Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 14:42:17 (5242)

2004-03-11 14:42:17# 130. lþ. 82.4 fundur 552. mál: #A Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra# (gjaldtaka o.fl.) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Samfylkingin styður eins og fram hefur komið afgreiðslu þessa frv. og skrifar undir nál. án fyrirvara. Vegna þess að við 1. umr. voru einhverjar efasemdir um að þetta þýddi auknar gjaldtökuheimildir sem bitnuðu á þeim sem þurfa á þjónustu Þjónustu- og endurhæfingarstöðvar sjónskertra að halda vil ég taka fram að í umræðu í nefndinni kom mjög skýrt fram hjá fulltrúum frá ráðuneytinu að svo er ekki. Það er ekki um auknar gjaldtökur að ræða, ekki neitt í þá veru, enda kom mjög skýrt fram í kostnaðarmati sem fylgdi frv. að það verða engar breytingar hvorki til tekjutaps né tekjuauka fyrir ríkissjóð verði frv. samþykkt. Hér er aðeins verið að uppfylla kröfur um lagasetningu varðandi gjaldtöku.

Þær breytingar sem hér hafa verið gerðar eru heldur til bóta. Við styðjum frv. en minnum jafnframt á að í umfjöllun hjá heilbr.- og trn. er annað frv. sem varðar Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra, sem reyndar er kölluð Sjónstöð Íslands í dag. Það frv. er flutt af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur o. fl. þar sem fyrst og fremst er fjallað um rétt barna sem þurfa á aðstoð Þjónustu- og endurhæfingarstöðvar að halda. Við styðjum því frv. en ég vildi aðeins að það kæmi mjög skýrt fram að það þýðir ekki auknar gjaldtökur, við vorum fullvissuð um það.