Afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 13:32:18 (5327)

2004-03-16 13:32:18# 130. lþ. 84.91 fundur 408#B afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Mörður Árnason:

Forseti. Á umhverfisnefndarfundi á fimmtudag óskaði ég eftir því að hæstv. umhvrh. yrði boðið á fund nefndarinnar til að skýra ummæli sín eftir fund Landeigendafélags Laxár og Mývatns í fyrri viku. Hv. formaður nefndarinnar féllst ekki á þetta og vísaði til samræðu við umhvrh. annaðhvort í þingsal eða undir fjögur augu. Ummæli ráðherra voru þau að henni þætti eðlilegt að málið biði þangað til eitthvað gerðist.

Nú er frv. um breytingar á lögum nr. 36/1974 ekki lengur á valdi ráðherra, heldur til umræðu í umhvn. Ráðherra hlýtur þess vegna með ummælum sínum að vera að beina erindi til nefndarinnar.

Nú er það svo að þingmálið er tvíþætt, annars vegar almennar breytingar á verndarsvæðinu sem um ræðir, frv. sem endurflutt er, og hins vegar bráðabirgðaákvæði III um hækkun stíflunnar í Laxá sem var skotið inn í frv. núna í haust. Spurningin er: Er ráðherra að tala um að bæði málin bíði?

Það er hvorki verulegur ágreiningur innan þings né utan um sjálft frv. Á afgreiðsla þess að bíða bráðabirgðaákvæðisins?

Í síðustu viku var hætt umfjöllun um stjfrv. í allshn. Það gerðist þannig að hæstv. dómsmrh. skrifaði nefndinni bréf og bað um það, sem nefndin samþykkti, að hætt yrði að vinna í málinu. Er eitthvert slíkt bréf í smíðum hjá hæstv. umhvrh., eða hvað meinar ráðherrann? Það hefur komið í ljós að bráðabirgðaákvæðið kemur í veg fyrir viðræður heimamanna og virkjunareigenda um rannsóknir og framkvæmdir við Laxá. Afstaða mín og Samf. er að fleygja bráðabirgðaákvæðinu strax en halda áfram að vinna frv. sjálft á eðlilegan hátt. Er hæstv. umhvrh. sammála þessu?