Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 17:14:53 (5274)

2004-03-11 17:14:53# 130. lþ. 82.9 fundur 565. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (upplýsingaskylda, málshöfðunarheimild) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[17:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég sé ástæðu til við upphaf máls míns að þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir hans frumkvæði í þessu máli og fyrir að hafa lagt vinnu í að semja þetta frv. Ég leyfi mér að ganga svo langt að segja að frv. boði tímamót í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna, að mínu mati hiklaust mestu tímamót sem orðið hafa í þeirri baráttu síðan fæðingarorlofsskipanin hin nýja komst á fyrir nokkrum árum. Frá því að lögin voru sett sem tóku gildi í júní árið 2000 sem vissulega fólu í sér ákveðin nýmæli þó að önnur ákvæði þeirra væru umdeild og síðan fyrir um það bil svipuðum tíma að hin nýja skipan fæðingarorlofsmála komst á þá hefur satt best að segja ekki mjög mikið til borið í þessum efnum hér á vettvangi löggjafans fyrr en þetta frv. birtist. Það boðar alveg óumdeilanlega tillögur að verulegri endurskipulagningu þessara mála hvað varðar stöðu Jafnréttisstofu og möguleika hennar til að sinna sínum verkefnum.

Ég tek undir með síðasta ræðumanni að mig undrar mjög tómlæti talsmanna stjórnmálaflokkanna á þingi í þessu máli. Ég hafði gefið mér það að mælendaskrá mundi fyllast af áhugasömu fólki um jafnréttismál og frekar fleiri en færri kæmu frá hverjum flokki inn í umræðuna. Það er reyndar einnig athyglisvert og ágætt í sjálfu sér að karlar hafa verið áberandi í umræðunni að þessu sinni. Stundum hefur viljað fara svo að þegar jafnrétti kynjanna og kvenfrelsismál ber á góma hér á þingi taka fyrst og fremst þingkonur þátt í þeirri umræðu. Við höfum stundum verið tiltölulega einmana þeir karlar sem höfum reynt að blanda okkur í þann kór. En nú ber nýrra við og það er í sjálfu sér ágætt að við höfum fyrst og fremst verið karlar enn sem komið er a.m.k. sem höfum tekið þátt í umræðunni. Það er líka ánægjulegt og táknrænt í sjálfu sér fyrir þá hugsun að jafnréttismál og barátta fyrir jafnrétti kynjanna er ekki síður verkefni okkar karlanna en kvenna að 1. flm. málsins er karl.

Ég vil líka segja, frú forseti, að mér finnst að hæstv. ráðherra jafnréttismála ætti að vera viðstaddur svona umræðu. Ég vil a.m.k. að honum sé gert viðvart um það, hafi það ekki verið gert nú þegar, að hér fer fram umræða um málið. Ég heyrði ekki að hæstv. félmrh. hefði neina fjarvist frá þingstörfum í dag þannig að ég leyfi mér að koma þeirri ábendingu til forseta og óska eftir því að hæstv. jafnréttisráðherra verði látinn vita um að þessi umræða fari hér fram. En ég er ekki að gera kröfu til þess að hann verði sóttur eða umræðan verði stöðvuð. Ég legg það alfarið í mat hæstv. ráðherra hvað honum finnst við hæfi í þessum efnum.

(Forseti (JóhS): Forseti verður við ósk hv. þm. og mun gera hæstv. félmrh. viðvart um að þessi umræða sé í gangi í þinginu.)

Ég þakka forseta fyrir að bregðast vel við þessum óskum mínum.

Ég vil líka upplýsa það, frú forseti --- mér finnst það eiga erindi inn í umræðuna í tengslum við þetta frv. sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs flytjum --- að við höfum í okkar flokki á undanförnum missirum og í raun allt frá stofnun hans lagt mikla rækt við þennan málaflokk. Við tókum um það ákvörðun á okkar fyrsta reglulega landsfundi að fyrsti stóri málaflokkurinn, fyrsta stóra málasviðið eða annað af tveimur a.m.k., sem við ætluðum að taka sérstaklega fyrir og vinna upp ítarlega stefnumótun í, væri kvenfrelsismál sem við höfum kosið að kalla svo. Það var gert og niðurstöðunni skilað í sérstöku riti sem við höfum gefið út um þessi efni. Ég dreg í efa að aðrir stjórnmálaflokkar, með fullri virðingu fyrir þeim, hafi lagt meira af mörkum nú á allra síðustu missirum hvað þetta snertir en við höfum að þessu leyti gert. Við höfum lagt fram stefnu okkar í ítarlegu riti sem við reyndum að koma á dagskrá og kynna m.a. í síðustu kosningabaráttu. Það tókst nú alla vega því að ýmsir fjölmiðlar höfðu meiri áhuga á að reyna að snúa þar út úr einstökum setningum heldur en lyfta því framtaki að einn af stjórnmálaflokkum landsins hafði lagt í það vinnu að móta heildstæða og ítarlega kvenfrelsisstefnu og gefa hana út í sérstöku riti.

Hvað sjálfa grundvallarstefnuna varðar þá tókum við um það ákvörðun á síðasta landsfundi okkar í Hveragerði í byrjun nóvembermánaðar sl. að samþætta áherslur kvenfrelsis eða femínisma og alþjóðahyggju inn í stefnuskrá okkar eða stefnuyfirlýsingu. Það eru líka tímamót. Mér er ekki kunnugt um að aðrir stjórnmálaflokkar hafi á sínum vettvangi fyrr tekið þá ákvörðun að skilgreina sig sem kvenfrelsisflokka eða femíniska flokka, að sjálfsögðu með undantekningunni Kvennalistanum sem var stofnaður á þeim grunni eins og allir vita.

Ég vil enn fremur segja að ég held að sú mannréttindanálgun sem ég held að hv. þm. Atli Gíslason gerði grein fyrir í framsöguræðu sinni og er í raun grundvöllur þeirrar hugsunar sem að baki þessu liggur sé mjög mikilvæg. Það hefur einmitt gerst á seinni árum að ýmsir aðilar sem eru að berjast fyrir réttindum umbjóðenda sinna hafa í vaxandi mæli farið að skilgreina baráttu sína eða heyja hana á mannréttindaforsendum. Það á t.d. við um samtök fatlaðra og fleiri slíkra hópa sem hafa átt á brattann að sækja hvað varðar fullgild mannréttindi og fullgilda þátttöku í samfélaginu. Að sjálfsögðu er mikilvægt að menn bregði upp mannréttindagleraugunum eins og ég hef heyrt hv. þm., frumflytjanda málsins, oft segja þegar þeir skoða hluti af þessu tagi. Það er beitt í slíkri baráttu. Það ýtir við mönnum. Það stuðar jafnvel marga og ég veit að sumum finnst sjálfsagt skrýtið að taka þannig til orða að barátta fyrir réttindum hálfs hluta mannkynsins sé mannréttindabarátta. En auðvitað er hún það rétt eins og baráttan er fyrir algildum mannréttindum okkar allra hvort sem við erum öll saman eða í smærri hópum.

Þetta frv. er að mínu mati sérstaklega mikilvægt í ljósi þeirrar þróunar sem hér hefur einmitt verið ítarlega rædd, m.a. af hv. þm. Ögmundi Jónassyni áðan, þar sem tilhneiging er til vaxandi launaleyndar í þjóðfélaginu og það hvernig opnir gagnsæir almennir félagslegir kjarasamningar hafa á margan hátt átt á brattann að sækja í samfélaginu á síðustu tímum gegn stríðum mótvindum frjálshyggju og einstaklingshyggju sem hefur tilhneigingu til að vilja ýta þessu undir borðið, vilja færa þetta yfir í einstaklingsbundna samninga, geðþóttaákvarðanir einstakra stjórnenda eða ráðamanna. Gegn slíku öllu saman er í fyrsta lagi varðstaðan um gagnsæja félagslega kjarasamninga gríðarlega mikilvæg en líka þetta, þ.e. þær eftirlitsstofnanir sem eiga að hafa eftirlit með því, eins og Jafnréttisstofa, að lög séu ekki brotin að þessu leyti, að mannréttindi séu ekki brotin á mönnum hvað varðar jafnan rétt og jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf óháð kynferði. Það skiptir miklu máli að menn hafi tæki og úrræði í sínum höndum af því tagi sem hér er gert ráð fyrir að komi með nýrri grein inn í jafnréttislögin.

Ég vil segja um heimildir Jafnréttisstofu sem frv. gerir ráð fyrir að hún fái í hendur að mér finnast þær sjálfsagðar og jafnvel þó meira hefði verið. Ég ætti ekki í nokkrum einustu vandræðum með að rökstyðja það að ef eitthvað væri mætti Jafnréttisstofa hafa sterkari og afdráttarlausari heimildir til þess t.d. að sækja sér þær upplýsingar sem hún kynni að hafa þörf fyrir í baráttu sinni frekar en hitt. Ef við hugsum þetta þannig þá hlýtur það að teljast stórskrýtið ef samkeppnisyfirvöld, Samkeppnisstofnun, Fjármálaeftirlit, skattyfirvöld, Evrópska eftirlitsstofnunin ESA og fleiri aðilar eigi að hafa miklu sterkari og ríkari heimildir til þess að sækja sér gögn, að fara inn í fyrirtæki, koma þangað fyrirvaralaust og leggja hald á gögn en sú stofnun sem á að gæta undirstöðumannréttinda sem jafnrétti kynjanna auðvitað eru og sem snýr að einstaklingunum en ekki fjármagni eða leikreglum fyrirtækja á markaði. Værum við ekki að verðleggja ansi ódýrt mannréttindabaráttuna ef við féllumst á að það væri eitthvað síður ástæða til þess að stofnun með hlutverk af þessu tagi hefði svona heimild? Ég býð þeim mönnum upp á dekk sem ætla að reyna að halda einhverju öðru fram og spái þeim ekki velfarnaði í þeirri rökræðu.

Frumvarpið er hins vegar þannig og það er ábyggilega hyggilegt, a.m.k. sem fyrsta skref í þessum efnum, að þar er um mildilegar heimildir að ræða. Það er hvergi farið offari í þessu efni. Þarna eru Jafnréttisstofu ætlaðar heimildir til að afla sértækra upplýsinga, krefja fyrirtæki eða launagreiðendur um upplýsingar og til þess eru veittir frestir og allt í þeim efnum þannig að þar er vægilega og mildilega um hlutina búið.

Jafnréttisstofa yrði þá eftirlitsstofnun að þessu leyti. Í raun er verið að leggja til að Jafnréttisstofa verði meira en sú ráðgefandi, fræðandi og upplýsandi stofnun sem henni er í grunninn ætlað með lögum nr. 96/2000. Hún yrði þá til viðbótar, ef svo má að orði komast, virk eftirlitsstofnun með heimildum eða tækjum til þess að annast eða rækja það hlutverk. Menn skulu þá hafa í huga að við erum að tala um lög sem banna algerlega tiltekna hluti og brot á þeim geta sætt viðurlögum samanber viðurlagaákvæði jafnréttislaganna. Menn geta þar sætt bæði skaðabótum samkvæmt almennum reglum og enn fremur má dæma þá sem af ásettu ráði eða vanrækslu brjóta gegn þessum lögum. Það má dæma þá til að greiða þeim sem misgert er við bætur fyrir fjártjón ef því er að skipta en einnig vegna miska. Af hverju er það? Það er vegna þess ef menn verða fyrir því að á þeim er brotinn réttur í þessu sambandi þá snýst það iðulega um beint fjártjón í þeim skilningi að þeir hafi ekki fengið greidd laun eins og þeim bæri á jafnréttis- og jafnræðisgrundvelli við aðra af gagnstæðu kyni. Menn geta líka orðið fyrir verulegum miska vegna þess að þeir hafa goldið kynferðis síns við stöðuráðningar eða jafnvel verið vikið úr starfi og goldið í þeim efnum kynferðis síns eins og nýleg og heldur ljót dæmi eru kannski um.

Mér er auðvitað ofarlega í huga, frú forseti --- og að því leyti til er líka skaði að hafa ekki hæstv. félmrh. hér --- sú óhæfa þegar framkvæmdastýra Jafnréttisstofu var hrakin úr starfi sínu algerlega að ósekju nú fyrir nokkrum mánuðum. Svo kemur í ljós að engin tilefni voru til þess. Engar málsástæður voru til þess að knýja fram starfslok þessarar mætu framkvæmdastýru samanber niðurstöðu Hæstaréttar í því máli sem þar kom við sögu. Viðkomandi hafði sinnt því starfi af stakri kostgæfni og lagt alla orku sína í þá uppbyggingu sem hin nýja Jafnréttisstofa var að ganga í gegnum og án þess að nokkrar aðfinnslur, hvað þá áminningar eða annað slíkt, væru til staðar gagnvart embættisfærslu hennar. Það er lítill sómi að því fyrir hæstv. félmrh. að vera með það mál á bakinu og ég hvet þá hv. þingmenn og tilheyrendur, ef einhverjir kynnu að vera að þessari umræðu, til að lesa nýjasta tölublað tímaritsins Veru sem kemur enn út sem betur fer og er eitt af allra merkustu tímaritum sem hér halda velli. Þar er viðtal við Valgerði H. Bjarnadóttur þar sem farið er yfir það mál. Ég vænti þess að hæstv. félmrh. hafi lesið viðtalið og meðan við heyrum ekki frá honum athugasemdir leyfi ég mér að líta svo á að það sem þar er sagt standi sem rétt og raunsönn frásögn af þeim atburðum sem þar urðu. Ég segi það bara fyrir mitt leyti standandi hér að ég vildi ekki sem ráðherra jafnréttismála á Íslandi hafa það á bakinu sem hæstv. félmrh. Árni Magnússon hefur í þeim efnum.

[17:30]

Ég held að það sé afar mikilvægt að frv. fái ítarlega umfjöllun. Ég spái því framgangi á Alþingi. Ég er sannfærður um að þetta er eitt af þeim málum sem mun vinna fyrir sér sjálft og þess verður ekki langt að bíða að þessar breytingar eða aðrar af sambærilegum toga verði komnar í jafnréttislögin. Ég held að allir hljóti að viðurkenna að það er í raun og veru svo sjálfsagt þegar þetta er skoðað betur að taka skref af þessu tagi til að styrkja stöðu Jafnréttisstofu og gera eftirlit með lögunum virkt og beitt, að það eina sem menn hljóta að segja í þeim efnum þegar þeir hafa kynnt sér málið er: Hvers vegna í ósköpunum var ekki búið að þessu fyrir löngu? Það er a.m.k. mín niðurstaða. Auðvitað hafa ýmsir ágætir hlutir gerst í þessum efnum og við höfum viljað trúa því á undanförnum árum að okkur væri að miða eitthvað áfram en a.m.k. ekki aftur á bak í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og ég tel, eins og ég hef áður nefnt, að fæðingarorlofslögin hafi verið stór tímamót í þeim efnum. Reyndar má segja að áður en þau komu til var búið að brjóta ísinn þó í litlu væri með sjálfstæðum rétti feðra til fæðingarorlofs sem ekki væri yfirfæranlegur. Það vill svo til að meðal flutningsmanna þess frv. erum við tveir, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem fyrst fluttum málið inn í sali Alþingis, að tekið yrði í lög ákvæði um sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Fluttum við um það þáltill. og skömmu síðar kom frv. frá ríkisstjórn um slíka breytingu. Það tímabil varði að vísu stutt, þ.e. að sá sjálfstæði réttur væri aðeins tvær vikur en nóg til þess að ýmsir nutu þess og þar á meðal sá sem hér stendur, en ég hefði gjarnan viljað að sá tími yrði lengri, þrír mánuðir eins og nú er.

Hitt er alveg ljóst, frú forseti, að þetta gengur allt of hægt. Baráttan við t.d. hinn illræmda kynbundna launamun gengur eiginlega ekki neitt. Það má jafnvel velta því fyrir sér hvort okkur sé ekki sumpart að miða aftur á bak í þeim efnum. t.d. á hinum almenna vinnumarkaði vegna þróunar sem þar er í átt til þess sem hér hefur oft verið nefnt, meiri einstaklingsbundinna samninga og þess sem greinilegt er að hinn kynbundni launamunur að þessu leyti virðist leita út í ýmsar óumsamdar greiðslur og aðallega felast í því að menn eru með greiðslur fyrir utan og til hliðar við eða ofan á hin umsömdu föstu laun, eðlilega, því enginn gengst við því með berum orðum að þau séu höfð misjöfn. Þá koma til sögunnar greiðslur fyrir bifreiðahlunnindi, óunna yfirvinnu eða hvað það nú er, jafnvel ferðalaga- og dagpeningasporslur og guð má vita hvað, sem í raun er grímulaus kynbundinn launamunur.

Aðalorrustan stendur um láglaunaástandið í þjóðfélaginu. Það þarf að ráðast gegn því með oddi og egg vegna þess að konur eru að miklum meiri hluta til í láglaunastörfunum borið saman við karla. Ástandið er gersamlega óþolandi og ólíðandi og við getum ekki sætt okkur við það, sem höfum lengi staðið í eldlínu stjórnmálanna og reynt að berjast í þessum efnum, að okkur sé ekki að miða meira áfram en raun ber vitni. Þess vegna fagna ég frv. alveg sérstaklega, frú forseti.