Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 15:50:03 (5312)

2004-03-15 15:50:03# 130. lþ. 83.16 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[15:50]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.

Um nokkurt skeið hefur verið ljóst að hinn 1. maí 2004 fjölgar aðildarríkjum Evrópusambandsins úr 15 í 25. Samtímis fjölgar ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu úr 18 í 28. Ný aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið verða Eistland, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland.

Í aðildarsamningum framangreindara ríkja, að Kýpur og Möltu undanskildum, eru sérstök ákvæði um gildistöku reglna um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks. Gert er ráð fyrir að á tímabilinu 1. maí 2004 til 1. maí 2006 gildi löggjöf aðildarríkjanna um þetta efni en ekki reglur ESB. Í þessu felst að gömlu aðildarríkjunum verður í sjálfsvald sett hvort þau laga strax innlenda löggjöf að reglum ESB og láti hana taka til borgara nýju aðildarríkjanna og veiti þeim þar með hindrunarlausan aðgang að vinnumarkaði í löndum sínum.

Við lok tveggja ára tímabilsins þurfa aðildarríkin að ákveða hvort landslög haldi gildi sínu næstu þrjú árin eða hvort þau beita reglum Evrópusambandsins um frjálsan atvinnu- og búseturétt. Við lok þessa fimm ára tímabils er gert ráð fyrir að við nánar tilgreindar aðstæður verði aðildarríkjunum heimilt að beita landslögum enn um tveggja ára tímabil. Þannig er samtals gert ráð fyrir sjö ára aðlögunartíma, séu ákvæði stækkunarsamninganna nýtt til hins ýtrasta.

Á undanförnum mánuðum hefur afstaða núverandi aðildarríkja Evrópusambandsins til aðlögunarákvæða stækkunarsamninganna verið að mótast. Þrjú aðildarríki ESB lýstu strax við upphaf samningaviðræðna við umsóknarríkin að þau óskuðu eftir aðlögunarfresti að því er varðar gildistöku reglna um frjálsan atvinnu- og búseturétt. Hér er einkum átt við ákvæði í 1.--6. gr. reglugerðar nr. 161268/EB, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópusambandsins. Þessi ríki voru Austurríki, Finnland og Þýskaland. Í þennan hóp hafa síðan bæst svo til öll aðildarríki Evrópusambandsins, þó undir nokkuð mismunandi formerkjum. Sum hafa lýst yfir að þau muni viðhalda gildandi reglum um atvinnu- og dvalarleyfi en önnur tilkynntu um aukið eftirlit og hertar reglur um aðgang að félagslegum stoðkerfum. Á það má minna að í aðildarsamningi Liechtensteins er að finna víðtækar undanþágur frá reglum um frjálsan atvinnu- og búseturrétt launafólks á Evrópska efanahagssvæðinu.

Norsk stjórnvöld, sem áður höfðu lýst því yfir að reglur Evrópusambandsins tækju gildi við stækkun ESB, hafa endurmetið stöðuna og munu innleiða ýmsar reglur sem hafa að markmiði að draga úr hættu á aðstreymi launafólks frá nýju aðildarríkjunum sem stofni í hættu jafnvægi á vinnumarkaði eða auki þrýsting á almannatryggingakerfi landsins. Þróunin er því í þá átt að flest núverandi aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið muni viðhalda takmörkunum af einhverju tagi gagnvart borgurum nýrra aðildarríkja ESB að því er varðar rétt til atvinnu og búsetu eftir 1. maí nk.

Hæstv. forseti. Aukin hætta er á að þetta leiði til þess að aðstreymi fólks frá nýju aðildarríkjunum til þeirra ríkja sem ákveða að afnema þessar hindranir við stækkun EES 1. maí nk. verði umfram það sem upphaflega var gert ráð fyrir. Í dómsmrn. og félmrn. hefur verið fjallað um hugsanlegar afleiðingar af stækkun Evrópusambandsins og hins Evrópska efnahagssvæðis. Ljóst er að verulegur munur er á lífskjörum í nýju aðildarríkjunum og í þeim ríkjum sem nú eru aðilar að EES. Hvatinn til að flytja sig um set er því sterkari en við fyrri stækkanir Evrópusambandsins. Af því leiðir að stjórnvöld þeirra ríkja sem vilja nýta sér aðlögunarfresti óttast aukinn innflutning fólks frá nýju aðildarríkjunum og vilja þar af leiðandi enn um skeið viðhalda takmörkunum sem nú eru í gildi.

Útlendingalög og lög um atvinnuréttindi útlendinga fjalla um rétt fólks til að ráða sig í vinnu og taka sér búsetu hér á landi. Samkvæmt þeim lögum eru EES-borgarar undanþegnir kröfu um atvinnu- og dvalarleyfi. Lagabreyting er forsenda þess að hægt sé að nýta heimildir í stækkunarsamningum ESB og EES um að fresta gildistöku reglna hér á landi um frjálsan atvinnu- og búseturétt að því er varðar launafólk í nýjum aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Að því er varðar verksvið félmrh. er því lagt til að við lög nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, og við lög nr. 97/2002 bætist bráðabirgðaákvæði. Í báðum bráðabirgðaákvæðunum felst að því er frestað um tvö ár, frá 1. maí nk. að telja, að ákvæðið um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks taki ekki til ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands fyrr en 1. maí 2006. Hið sama gildir um aðstandendur þessara ríkisborgara.

Á það ber að leggja áherslu að þetta gildir um nýjar umsóknir um atvinnuleyfi fyrir borgara frá þessum nýju aðildarríkjum. Samkvæmt stækkunarsamningunum ber að taka tillit til ríkisborgara frá þeim ríkjum sem hafa þegar verið á vinnumarkaði í EES-ríki í tólf mánuði eða lengur. Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga geta erlendir ríkisborgarar sótt um óbundið atvinnuleyfi, hafi þeir átt lögheimili og dvalið hérlendis samfellt í þrjú ár.

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram að stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins hefur verið reglulega á dagskrá samráðsnefndar ráðuneytisins og helstu samtaka á vinnumarkaði um reglur á sviði félags- og vinnumála á Evrópska efnahagssvæðinu. Samráðsnefndin hefur fengið upplýsingar um framvindu mála og á fundum hennar hefur verið skipst á skoðunum um viðbrögð við þeirri breyttu stöðu sem skapaðist við það að fleiri ríki slógust í þann þrönga hóp sem strax lýsti því yfir að þau mundu nýta sér heimildir til að fresta gildistöku áðurnefndra ákvæða um frjálsa för launafólks. Loks hafa verið haldnir fundir með fulltrúum Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins þar sem farið hefur verið yfir stækkunarmálin. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir af hálfu framangreindra aðila við viðbrögðum stjórnvalda við stækkun Evrópska efnahagssvæðisins 1. maí nk.

Einnig er ástæða til að upplýsa að samráðsnefnd um atvinnuréttindi útlendinga, sem skipuð er á grundvelli tiltölulega nýrra laga um atvinnuréttindi útlendinga, hefur einnig fjallað um stækkunarmálin. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar ASÍ, Samtaka atvinnulífsins, Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar auk fulltrúa félmrh. Nefndin starfar á grundvelli 25. gr. laganna og er hlutverk hennar skilgreint þannig að hún skuli kölluð saman til að fjalla um almenn álitamál varðandi veitingu atvinnuleyfa og umsóknir sem berast um atvinnuleyfi fyrir hópa útlendinga. Með tilliti til þeirra stórframkvæmda sem nú standa yfir og væntanlegra breytinga á reglum um frjálsan atvinnu- og búseturétt og tillögum um breytta réttarstöðu borgara þriðju ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu taldi ég nauðsynlegt að setja nefndinni erindisbréf þar sem verkefni hennar eru nánar skilgreind. Ég tel þetta ekki síður mikilvægt í ljósi þess að nauðsynlegt er að hyggja vel að undirbúningi þess að reglur um frjálsa för taki að fullu gildi að tveimur árum liðnum frá 1. maí nk. að telja.

Nánar tilgreint eru verkefni nefndarinnar eftirfarandi:

1. Að taka til umfjöllunar ágreining sem snýr að túlkun ákvæða í lögum nr. 97/2002 og reglugerða sem settar eru með heimild í lögunum. Ef ástæða þykir til er nefndinni heimilt að setja fram tillögur til félagsmálaráðherra að breytingum á lögum og reglugerðum um atvinnuréttindi útlendinga.

2. Að vera ráðherra til ráðgjafar þegar vænta má að umsóknir um atvinnuleyfi fyrir stóra hópa berist Vinnumálastofnun vegna framkvæmda eða annarrar atvinnustarfsemi og gera hlutaðeigandi stjórnvöldum viðvart um þörf á aðgerðum ef nauðsynlegt þykir.

3. Að vera ráðherra til ráðgjafar við mótun stefnu stjórnvalda að því er varðar veitingu atvinnuleyfa og að fylgjast með þróun varðandi veitingu atvinnuleyfa hér á landi og framkvæmd laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og reglugerða til fyllingar þeim. Enn fremur að hafa frumkvæði að samstarfi og samræmingu á upplýsingaöflun og framkvæmd varðandi lög og reglugerðir er varða útlendinga og atvinnuréttindi þeirra hér á landi.

Það er ljóst að bregðast þarf við auknum fjölda útlendinga hér á landi með margvíslegum hætti. Framangreint er einungis eitt dæmi um það sem gert hefur verið í félmrn. Fleiri aðgerða er að vænta, t.d. að því er varðar aukna þjónustu við innflytjendur.

Hæstv. forseti. Athugasemdir með frv. þessu eru allítarlegar. Ég tel því ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta málefni en legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.