Framboð og kjör forseta Íslands

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 15:47:58 (5311)

2004-03-15 15:47:58# 130. lþ. 83.15 fundur 748. mál: #A framboð og kjör forseta Íslands# (kjörskrár, mörk kjördæma) frv. 9/2004, MF
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er lítið frv. og aðeins um leiðréttingaratriði að ræða. Engu að síður finnst mér ástæða til þess að taka inn í umræðuna þá þörf sem er varðandi breytingar sem lúta að forsetakjöri og þá fyrst og fremst kröfuna um að fjölga meðmælendum þeirra sem gefa kost á sér til þess að gegna hinu háa embætti forseta Íslands, sem er löngu tímabær. Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að gerð verði breyting á lögum, þar sem hún á heima, varðandi fjölda meðmælenda þeirra sem ætla að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands og hvort við megum vænta þess að á þessu kjörtímabili verði tekin umræða um að herða kröfuna um fjölda meðmælenda. Mér fyndist persónulega eðlilegt að þar væri miðað við 5--10 þúsund manns og alveg upp í 10 þúsund þess vegna. Kröfurnar ættu að vera mun meiri en þær eru í dag.