Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 17:35:10 (5275)

2004-03-11 17:35:10# 130. lþ. 82.9 fundur 565. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (upplýsingaskylda, málshöfðunarheimild) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[17:35]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en mig langar til að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að eðlilegt hefði verið að hæstv. félmrh. hefði verið viðstaddur umræðuna. Það er staðreynd að mörg góð mál sem fram hafa komið í þinginu eru bókstaflega þöguð í hel. Það fer fram um þau ein umræða, síðan er þeim vísað til nefndar og þar eru þau látin daga uppi. Þess vegna hefði verið eðlilegt að fulltrúar allra stjórnmálaflokka hefðu komið að umræðunni og lýst afstöðu sinni til málsins.

Ég ætla ekki að gera lítið úr almennum málum sem hér eru lögð fram af hálfu þingmanna. Menn eru að leggja áherslu á ýmsa þætti með þáltill. þar sem þeir vilja að tiltekin mál séu sett í brennifókus. Það sem aðgreinir þetta þingmál frá ýmsum öðrum er að hér er á markvissan hátt í lagafrv. settar fram hugmyndir um hvernig taka megi á launamisrétti kynjanna. Hér er markviss tillaga um hvernig skuli bera sig að og eðlilegt hefði verið að fulltrúar allra stjórnmálaflokka hefðu komið inn í umræðuna og skýrt afstöðu sína, ekki síst hæstv. félmrh.

Ég heiti á menn í félmn. sem munu væntanlega fá frv. til umfjöllunar að láta málið ekki daga uppi. Fyrir okkar leyti munum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, sem stöndum að frv. undir forustu hv. þm. Atla Gíslasonar, ekki láta okkar eftir liggja og munum engan veginn láta málið daga uppi.

(Forseti (JóhS): Forseti vill upplýsa að hæstv. félmrh. hefur verið gert viðvart um óskir hv. þingmanna. Hæstv. félmrh. er mjög önnum kafinn að því er upplýst er og biðst frekar undan því að mæta í þingið, nema þess sé sérstaklega krafist.)