Varnir gegn mengun hafs og stranda

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 15:38:01 (5256)

2004-03-11 15:38:01# 130. lþ. 82.5 fundur 162. mál: #A varnir gegn mengun hafs og stranda# (heildarlög) frv., AtlG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Atli Gíslason:

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni umhvn. Sigríði Önnu Þórðardóttur vel fyrir skilmerkilega framsögu. Ég er samþykkur efni frv. með þeim fyrirvara sem felst í brtt. hv. þm. Marðar Árnasonar, Bryndísar Hlöðversdóttur, Jóns Kr. Óskarssonar og mín. Þar er gert ráð fyrir að í svonefndum svæðisráðum skuli auk atvinnurekenda sitja fulltrúar umhverfis- eða náttúruverndarsamtaka.

Ég hygg að það sé gott að sjónarmið beggja aðila fái að njóta sín í slíkri nefnd. Kjarni átaka í umhverfismálum er kannski einmitt sá að hagsmunir atvinnurekenda og umhverfissinna vegast á. Það er afar brýnt í þessum málum að ná sátt í þeim og það verður ekki gert með einhliða skipun atvinnurekenda í slíkar nefndir.

Ef til vill er besti rökstuðningurinn fyrir þessari tillögu að vísa til skipunar umhvn. Þar situr gott fólk með nokkuð fjölbreyttan bakgrunn úr atvinnulífi og öðrum störfum þjóðlífsins sem ná þeirri bærilegu sátt sem er um frv. Tekist er á um sjónarmiðin, þau koma fram og það næst mjög bærileg sátt um frv. þannig að það eru e.t.v. helstu rökin sem ég get fært fram hér auk þess að vísa í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar.

Hvað aðrar breytingar varðar og vil ég gera að umtalsefni athugasemdir hv. þm. Marðar Árnasonar. Það má vel vera að lögfræði sé skrýtið fag en ég tel það ekki eftir mér að vinna löggjafarvinnu á þinginu því að þar hélt ég að hún ætti að fara fram. Betur sjá augu en auga og það er auðvitað af hinu góða að nefndir þingsins skuli sjá annmarka og leiðrétta þá og taki ekki öllu sem sjálfsögðu sem kemur af ríkisskepnunni. Það veitir mér vissa öryggiskennd að upplifa það.

Fyrirvari minn hefði allt eins átt að lúta að öðru því að hann er í sjálfu sér ekki stórvægilegur miðað við allt þetta frv. En það væri e.t.v. óvenjulegur fyrirvari. Sá fyrirvari lýtur að störfum nefndarinnar ef fyrirvara má kalla. Ég vil bara lýsa yfir mikilli ánægju minni með vandaða málsmeðferð í nefndinni og faglega. Ég kom mjög seint að vinnslu þessa máls þannig að mér ber ekki að þakka fyrir það sem liggur hér fyrir. En ég komst þó ekki hjá því á þessum fundum sem ég sat um þetta frv. og vinnslu þess að veita þessum faglegu vinnubrögðum athygli. Þau vöktu ánægju mína. Því vildi ég halda til haga í öðrum fyrirvara mínum í þingræðu og þakka formanni nefndarinnar og nefndarmönnum góð störf.