Afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 13:54:25 (5338)

2004-03-16 13:54:25# 130. lþ. 84.91 fundur 408#B afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (aths. um störf þingsins), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[13:54]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Til upprifjunar er rétt að halda því til haga að með bráðabirgðaákvæðinu var verið að gefa kost á því í fyrsta lagi að aflétta réttaróvissu varðandi umhverfismat. Í öðru lagi var verið að veita Landeigendafélaginu neitunarvald á framkvæmdina ef þeim hugnaðist hún ekki, m.a. vegna umhverfisverndarsjónarmiða. Síðan átti Umhverfisstofnun að hafa heimild til að gefa út leyfi fyrir framkvæmd ef umhverfisáhrifin væru ásættanleg. (Gripið fram í: Við vitum þetta.) Það er því verið að tala um minni háttar aðgerð sem menn gætu komið sér saman um. Þetta er málið.

Eftir að fundurinn var haldinn á Narfastöðum hjá Landeigendafélaginu lá beinast við, þar sem Landeigendafélagið átti að fá neitunarvald, að málið biði af því að það komu neikvæð skilaboð frá þeim fundi.

Það er því eðlilegt að málið bíði við þessar aðstæður. Við höfum rætt það í stjórnarflokkunum og auðvitað hafa stjórnarflokkarnir meiri hluta á þinginu og meiri hluta í umhvn. Það er því mjög skrýtið þegar hv. þm. er að boða einhver allt önnur vinnubrögð. Fulltrúi Samf. ætlar nú að fara að stýra vinnubrögðum umhvn.

Ég vil líka draga það fram, hæstv. forseti, að málið er mjög viðkvæmt og okkur er ekki sómi að því að æsa upp til ófriðar að óþörfu. (Gripið fram í.) Ég vil draga það fram að hv. þm. ...

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni, hæstv. umhvrh., hljóð.)

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er búinn að ganga um og æsa upp til ófriðar, meira að segja úr þessum ræðustóli. Hann leyfði sér að tala til fólksins í sveitinni á þessu svæði með þeim hætti að ekki er sómi að því. Hv. þm. sagði hér að hann tryði því ekki að viðkomandi aðilar væru slíkir ættlerar að þeir létu þetta yfir sig ganga. Ég tel því að hér hafi verið farið mjög óvarlega fram í mjög viðkvæmu máli úr pontu Alþingis.

(Forseti (SP): Umræðu um störf þingsins er nú lokið.)