Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 17:01:07 (5273)

2004-03-11 17:01:07# 130. lþ. 82.9 fundur 565. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (upplýsingaskylda, málshöfðunarheimild) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[17:01]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Því miður er margt sem bendir til þess að kynbundinn kjaramunur í landinu sé að aukast. Það á við á almennum vinnumarkaði, það á við hjá ríki og það á við hjá Reykjavíkurborg. Ég held að það sé aðeins orðum aukið að þetta sé allt að færast til betri vegar þar á bæ, en það var einmitt varað við því á sínum tíma þegar menn tóku upp dreifstýrðara launakerfi að niðurstaðan gæti orðið þessi.

Það sem hins vegar hefur gerst hjá Reykjavíkurborg, gagnstætt því sem gerðist hjá ríkinu, er að Reykjavíkurborg hefur haft uppi tilburði til þess að upplýsa um launakjörin, gera kannanir á stöðu mála, en hjá ríkinu hefur verið þögn að þessu leyti.

Frumvarpið sem hér liggur fyrir er að mörgu leyti mjög merkilegt frv. vegna þess að þar er gerð tilraun til að færa okkur í hendur tæki til þess að taka á þessum málum á markvissan hátt.

Það er alveg rétt sem hv. 1. flm. Atli Gíslason sagði áðan að jafnréttisbarátta væri mannréttindabarátta og mannréttindabarátta ætti að vera hafin yfir flokkadrætti. Þetta er rétt og þannig á að hugsa. Hins vegar ætlaði ég í fullri hógværð að benda á að það er þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem stendur að þessu tiltekna máli og þar á 1. flm. mikinn heiður skilinn, hann hafði frumkvæði að málinu og veg og vanda af samningu frv.

Ég get alveg upplýst það hér og nú að nokkrar umræður urðu um málið innan þingflokksins. Þar á meðal staldraði sá sem hér stendur við það ákvæði 2. gr. frv. að Jafnréttisstofa gæti við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð fyrirtækis og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður væru til að ætla að brotið hefði verið gegn lögum eða fyrirmælum Jafnréttisstofu. Væri ekki langt gengið, spurði sá sem hér stendur, að færa Jafnréttisstofu nánast lögregluvald að þessu leyti? Þá var á það bent að við værum þegar allt kæmi til alls að tala um landslögin, að þau væru virt, og ekki bara landslög heldur stjórnarskrá lýðveldisins, því eins og fram kemur í grg. með frv. segir í 65. gr. stjórnarskrárinnar að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis og að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna.

Síðan hefur komið fram í könnunum aftur og ítrekað að sú er ekki raunin, að kynjunum er mismunað freklega og ekki aðeins hvað varðar tekjurnar og möguleika til tekjuöflunar heldur einnig ef málin eru gaumgæfð með tilliti til vinnuframlags. Þá er um að ræða kynbundinn launamun sem talinn er vera á milli 14 og 18%, eins og fram kemur í grg. með frv.

Einnig kemur fram í frv. að kynbundinn kjaramunur er meiri á almennum markaði en hjá hinu opinbera en hins vegar hafi þróunin verið að færast í þá átt hjá hinu opinbera sem er við lýði á almennum markaði. Hvernig stendur á því? Jú, m.a. vegna breytinga á launakerfunum þar sem dregið hefur verið úr miðstýringu og launaákvarðanir færðar inn á einstakar stofnanir og jafnvel í átt að einstaklingsbundnum samningum. Það var um þau efni sem menn tókust á í hatrömmum átökum árið 1996, utan þings og innan. Þá voru gerðar ýmsar breytingar á lögum og var ætlunin m.a. að festa í lög ákvæði þess efnis að forstöðumenn í stofnunum hefðu sjálfdæmi um hvað einstaklingar fengju í laun. Mig minnir að þetta hafi verið hin umdeilda 9. gr. viðkomandi laga. Hún var hins vegar sett á ís vegna andstöðu frá stéttarfélögunum sem kröfðust félagslegrar aðkomu að kjarasamningum. Reyndar voru deilur innan samtaka launafólks um hve langt ætti að ganga í dreifstýrðum kjarasamningum. Sumir vildu fara hægt í sakirnar og aðrir vildu ganga nokkuð langt í því efni, en um hitt voru allir sameinaðir að mikilvægt væri að tryggja félagslega aðkomu að samningum.

Taka má sem dæmi að bónuskerfin, þótt skiptar skoðanir séu um slík kerfi hjá fólki sem vinnur annað en skorpuvinnu, byggja á félagslegum samningum. Þar er samið um tiltekna útreikninga og ákvæði en félagsleg aðkoma er að samningaborðinu. Þegar upp var staðið höfðu lögin því verið bætt nokkuð að þessu leyti.

Það sem er eftirminnilegt frá þeirri umræðu voru yfirlýsingar ráðherra og fulltrúa ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á Alþingi, sem er sá sami og þá sat, um að allt væri þetta gert til að draga úr launamisrétti og sérstaklega kynjamisrétti. Launakerfisbreytingarnar væru sérhannaðar með það í huga. Við sem vorum efasemdarmenn um þetta nefndum þá eða spurðum út í þann þátt sem mestu máli skiptir, þ.e. upplýsingarnar, að launaleynd yrði aflétt. Það var svo í tengslum við aðra lagasetningu sem það fékk talsverða umræðu og það voru upplýsingalögin. Við vildum sum fá það fest í upplýsingalög að stéttarfélögin hefðu aðgang að upplýsingum um launakjör. Það náðist ekki fram. Hins vegar var það sett í greinargerð laganna og skýrt frá því þegar lögin voru kynnt á Alþingi í framsöguræðum að stéttarfélögin og reyndar allir ættu að hafa aðgang að öllum föstum samningum um launakjör, um bifreiðastyrki og um fasta yfirvinnu, ef um slíkt var að ræða. Stéttarfélögin ættu að hafa aðgang að öllu þessu.

Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin. Stéttarfélögin hafa ekki fengið aðgang að þessum upplýsingum. Þegar kærumálum eða kvörtunum var beint til úrskurðarnefndar um upplýsingalög, minnir mig að hún heiti, vísaði hún þessu frá. Lögum er því ekki framfylgt að þessu leyti. Og hér er ég kominn að þessu frv. og hinu róttæka framlagi sem það færir okkur inn í þessa umræðu, tæki til þess að taka á málum. Ekki aðeins á Jafnréttisstofa að geta krafið opinberar stofnanir, stofnanir í eigu og umsjá ríkis eða sveitarfélaga, heldur einnig fyrirtæki á markaði um upplýsingar um kjörin. Það skal að sjálfsögðu farið samkvæmt ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga en þessi stofnun sem á að fylgjast með því að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fullnægt, fái aðgang að þessum upplýsingum. Það er hið róttæka í þessu máli. Og það sem gerir þetta að öðru en orðunum tómum er að þarna er reynt að finna nýjar leiðir til þess að taka á markvissan hátt á málunum og það er skilgreint sem grundvallaratriði að aflétta leyndinni.

Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri um orð um frv. en taka undir það sem menn hafa verið að furða sig á innan þingsins og í þjóðfélaginu, sem fram kom í svari við fyrirspurn á Alþingi um launakjörin á Litla-Hrauni þar sem upplýst var að tiltekin störf sem karlar sinntu gæfu af sér meiri arð og þess vegna bæri að verðlauna þau meira en störf sem eru á sviði hefðbundinna kvennastarfa, þrif og umönnunarstörf. Það er gott að fá slíkar upplýsingar, það er gott að opna þessa umræðu því þarna erum við komin að kjarna málsins.

Það er rétt sem fram kom í umræðunni að þótt ég geti því miður ekki veitt Reykjavíkurborg sérstaka syndaaflausn í jafnréttismálum þegar kemur að laununum, þegar litið er á muninn á milli þeirra sem eru lægstir og það eru að uppistöðu til þá kvennastörf, og hins vegar hinna sem eru betur borgaðir, er engu að síður meiri og ríkari vitund um mikilvægi þess að taka á málum þar. Þess vegna olli það okkur sumum, sem gerðum kannski meiri kröfur til R-listans og stjórnenda Reykjavíkurborgar, nokkrum áhyggjum á sínum tíma, og við gagnrýndum það, þegar borgin greindi sig ekki frá ríkisstjórninni þegar hið nýja launakerfi var tekið upp í lok ársins 1996 og sérstaklega þó á árinu 1997.

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frv. er komið fram. Ég sakna þess reyndar mjög við umræðuna að enginn sjálfstæðismaður, enginn fulltrúi Sjálfstfl. og enginn fulltrúi Framsfl. sér ástæðu til að taka þátt í henni. Hvaða afstöðu hafa sjálfstæðismenn til þessa máls, frv. um breytingar á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla? Og hver er afstaða Framsfl.? Ég auglýsi eftir henni. Hér gerist það trekk í trekk þegar verið er að færa inn í þingið mál sem eiga að draga úr misrétti í samfélaginu, sem eiga í þessu tilviki að jafna stöðu kvenna og karla. Ég minni á mál sem hæstv. núv. forseti flutti um daginn og laut að kjörum láglaunafólks en þá tóku engir sjálfstæðismenn og engir framsóknarmenn þátt í umræðu um það efni. Ég auglýsi eftir afstöðu þeirra flokka til þessa merkilega máls, sem ég tel vera, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.