Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 14:16:30 (5233)

2004-03-11 14:16:30# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gefur okkur ákveðna innsýn í hugarheim hv. þm. Marðar Árnasonar þegar hann talar um að mér hafi ekki verið kynnt ákveðin sjónarmið. Ég hafi ekki fengið fyrirmæli um stefnu sem ég eigi að fylgja. Ég get fullvissað hv. þm. um að innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, þingflokksins, og flokksins almennt, er fullkomin samstaða um þessi mál.

Ég reifaði áðan hvernig ég teldi að hagsmunum Íslands hefði verið betur þjónað með því að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið á sínum tíma fremur en að ganga inn í Evrópska efnahagssvæðið. Ég sagði jafnframt og tiltók rök fyrir því, að samningsstaða okkar til slíkra samninga væri allt önnur nú ef við gengjum út úr hinu Evrópska efnahagssvæði. Aðstaðan er önnur til að gera samninga um tolla og annað af því tagi. Þess vegna hefðum við aldrei lagt til að Íslendingar gengju út úr hinu Evrópska efnahagssvæði.

Ég hef hins vegar fært fyrir því rök að innganga í Evrópusambandið mundi veikja samningsstöðu okkar í mörgum helstu hagsmunamálum okkar. Ég vísaði þar sérstaklega í fiskveiðarnar. Við mundum tapa samningsumboði á milli 12 og 200 mílna og um allt sem hrærðist í úthafinu sem er um 30% af útflutningsverðmætum okkar úr sjónum. Ég varaði því eindregið við þeirri stefnu að við gengjum inn í Evrópusambandið. Ég tel það ekki heppilegt.

Ég held hins vegar að Íslendingar hefðu getað nýtt sér miklu betur heimildir til undanþágu en við höfum gert. Þar vísa ég t.d. til póstsins og raforkunnar. Margir eru einmitt farnir að taka þá afstöðu í seinni tíð.