Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 16:28:33 (5319)

2004-03-15 16:28:33# 130. lþ. 83.16 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vitnar til Steinsmýrarflóðsins sem frænka mín, fyrrum hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, skrifaði bréfið til hans um en við skulum ekki gera það að sérstöku umfjöllunarefni hér, hv. þingmaður. Ég tel að við göngum ágætlega í takt í þessu máli eins og mörgum öðrum.

Ég er út af fyrir sig alveg sammála hv. þm. í því að það dugar ekki að senda bréf og kalla eftir þeim. Það verður líka að vinna úr slíku og eins og ég gerði grein fyrir áðan höfum við hafið þá úrvinnslu.

Hv. þm. bendir á ýmis atriði sem vert er að hafa í huga og fara yfir varðandi atvinnurétt útlendinga hér á landi. Ég er út af fyrir sig alveg sammála því. Við erum að horfast í augu við talsvert nýja tíma, Íslendingar, hvað þetta varðar og það er full ástæða fyrir okkur til að fara yfir þau mál frá degi til dags.

Ég vil, hæstv. forseti, gera grein fyrir því að ég á reglulegt samráð við aðila vinnumarkaðarins, bæði ASÍ og Samtök atvinnulífsins, þar sem við förum yfir mál af þessum toga. Ég tek að sjálfsögðu feginsamlega við ábendingum þeirra um það sem betur mætti fara á vinnumarkaði okkar og sömuleiðis ábendingum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og upprifjunum hans úr bréfum indællar frænku minnar heitinnar.