Varnir gegn mengun hafs og stranda

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 15:03:00 (5247)

2004-03-11 15:03:00# 130. lþ. 82.5 fundur 162. mál: #A varnir gegn mengun hafs og stranda# (heildarlög) frv., Frsm. SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Frsm. umhvn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt 13. gr. er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun annist samræmingu milli svæða og beri ríkissjóður kostnað af samræmingunni þannig að mjög skýrt er kveðið á um það í frv. Hins vegar er hugmyndin að baki svæðisnefndunum sú að tryggja tengingu heim í hérað varðandi nauðsynleg viðbrögð og viðbúnað við bráðamengun hafs og stranda og að þeir sem hafa þekkingu á aðstæðum og staðháttum, aðgang að mannafla og tengsl við fyrirtæki á svæðinu, komi að þessum málum og tryggi þannig samtengingu bæði við minni og stærri atvik. Þetta er í raun það sem verið er að ná fram með þessu.

Eins og ég nefndi áðan í framsögu minni taldi fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga sem kom á fund nefndarinnar að efla þyrfti samvinnu sveitarfélaga á þessu sviði.