Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 11:48:03 (5211)

2004-03-11 11:48:03# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[11:48]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, formaður Alþfl., talsmaður Samf. í utanríkismálum, fer hér mikinn og nokkuð í hjólför formanns síns Össurar Skarphéðinssonar sem taldi a.m.k. stórsögulegan atburð ef ekki bara heimssögulegan atburð hafa orðið hér í umræðum um þetta mál fyrir tveim dögum síðan. Minnir það mig á einn af lærifeðrum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í pólitík, núverandi Bessastaðabónda. Hann tók gjarnan þannig til orða að hlutir væru sögulegir (ÖS: Varst þú ekki ...) og miklir og þurfti ekki alltaf stórtíðindi til að sá ágæti maður og fyrrverandi hv. þm. væri upptekinn af sögunni.

Nú er það svo að stjórnmálin eru ekki raunvísindi. Stjórnmál eru ekki raunvísindi. Mér finnst hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson feila sig svolítið á því í sambandi við orðanotkun að stjórnmálin og stjórnmálasagan eru ekki eins og stærðfræði þannig að hægt sé að taka menn í próf og gefa þeim fyrir ýmist rétt eða rangt eftir því hvort útkoman úr dæminu er nákvæmlega í samræmi við lögmál stærðfræðinnar, lögmál raunvísindanna. Stjórnmál eru huglægt fyrirbæri, lifandi veruleiki og það er ákaflega erfitt finnst mér að kveða upp dóma um það gagnvart stjórnmálunum eins og öðrum þáttum sögunnar að einhverjir hafi haft rétt fyrir sér og aðrir rangt. Ég vandi mig af því fyrir um 15 árum held ég að taka þannig til orða í umræðum um stjórnmál. Rétttrúnaðarhugsun eða raunvísindahugsun í umræðum um huglæg fyrirbæri eins og stjórnmál á ekki rétt á sér, finnst mér. Auðvitað verður hver að ráða sínum orðum og ef hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni líður betur með fullyrðingar af því tagi að sumir hafi haft rétt fyrir sér og aðrir rangt í sambandi við einstaka atburði í stjórnmálum, þá bara það, þá heldur hann því áfram.

Einn vandinn við að ræða hlutina undir þessum formerkjum í stjórnmálum er líka sá að við höfum aldrei samanburðinn. Það þýðir ekkert að ræða stjórnmál í þáskildagatíð, ef, ef, þ.e. ef eitthvað hefði gerst öðruvísi eða orðið hinsegin. Hvernig væri heimurinn þá? Hver væri staðan? Þetta eru yfirleitt gagnslausar vangaveltur þegar frá líður vegna þess að rás atburðanna var með tilteknum hætti og skapar þann veruleika sem við stöndum frammi fyrir og út frá honum ræðum við málin og tökumst á í núinu. Það þjónar litlum tilgangi að velta því fyrir sér, ef, ef, ef, ja ef Napóleon hefði unnið en ekki tapað (Gripið fram í.) o.s.frv., ef menn hefðu ekki stofnað lýðveldi á Íslandi 1944 heldur væru enn hluti af Danmörku. Væru þá íslensk stjórnmál í ætt við þau færeysku í dag o.s.frv.? Þetta getur kannski verið sagnfræðilega skemmtilegt sem æfing en þjónar ekki miklum tilgangi, finnst mér, í raunheimi stjórnmálanna á líðandi stundu.

Varðandi afstöðu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til þessa máls sem ég hef ítarlega gert grein fyrir þá liggur hún fyrir. Við höfum ýmsa fyrirvara á stuðningi okkar við þetta mál, en hann hefur legið fyrir, og eftir ágæta umfjöllun málsins í utanrmn. þá komst ég að þeirri niðurstöðu og lagði það til við minn þingflokk að við hefðum þessa afstöðu til málsins eins og við höfum iðulega gert gagnvart ýmsum málum sem tengjast Evrópusamvinnunni og tengjast samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þó að við höfum sum okkar --- eða fyrst og fremst sá sem hér talar sem einn þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sat á þingi þegar sá samningur var afgreiddur --- greitt atkvæði gegn honum. Það boðar enga stefnubreytingu af hálfu þessa flokks, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem var stofnaður 6. febrúar 1999 og þeirra nýju stjórnmálamanna sem skipa þar forustusveit og flestir gerðust virkir í stjórnmálum eftir að EES-samningurinn var tekinn hér upp.

Nú er það þannig að þrír flokkar af fimm a.m.k. á Alþingi telja ekki hagstætt fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Er það ekki svo? (Gripið fram í: Eða fjórir.) Ja, ég veit ekki, þrír og hálfur kannski. Samfylkingin virðist vilja það, já og hefur verið að fikra sig áfram í þá átt. Ég veit ekki hvort hv. þm. Össur Skarphéðinsson er að ýja að því að Framsókn sé kannski eitthvað svona ... (ÖS: Ja, þú sagðir þrír.) Ég sagði þrír þingflokkar já, þ.e. þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sem stjórnmálaafl, Sjálfstfl. og Frjálsl. Ég hygg að það (Gripið fram í.) liggi skýrt fyrir að þessir þrír þingflokkar telja ekki hagstætt Íslendingum að ganga í Evrópusambandið við núverandi aðstæður. Þetta liggur fyrir. Engu að síður geta þessir flokkar og þingmenn þeirra vel stutt einstaka hluti af þessu tagi sem tengjast núverandi grundvelli Evrópusamvinnunnar sem er með kostum sínum og göllum eins og hann er. Svo einfalt er þetta mál. Sú ákvörðun þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að styðja inngöngu þessara níu Austur-Evrópuríkja í Evrópusambandið sem auðvitað er ekki okkar mál að ákveða nema að því eina leyti að EES-samningurinn er þannig úr garði gerður að þessi ríki öðlast þar með sjálfkrafa hlutdeild í honum líka nema við leggjumst gegn því, boðar engin tíðindi, finnst mér, umfram það að við höfum oft stutt ýmsar gerðir sem koma frá Evrópusambandinu á grundvelli EES-Samningsins, þ.e. ef við höfum ekki talið ástæðu til að leggjast gegn þeim. Það höfum við hins vegar gert kannski einn flokka þegar svo ber undir að við höfum verið gersamlega andvíg því að Íslendingar innleiddu viðkomandi hluti. Dæmi: Raforkutilskipunin. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð einn flokka stóð þá vaktina og var með fulla meðvitund þegar í byrjun var fallið frá stjórnskipulegum fyrirvara gagnvart raforkutilskipun Evrópusambandsins og síðar þegar það mál kom hér til formlegrar afgreiðslu. Þá sváfu allir á sínu græna eyra nema við. Svo vakna menn upp núna úti í ráðhúsi, varaformaður Samfylkingarinnar og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forustumaður sjálfstæðismanna í borgarstjórn, og spyrja hvers vegna í ósköpunum Ísland sé að innleiða þessa vitlausu orkutilskipun Evrópusambandsins sem kemur okkur ekkert við því að við erum einangraður orkumarkaður á eyju úti í miðju Atlantshafi. Það var vonum seinna að menn rönkuðu við sér þannig að við höfum, herra forseti, haft þann háttinn á, og munum hér eftir sem hingað til gera, að segja kost og löst á þessum hlutum og taka afstöðu til þeirra út frá því.

Er eitthvað um það að segja annað en gott þegar mál liggja fyrir með þeim hætti sem þau gera í þessu tilviki? Ég sé engar efnislegar ástæður til þess að leggjast gegn þessari stækkun Evrópusambandsins. Það er ekki í okkar valdi að ákveða það að þessi ríki gangi í Evrópusambandið. Það eina sem gæti gefið tilefni til þess að við færum að leggjast gegn því væri að við teldum það á einhvern hátt algerlega ósamrýmanlegt hagsmunum okkar vegna Evrópska efnahagssvæðisins. Það er ekki svo úr því að sæmilegir samningar, að vísu dýrir, náðust um að tryggja áframhaldandi markaðsaðgang okkar að þessum svæðum. Heldur versnar hann að vísu því að áður höfðum við fulla fríverslun t.d. með síldarvörur inn á þessi lönd en nú eru tollfrjálsir kvótar þannig að auðvitað er þetta ekki að öllu leyti nógu hagstæð niðurstaða. En við verðum líklega að láta okkur það lynda eins og hún er í pottinn búin og við erum að borga fyrir þetta talsverða fjármuni. Því væri ósköp einfaldlega, herra forseti, óefnislegt og ómálefnalegt að leggjast gegn því að þetta gengi í gegn algerlega burt séð frá afstöðu manna til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma og burt séð frá því hvort menn hafi mótaða stefnu, eins og sumir flokkar hafa, um það hvort að hagstætt sé eða ekki hagstætt að ganga í Evrópusambandið. Það höfum við. Við höfum farið rækilega í gegnum þetta mál í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Við gerðum það strax við stofnun flokksins og áherslur okkar í þeim efnum eru óbreyttar. Það er að sönnu mikill misskilningur, og ég hlýt að hryggja hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson með því að eyða allri óvissu hans og öllum misskilningi um það, að afstaða okkar gagnvart þessu máli boðar enga stefnubreytingu af hálfu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, 0,0. Það sannast m.a. af því að ég í ræðu minni við 2. umr. málsins vitnaði í þáltill. sem hefur legið fyrir á borðum þingmanna ár eftir ár og verið er að endurflytja í fjórða sinn. Þetta er í fimmta sinn sem sú tillaga sem lýsir kjarnanum í stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hvað Evróputengslin varðar liggur fyrir þannig að það er skjalfast og rækilega sannað hér þó það væri á hinn bóginn í sjálfu sér ekkert merkilegt við það þó að einhverjar áherslubreytingar gætu orðið með tímanum hjá okkur eins og öðrum í málum af þessu tagi. Auðvitað eru menn alltaf með augun opin og að skoða það sem í kringum þá gerist. Það erum við a.m.k. og teljum það ekki þurfa að vera á kostnað þess að við getum ekki haft afstöðu í málinu.

Eitt af því undarlega við Evrópuumræðuna oft á undanförnum árum finnst mér vera að það er stundum talað eins og það sé eitthvað að því í sjálfu sér að hafa stefnu, að taka afstöðu í málinu, að þetta sé eitthvert fyrirbæri af því tagi að menn eiginlega megi ekki hafa of mikla skoðun á því af því að það þurfi að ræða það og skoða það og velta vöngum fyrir því. Þetta kemur mér spánskt fyrir sjónir. Mér finnst að þetta sé auðvitað þannig að menn skoða hlutina, taka svo afstöðu til þeirra eins og þeir liggja fyrir. Það er þeirra stefna. Það er niðurstaða þeirra í tíma og í því rúmi sem þeir finna sig í. Það þýðir ekki að hlutirnir verði óumbreyttir um aldur og ævi. Ég þekki engan stjórnmálaflokk sem yfirleitt er þeirrar skoðunar að þó að hann hafi ákveðna stefnu til mála á líðandi stundu þá þýði það að hann geti engu breytt, hann hafi þar með gengið frá því um aldur og ævi ad infinitum. Við vinnum a.m.k. ekki með því hugarfari hjá okkur, alls ekki, herra forseti.

Ég ætlaði svo sem ekki að fara að ýfa þessa umræðu upp að öðru leyti en úr því að tilefni gafst til ákvað ég að taka af skarið og upplýsa um þessa hluti nánar fyrir hönd míns flokks og vonandi taka menn það gilt. Ég held að það séu ekki aðrir bærari til þess að tala fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð í þessum sölum en sá sem hér stendur.