun Evrópusambandsins 1. maí 2004 var vinnuhópi komið á til þess að afla frekari upplýsinga og gera tillögur um aðgerðir. Einkum var vinnuhópnum ætlað að kanna á hvaða sviðum ólík löggjöf, uppbygging og skipulag vinnumarkaða gæti haft afleiðingar fyrir samþættingu þeirra í framtíðinni. Vinnuhópurinn hélt fimm fundi, fór í kynningarheimsóknir til sex samtaka launþega og atvinnurekenda í Eystrasaltsríkjunum og hélt auk þess þrjá fundi með utanaðkomandi sérfræðingum á þessu sviði.

Í lokaskýrslu vinnuhópsins kom fram m.a. að samtök aðila vinnumarkaðarins í Eystrasaltslöndunum standa systursamtökum sínum á Norðurlöndum langt að baki hvað varðar skipulag og styrk og að samningaviðræðuferlið sé sjaldnast í föstum skorðum. Það er sérstaklega tekið fram að hugsanleg aðstoð Norðurlanda við skipulag vinnumarkaða í Eystrasaltsríkjunum fari fram á forsendum heimamanna og fullt tillit verði tekið til sögulegra aðstæðna. Niðurstaða vinnuhópsins sem samþykkt var á Norðurlandaráðsþingi var að biðja norrænu ráðherranefndina að gangast fyrir vinnumarkaðsráðstefnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna með það að markmiði að greina þarfir samtaka vinnumarkaðarins í Eystrasaltsríkjunum fyrir stuðning og því næst gera tillögur um verkefni og aðgerðir á þessu sviði.``

Ég gat reyndar um að sú ráðstefna stæði fyrir dyrum, herra forseti, í ræðu minni við 2. umr. þessa máls en ég taldi ástæðu til að gera svolítið ítarlegar grein fyrir þessu og vitna þá beint í það sem um þetta segir í skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs því að mér finnst það eiga erindi inn í umfjöllun um málið að um það hefur einnig verið talsvert fjallað á vettvangi Norðurlandasamstarfsins. Ég hygg að það sé skynsamlegt að Norðurlöndin stilli saman strengi og beiti sér í þessum efnum í gegnum sinn sameiginlega vettvang, þ.e. Norðurlandaráð, þótt að sjálfsögðu skipti einnig máli að hvert og eitt ríki taki málin til skoðunar hjá sér og út frá sínum forsendum.

Mönnum finnst Norðurlandasamstarfið kannski stundum pínulítið fjarlægt og þeir átta sig ekki endilega á því að þar er þó jöfnum höndum verið að fjalla um praktísk verkefni sem hafa mikið gildi og þýðingu gagnvart atburðum í stjórnmálum og efnahags- og atvinnulífi í nútímanum --- Norðurlandasamstarfið snýst ekki aðeins um menningarsamstarf og veisluhöld eins og sumir vilja vera láta --- og hér er á ferðinni gott dæmi að mínu mati um mjög hagnýtt samstarfssvið þar sem enginn vafi er á að Norðurlöndin sameiginlega eru miklu betur í stakk búin til að beita sér en hvert ríki út af fyrir sig.

Það er líka ljóst að í þessum efnum horfa Eystrasaltsríkin og nýju aðildarríkin mjög til Norðurlandanna og norræns fyrirkomulags í þessum efnum um fyrirmyndir. Það stendur þá auðvitað upp á okkur að bregðast ekki þeim væntingum sem við okkur eru bundnar úr þeirri átt.

Til viðbótar Eystrasaltsríkjunum skiptir Pólland auðvitað miklu máli. Þó að þetta vinnumarkaðssamstarf við Eystrasaltsríkin væri undir þeim formerkjum á vettvangi Norðurlandaráðs var einnig reynt að horfa til Póllands og hinna níu aðildarríkjanna vegna mikilvægis þeirra. Það er hins vegar hlutur sem Ísland ætti kannski sérstaklega að skoða, eins og ég vék reyndar einnig að í ræðu minni við 2. umr., að okkar miklu samskipti við Pólland skapa því máli talsverða sérstöðu og mér fyndist tilvalið að það yrði skoðað af samtökum aðila vinnumarkaðarins hér, félmrn. og þinginu, að á næstu missirum yrði farið sérstaklega yfir það hvort ekki væri í gegnum tvíhliða samskipti ástæða til að Ísland og Pólland notuðu tímann fram að 1. maí 2006, ef um verður að ræða þennan tveggja ára aðlögunartíma og kannski ekki meira, til að undirbúa hlutina þannig að samruni vinnumarkaðanna að þessu leyti milli Íslands og Póllands gæti gengið sem allra snurðulausast fyrir sig. Það mundi í sjálfu sér kannski ekki snúast svo mikið um reglusetningar eða annað í þeim dúr því að ósköp einfaldlega verður um það að ræða að pólskt verkafólk eigi þá fullan aðgang að íslenska vinnumarkaðnum, og öfugt auðvitað, frá þessum tíma. Það að miðla upplýsingum og kynna mönnum réttindi og skyldur frá báðum hliðum, launamanna og atvinnurekanda, eru hlutir sem örugglega mætti vinna í.

Þetta var það, herra forseti, sem ég ætlaði að bæta inn í umræðuna af minni hálfu og gera aðeins ítarlegar grein fyrir en ég gerði við 2. umr.