Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 16:07:24 (5316)

2004-03-15 16:07:24# 130. lþ. 83.16 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[16:07]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns segja að ég hef alla samúð með þeim rökum og þeim málstað sem hv. þm. Atli Gíslason flutti áðan. Mér fannst hann gera það vel. Eins og áður í umræðu um mál sem tengjast vinnumarkaði benti hann a.m.k. sumum okkar á nýja hluti. Ég hvet hæstv. félmrh. að skoða grannt hvort ekki sé rétt að samþykkja þessi mál og þessar sjálfsögðu réttarbætur sem hv. þm. var að lýsa í þeim frv. sem hann flutti.

Ég vil að öðru leyti, herra forseti, lýsa því yfir að við í Samf. styðjum málin sem hæstv. félmrh. er hér að flytja. Þau eru ákveðin nauðvörn gegn hættu sem ég er þó ekki alveg viss um að sé fyrir hendi. Ég er þeirrar skoðunar að eitt af því sem birtir fegurðina í Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu sé einmitt hin frjálsa för einstaklinga um svæðið. Það er hluti af innri markaðnum. Þetta tvennt, hin frjálsa för launafólks og innri markaðurinn allur, miðar að því að gera þeim sem búa í löndum þar sem kjörin eru ekki eins góð og í löndum sem búa við góð efni kleift að rétta hlut sinn. Þetta finnst mér vera fallegt og göfugt markmið.

Ég skil hins vegar að þegar hvert landið á fætur öðru hefur skellt hurðum í lás, að verkalýðshreyfingin gjaldi ákveðinn varhuga við þróuninni. Af þeim sökum finnst mér því rétt að við í Samf. tökum undir þetta og styðjum frestunina.

Ég vil hins vegar segja að þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á viðhorfi manna og kvenna í hinum nýju löndum sem nú eru að gerast fullgildir aðilar að Evrópusambandinu benda ekki til þess að það mundi verða flóð útlendinga frá þessum löndum yfir til ríkari landanna. Það má líka rifja það upp að við höfum ákveðna reynslu af málinu. Þegar við Íslendingar gengum í EES voru harðvítugar umræður í þinginu og því var haldið fram af andstæðingum samkomulagsins að vinnumarkaðurinn mundi riðlast, hingað mundi verða mikill straumur erlendra verkamanna og verkakvenna sem kynni að setja vinnumarkaðinn úr jafnvægi.

Ég rifja það sérstaklega upp að á þeim tíma voru efnahagsþrengingar í Finnlandi og því var haldið fram að þegar Finnar gengju í Evrópusambandið og við orðin partur af EES, mundu kröpp kjör Finna, frænda okkar, leiða til að þeir kæmu hingað í stríðum straumum. Ég held að það megi halda því fram, herra forseti, að það hefur varla sést Finni hér umfram það sem áður var hér á landi og allar þær bölsýnu spár sem menn höfðu uppi um gríðarlega aukningu á flutningi erlendra verkamanna til Íslands gengu ekki eftir. Það sama gilti reyndar um svo margt annað sem sagt var neikvætt um aðild okkar að EES.

Ég held að ef ríkin hefðu öll slakað á klónni og ekki gripið til þessara ráðstafana, hefðum við að sjálfsögðu séð nokkra aukningu á fjölda þeirra sem hingað koma í atvinnuleit. Hún gæti verið töluverð. En ég dreg mjög í efa að hún hefði orðið til að setja vinnumarkaðinn í EES úr jafnvægi, ef allir hefðu haldið sínum dyrum opnum. Það tókst því miður ekki og eins og mátti greina af máli hæstv. félmrh. hafa aðrir stjórnendur í öðrum löndum farið þessa leið með nokkrum semingi. Ég fann það á hæstv. ráðherra, og virði hann fyrir það, að honum fannst þetta kannski ekki það þægilegasta í stöðunni. En líkast til er hægt að verja þetta í stöðunni.

Hins vegar er annað mál sem ég tel að skipti meira máli varðandi vinnumarkaðinn á Íslandi og tengist einmitt auknu frelsi á flutningum milli landa og stækkun Evrópusambandsins. Það er frjáls sala á þjónustu á milli landa. Það mun hafa ákveðin áhrif á vinnumarkaðinn í þessum löndum og kynni að hafa meiri áhrif á vinnumarkaðinn á Íslandi en þegar hefur sést. Ég á við, herra forseti, málið sem tengist starfsmannaleigum. Starfsmannaleigurnar falla undir þjónustu og með stækkun Evrópusambandsins mun frjáls sala á þjónustu, gagnvart og frá þeim löndum sem nú verða aðilar að Evrópusambandinu, leiða til þess að mögulegt er að notkun starfsmannaleigna muni aukast verulega. Við sáum hvernig reynt var að brjóta niður það mynstur sem hefur skapast á vinnumarkaði í tengslum við starfrækslu sjóræningjaleigna, sem ég hef leyft mér að kalla svo, varðandi Kárahnjúka. Ég er alveg sannfærður um að þetta felur í sér hættu. Þetta felur í sér þá hættu að ósvífnir gróðabrallarar sem setja á stofn starfsmannaleigur, notfæri sér bág kjör í heimalandi fátækra verkamanna og verkakvenna og ráði þá þar á kjörum sem tíðkast í heimalandinu og leigi síðan vinnuafl þeirra til þriðja landsins og reyni að halda áfram að beita sömu kjörum. Þetta sáum við gerast við Kárahnjúka.

Þetta er alþjóðlegt vandamál. Þetta er miklu meira vandamál en það sem felst í frjálsri för verkafólks milli landa. Hið síðara leiðir til þess að erlent verkafólk kemur í nýtt land og slær tjöldum sínum þar. Það stofnar oft fjölskyldur eða fær til sín fjölskyldur og greiðir til samfélagsins. Það verður hluti af samfélaginu. Það er hið besta mál og slíkum flutningum ber að fagna. Við þær aðstæður er ekki gengið á réttindi eins eða neins. Samfélagið sem tekur við þessu nýja verkafólki auðgast af siðum þess, menningu og verkkunnáttu. Það gegnir allt öðru máli þegar um er að ræða flutninga á fólki í krafti starfsmannaleignanna. Þá er reynt að brjóta kjörin á viðkomandi starfsmönnum og við höfum séð það, bæði hér á landi og annars staðar, að aðbúnaður fólksins er fyrir neðan allar hellur. Þetta fólk fær stundum ekki rönd við reist. Við höfum séð það jafnvel í okkar landi, þar sem við töldum að siðir af þessu tagi tíðkuðust ekki, að menn eru í upprunalandinu, í landinu þar sem starfsmannaleigurnar starfa, píndir til að skrifa undir ódagsett uppsagnarbréf. Það felur í sér að ef menn eru að múðra yfir kjörum sínum eða ef þeir verða veikir eru þeir umsvifalítið sendir heim. Þá er dregið upp hið ódagsetta uppsagnarbréf. Þá er engin miskunn.

[16:15]

Herra forseti. Þetta er brot á öllu því sem við, sem stundum köllum okkur siðaðar þjóðir, viljum sjá og höfum barist fyrir. Þjónusta af þessu tagi rýrir líka samkeppnishæfni þess lands sem fyrir barðinu verður. Í fyrsta lagi rýrir hún samkeppnishæfni vinnuaflsins vegna þess að enginn getur keppt við vinnuafl af þessu tagi. Í öðru lagi er um leið verið að rýra samkeppnishæfni þeirra fyrirtækja sem eru fyrir í landinu og eru í samkeppni við þá sem notfæra sér starfsmannaleigur af þessu tagi. Þetta getur því ekki annað en leitt til þess að annaðhvort ganga slík fyrirtæki undir vegna þess að þau geta hvorki af siðferðilegum ástæðum né öðrum keypt sér þessa þjónustu eða þá, sem er verra, þau reyna í vaxandi mæli að taka þetta upp sjálf. Það er nokkuð sem við getum ekki látið bjóða okkur, ekki bara vegna þeirra hagsmuna sem íslenskt samfélag á í þessu máli heldur hljótum við líka að virða réttindi þeirra sem eru fórnarlömbin í málinu, hinna erlendu verkamanna. Mannréttindi þeirra eru fótum troðin og það er vegið að rótum sjálfsvirðingar þeirra. Við höfum því miður séð dæmi um þetta við Kárahnjúka. Þar voru menn sem höfðu þurft að gefa frá sér ódagsett uppsagnarbréf. Þar voru dæmi um menn sem veiktust en fengu læknisvottorð frá sjúkrahúsinu í Neskaupstað upp á að þeir væru vinnufærir. Engu að síður voru þeir sendir til heimalands síns. Það sem meira var, í samningnum sem var a.m.k. upphaflega í gangi var líka klásúla um að þeir ættu að bera kostnaðinn af því að senda nýjan mann í staðinn fyrir sig.

Sú bylgja sem reis hér gegn þessu hátterni sem og starfsemi opinberra stofnana, auk verkalýðshreyfingarinnar, hefur væntanlega spyrnt það rækilega gegn þessu að ég vona a.m.k. að þessi háttsemi tíðkist ekki lengur. Við höfum hins vegar séð þetta gerast við Kárahnjúka og hið sama er að gerast úti um Evrópu, í Noregi t.d. þar sem eru stór byggingarverkefni í gangi. Það verður að sporna við þessu. Það má segja að ein leið sé fær að einhverju leyti og hún var partur af nýlegum samningum sem Flóabandalagið og Starfsgreinasambandið gerðu við atvinnurekendur á dögunum. Þar var inni heimild til trúnaðarmanns um að fá að sjá einstaklingsbundna ráðningarsamninga við erlenda starfsmenn. Ég held að sá háttur eigi að geta takmarkað mjög ósvífna starfsemi af þessu tagi.

Við höfum líka orðið vör við þetta, Íslendingar, í öðrum starfsgreinum. Við höfum séð þetta aðeins skjóta upp kolli í málmiðnaði þar sem ekki hefur verið um að ræða ófaglærða verkamenn heldur ákaflega kunnáttusama verkamenn sem hafa verið fluttir inn til þess að inna af höndum ákveðin verk, látnir vera hér í nokkra mánuði við heldur þröngan kost, vondar aðstæður og miklu lægri laun en tíðkast á íslenska vinnumarkaðnum. Því miður eru líka einhver dæmi um að þetta sé að gerast, í takmörkuðum mæli þó, í landbúnaði fyrst og fremst, þar sem verið er að verksmiðjuframleiða hvítt kjöt. Þetta eru hlutir sem við getum ekki látið viðgangast og við hljótum að sporna gegn af öllu afli.

Ég ræddi við hæstv. félmrh. um þessi efni fyrr í vetur. Án þess að ég ætli að fara að leggja þessa umræðu undir það þingmál sem ég og Samf. fluttum af því tilefni um starfsmannaleigur get ég samt sem áður ekki annað en notað þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. félmrh. út í þetta mál. Hæstv. félmrh. tók nefnilega á sínum tíma nokkuð vel í að það þyrfti að höggva að rótum þess vanda sem ég hef verið að reifa. Hæstv. félmrh. sagði af því tilefni í ræðustóli og reyndar lét hann þess líka getið í fjölmiðlum að það kæmi vel til greina af hans hálfu að sett yrðu sérstök lög sem takmörkuðu og auðvelduðu eftirlit með starfsmannaleigum af því tagi sem ég hef verið að lýsa. Ég man ekki betur en að hæstv. félmrh. gengi skrefi lengra og lýsti því yfir að það kæmi einnig til greina af hans hálfu að hann mundi freista alþjóðlegrar samstöðu innan EES til að ná utan um þetta vandamál. Besta leiðin yrði auðvitað sú að með einhverjum hætti yrði lögð fram tilskipun og samþykkt innan Evrópusambandsins sem bæði fullgildir aðilar og aukaaðilar eins og við sem erum aðilar að EES yrðum síðan að hlíta.

Sjálfum finnst mér að nú þegar séu til ákveðnar tilskipanir sem hafa verið samþykktar, og ég veit ekki betur en við gætum tekið upp, sem mætti að nokkru leyti beita gegn þessum ófögnuði. Ég held að það væri hins vegar langbest að gerð yrði sérstök tilskipun sem tæki vel á þeim vanda sem ég hef hér verið að lýsa.

Ef hæstv. félmrh. meinar það sem hann hefur sagt í þessum efnum, og ég hef enga ástæðu til að efast um það, finnst mér að hann ætti að láta til sín taka. Það er stundum talað um að Íslendingar hafi lágværa rödd á alþjóðavettvangi en enginn getur sakað hæstv. félmrh. um það að rödd hans heyrist ekki. Þegar Íslendingar leggja saman með öðrum þjóðum sem eiga við svipaðan vanda að glíma er ekki efi í mínum huga að við getum náð þarna nokkrum árangri.

Ég hef sjálfur sem forustumaður jafnaðarmanna á Íslandi tekið þetta upp við hvert einasta tækifæri sem ég hef getað á erlendum vettvangi, nú síðast rætt þetta aðeins við írska Evrópumálaráðherrann sem ég átti fund með ásamt ýmsum forustumönnum norrænna jafnaðarmanna og forustumanna úr verkalýðshreyfingunni. Þar kom auðvitað í ljós að sínum augum lítur hver á silfrið og sá ágæti Evrópuráðherra írsku ríkisstjórnarinnar var mér algjörlega ósammála. Hann taldi að þetta yki samkeppnishæfni írsku þjóðarinnar vegna þess að með því að eiga kost á ódýrum vinnukrafti af þessu tagi gætu írsk fyrirtæki keppt betur á alþjóðlegum markaði. Ég held hins vegar að þetta sé ekki svona. Ég er alveg sannfærður um að ef það á að fara að knýja íslensk verktakafyrirtæki, sem mörg hver hafa getið sér ákaflega gott orð við vinnu við mjög erfiðar aðstæður á hálendi Íslands og eru af þeim sökum í ýmsum verkefnum erlendis núna, til að höggva í sama knérunn verður það mjög erfitt fyrir þau. Íslenskt siðferði leyfir það einfaldlega ekki. Það er ekki hægt að fallast á slíkt og sem betur fer er siðferðisvitund forustumanna í íslensku atvinnulífi með þeim hætti að það yrði sannarlega nauðvörn ef þeir létu rekast út í slíkt til að halda fyrirtækjum sínum á floti. Það má aldrei verða. Og það er skylda okkar, löggjafans, að skapa kringumstæður sem eru þannig að þeir verði ekki neyddir til þess.

Því langar mig að endingu, herra forseti, til að spyrja hæstv. félmrh.: Hvaða afstöðu hefur hann til þess að sett verði sérstök lög sem takmarka starfsemi starfsmannaleigna af þessu tagi og auðveldi eftirlit hins opinbera og ekki síður vinnumarkaðarins sjálfs með starfsemi þeirra?

Í öðru lagi: Er hann enn þeirrar skoðunar að það komi vel til greina, og hann sem félmrh. íslenska lýðveldisins beiti sér á alþjóðlegum vettvangi fyrir því, að ná samstöðu með þjóðum sem eiga við svipaðan vanda að glíma til þess að setja alþjóðlegar reglur sem vinna gegn þessu meini?