Lækkun smásöluálagningar lyfja

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 15:26:58 (5302)

2004-03-15 15:26:58# 130. lþ. 83.1 fundur 407#B lækkun smásöluálagningar lyfja# (óundirbúin fsp.), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra upplýsir okkur um að það sé með vitund og vilja hans að verið er að fara þessa leið nokkrum dögum áður en skýrsla Ríkisendurskoðunar liggur fyrir.

Ég verð að segja að þetta kemur mér mjög á óvart, að menn geti ekki beðið eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um lyfjaverðsmyndun á Íslandi, sem búið er að leggja verulega vinnu í á undanförnum mánuðum og aðeins örfáir dagar þangað til niðurstaða skýrslunnar á að liggja fyrir. Þá hleypur lyfjaverðsnefnd með vitund og vilja hæstv. ráðherra og kemur fram með mjög lítt ígrundaðar tillögur um lækkun á álagningu hjá apótekunum.

Ég held að menn hafi ekki skoðað þetta alveg til enda, vegna þess að lækkun á smásöluálagningu þýðir einfaldlega að apótekin þurfa að ná í framlegðina annars staðar og þau geta ekki náð í hana neins staðar annars staðar en hjá sjúklingum. Það er því verið að auka hlut sjúklinga með tillögunum sem nú liggja fyrir frá lyfjaverðsnefnd.