Afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 13:40:33 (5331)

2004-03-16 13:40:33# 130. lþ. 84.91 fundur 408#B afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[13:40]

Kristján L. Möller:

Frú forseti. Það mál sem hér hefur verið gert að umtalsefni, og skýrt hefur komið fram að er ansi furðulegt frá hendi ríkisstjórnar, er að mestu leyti um það bráðabirgðaákvæði sem smeygt var inn í frv. á síðustu stigum og hefur valdið miklum deilum fyrir norðan. Hér hefur verið farið yfir það hvernig ráðherra hefur talað um að þetta eigi að bíða meðan menn ræða saman og það má eiginlega spyrja að því, virðulegi forseti, hvort ekki hefði verið ástæða til að aðilar ræddu saman áður en frv. var lagt fram, áður en hæstv. ríkisstjórn gerði allt vitlaust með því að hengja þetta svona saman.

Það má nefnilega segja sem svo að þetta séu tvö aðskilin mál og annað þeirra sjálfsagðar lagfæringar gagnvart Skútustaðahreppi. Þar hafa verið óskir sveitarstjórnar ansi lengi um að fá fram breytingar á þessum lögum um vernd Mývatns og Laxár, enda hafa þau hamlað framgangi og vexti sveitarfélagsins. Sem dæmi um það má taka að burtfluttur íbúi þessa sveitarfélags óskaði ekki alls fyrir löngu eftir því að fá að byggja sér sumarbústað og eyða þar elliárum sínum. Það tók apparatið upp undir fjögur ár að koma því til leiðar að þessi burtflutti íbúi gæti byggt þarna og það er óþolandi fyrir eitt sveitarfélag að vera sett undir svona lög sem hamla vexti og viðgangi sveitarfélagsins og hengja þetta svona saman sem hér er.

Þess vegna hvet ég til þess, virðulegi forseti, að umhvn. slíti þetta í sundur, leggi bráðabirgðaákvæðið frá sér og vinni lögin. Hér á hinu háa Alþingi held ég að sé nokkuð mikil sátt, vonandi, um að klára allt annað en þetta bráðabirgðaákvæði. Það er auðvitað það sem við eigum að einhenda okkur í þannig að ég lýsi andstöðu minni við það sem hæstv. ráðherra segir, að það verði að bíða úr því að menn kjósi svo og að þetta sé ekki á leiðinni að verða að lögum á hinu háa Alþingi vegna þess sem þarna var skeytt við, þ.e. bráðabirgðaákvæði III. Ég hvet til þess að umhvn. haldi áfram með þetta mál og klári það sem að sveitarfélaginu snýr og varðar það.