Afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 13:50:09 (5336)

2004-03-16 13:50:09# 130. lþ. 84.91 fundur 408#B afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (aths. um störf þingsins), HBl
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Halldór Blöndal:

Hæstv. forseti. Umræðurnar hafa verið fróðlegar og lýsa vel hvernig þingheimur skiptist í málinu. Það kemur ekki á óvart í hvaða tóni hv. 5. þm. Norðaust., Steingrímur J. Sigfússon, hefur talað. Þetta minnir á margar ræður hans, m.a. um kísilgúrverksmiðjuna.

Það er alveg nýtt fyrir mér að hann geti hugsað sér að breyta lögunum um verndun Laxár- og Mývatnssvæðisins. Ég veit satt að segja ekki hvað hefur komið til, því að í hans huga hefur það verið heilagur pappír fram að þessu. (Gripið fram í.) Það sýnir að jafnvel þessi hv. þm. kann að breyta og skipta um skoðun stundum ef þrýstingurinn kemur frá réttum stöðum, en það var áreiðanlega ekki hans eigin skynsemi sem beindi honum á réttar leiðir. (Gripið fram í.)

Ég vil almennt segja um málið að það er ýmislegt annað, ef við sleppum bráðabirgðaákvæðinu, sem nauðsynlegt er að athuga í þessu samhengi eins og t.d. hvort ekki sé rétt að hv. þingnefnd taki til athugunar að Dimmuborgir skuli falla undir verndunarákvæði frv. Ég hygg að það sé nauðsynlegt. Ég vil eins og áður leggja áherslu á að nauðsynlegt er að heimamönnum sé gefið svigrúm til að ræða málin til þrautar sín á milli. Það verður síðan að skýrast eftir því sem málinu vindur fram hvernig skynsamlegast sé að standa að þeim viðræðum og undir hvaða kringumstæðum, en ég held að hv. þm. eigi ekki að vera með stóryrði í þingsalnum að svo stöddu, því hér er mikið í húfi og sterkar tilfinningar í málinu.