Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 12:10:56 (5217)

2004-03-11 12:10:56# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[12:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að þingmenn Samf. hafa gaman af þessu og ég hef það í sjálfu sér líka og er tilbúinn til að vera í þessu í allan dag. Það er þá helst af tillitssemi við aðra hv. þm. og önnur verkefni á þinginu sem við ættum kannski að stilla okkur í hóf með þetta.

Það liggur einfaldlega þannig fyrir að stjórnmálaflokkur sem er stofnaður 1999 og setur sér þá stefnuskrá og mótar áherslur sínar er auðvitað óbundinn af einhverri fortíð annarra stjórnmálahreyfinga. Það gildir hins vegar annað um mig sem stjórnmálamann. Stjórnmálamaðurinn Steingrímur J. Sigfússon hefur að sjálfsögðu setið á Alþingi í 21 ár og ég hef ekkert til að skammast mín fyrir á þeim ferli svo ég viti og alls ekki fyrir afstöðu mína til EES-samningsins á sínum tíma. Mat mitt á honum og viðhorf mín til hans í almennu samhengi eru í aðalatriðum þau sem þau voru þá. Ég hef ekki skipt um skoðun að hann er gallaður og á nú marga fylgismenn í því mati sem ekki töluðu þannig á sínum tíma og taka nú undir og hafa uppi ýmsar röksemdir, sem við sem ýmist ekki treystum okkur til að styðja hann eða greiddum atkvæði gegn þeim samningi á sínum tíma bentum á, svo sem í sambandi við aðkomu Íslands að samningnum, þolmörkum hans gagnvart stjórnarskránni og annað í þeim dúr. En það er önnur saga.

Síðan finnst mér öll umræðan dálítið skondin í ljósi þess að EES-samningurinn er ekki til afgreiðslu hér. Það er ekki verið að afgreiða EES-samninginn, hann er ekki til atkvæða hér sem slíkur. Hann liggur fyrir og ekki verið að breyta honum. Það er eingöngu verið að taka afstöðu til þess hvort við ætlum að leggjast gegn því eða samþykkja það að hin níu aðildarríki Evrópusambandsins gerist jafnframt eins og sjálfvirkt er innibyggt í gildandi fyrirkomulag, aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Menn þurfa að mínu mati að hafa einhver efnisleg rök ef þeir ætla að fara að leggjast gegn því, burt séð frá viðhorfum þeirra til Evrópusambandsins eða kostum og göllum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.