Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 12:55:09 (5223)

2004-03-11 12:55:09# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[12:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski álitamál hvort hér hefur verið stefnubreyting hjá VG. Hugsanlega höfum við þingmenn úr ýmsum flokkum sem höfum tekið þátt í þessari umræðu ekki fylgst nægilega vel með þróun innan þess flokks. Það er vel hugsanlegt að þessi afstöðubreyting hafi orðið miklu fyrr en við gerðum okkur grein fyrir.

En eftirfarandi er alveg ljóst: Formaður VG hefur lýst yfir í þessari umræðu að hann sé Evrópusinni, alþjóðahyggjusinni, róttækur jafnaðarmaður og að hann telji að efnahagslegar afleiðingar EES hafi verið mjög góðar. Það er auðvitað allt annað en hann taldi áður.

Það sem skiptir þó langmestu máli er að þingmenn VG sátu ekki hjá við þessa atkvæðagreiðslu. Þeir greiddu atkvæði með stækkun Evrópska efnahagssvæðisins, sem þýðir að þeir telja að tilvist þess sé jákvæð og réttlætanleg, ella hefðu þeir --- þó þeir hefðu ekki greitt atkvæði gegn og staðið gegn stækkuninni --- setið hjá. Afstöðubreytingin felst í því að þeir leggja atkvæði sitt með því að stækka EES og þar af leiðandi til að við getum notið þeirrar efnahagslegu velsældar sem hefur stafað af sambandinu og væntanlega af stækkun þess. Þetta er algjör stefnubreyting hvað varðar viðhorf VG til þessa og ég fagna henni auðvitað. Mér finnst þetta jákvætt.

Ég hef spurt hv. þingmenn VG af hverju þeir stíga ekki skrefið til fulls. Af hverju ákveða þeir bara ekki að slást fyrir umbótunum innan Evrópusambandsins í staðinn fyrir að vera stundum rödd hrópandans í eyðimörkinni langt fyrir utan?