Fríverslunarsamtök Evrópu 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 16:43:22 (5378)

2004-03-16 16:43:22# 130. lþ. 84.12 fundur 586. mál: #A Fríverslunarsamtök Evrópu 2003# skýrsl, GunnB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[16:43]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir ársskýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2003.

Síðasta ár var nokkuð annasamt hjá þingmannanefndinni. Samningaviðræður EFTA-ríkjanna og ESB um stækkun EES voru eðlilega stórt mál á dagskrá nefndarinnar. Nefndin fékk reglulega upplýsingar um gang mála og létu þingmenn í ljós álit sitt á öllum stigum málsins, bæði við ráðherraráð EFTA og ráðherra og embættismenn ESB.

Samstarf við svokölluð þriðju ríki, málaflokkur sem þingmannanefnd EFTA hefur haft mikinn áhuga á, þ.e. gerð fríverslunarsamninga, og var mikið fjallað um þau mál á árinu. Ég verð að viðurkenna að við íslensku þingmennirnir urðum svolítið óþolinmóðir gagnvart EFTA-skrifstofunni og ráðherraráðinu eftir því sem leið á árið og lítið virtist gerast í þessum málaflokki. Bentum við á að í sumum tilvikum væri sagt ár eftir ár að samningurinn væri væntanlegur án sýnilegs árangurs.

Sérstaklega var rætt um fríverslunarsamning við Kanada en samningaferlið hófst fyrir mörgum árum og ekkert hefur gerst síðustu þrjú ár. Vandamálið felst í því að Kanadamenn og Norðmenn geta ekki komið sér saman um samning er varðar skipasmíðar og varahluti til skipasmíða.

Nú hefur þingmannanefnd EFTA ákveðið að athuga hvort hún geti orðið að liði í málinu og ætlar að taka upp viðræður við kanadíska þingmenn og reyna að ýta á að samningar komist aftur í gang.

[16:45]

Þingmenn EFTA-ríkjanna sem sitja í þingmannanefnd EES hafa á síðustu árum oft rætt um það við kollega sína á Evrópuþinginu hvernig hægt sé að auka aðgang EFTA-ríkjanna að stofnunum ESB. Í framhaldi af þessum umræðum hafði sendinefnd Evrópuþingsins frumkvæði að því að koma því til leiðar að utanríkisráðherrum EFTA og EES-ríkjanna verði boðið að ávarpa utanríkismálanefnd Evrópuþingsins. Á síðasta fundi þingmannanefndar EES í nóvember sl. var sagt að þetta ætti að gerast fyrir kosningar til Evrópuþingsins sem fara fram í júní nk. Ég hef ekki heyrt hvort farið er að ræða málið við utanríkisráðherrana eða hvort tímasetning hafi verið ákveðin, en mun fylgja málinu eftir á næsta fundi þingmannanefndar EFTA. Hvort sem þetta verður fyrir eða eftir kosningar til Evrópuþingsins er þetta mjög gott tækifæri fyrir EFTA-ríkin til að koma áherslum sínum á framfæri og mikilvægt að það sé mjög vel nýtt.

Ég vil minnast aðeins á mál sem upp kom á árinu og tengist samstarfi þingmannanefndar og ráðherraráðs EFTA. Það kom upp hugmynd innan ráðherraráðsins, sem ég held að mér sé óhætt að segja að hafi komið frá Norðmönnum, um að fækka ráðherrafundum EFTA í einn á ári, en fundirnir eru nú tveir. Þetta hefði jafnframt þýtt að tækifærum þingmannanefndarinnar til að hitta ráðherrana hefði fækkað. Íslandsdeildinni leist vægast sagt illa á þessa hugmynd og taldi ekki veita af tveimur fundum með ráðherrum á ári. Með þessari hugmyndi væri verið að reyna að ýta þingmannanefndinni til hliðar að vissu leyti. Íslandsdeildin lagði áherslu á mikilvægt hlutverk þingmannanefndarinnar sem eftirlitsaðila með framkvæmdarvaldinu og nauðsynlega tengingu EFTA við þjóðþing aðildarríkjanna.

Ég vil taka fram að utanrrh. Íslands sýndi málflutningi Íslandsdeildarmanna skilning og vildi tryggja eðlilega aðkomu þingmannanefndarinnar að starfi EFTA.

Farsæl niðurstaða fékkst í þessu máli hjá ráðherranefndinni, en desemberfundir ráðherraráðsins verða í framtíðinni minni í sniðum. Það þýðir að þátttaka annarra aðila en ráðherraráðs og þingmannanefndar verður skorin niður, en hingað til hafa allar stofnanir EFTA tekið þátt í þessum fundi. Samhliða þessu verður lögð meiri áhersla á pólitíska stefnumótun á desemberfundunum. Íslandsdeildin fagnar almennt þessari niðurstöðu og sér jafnvel fram á betri fundi þar sem betra næði verði fyrir samráð ráðherraráðs og þingmannanefndar. Ég vil þakka utanrrh. sérstaklega þátt hans í því að þessi niðurstaða fékkst.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara frekar í það að rekja efni skýrslunnar hvað varðar starfsemi síðasta árs. Þingmenn hafa skýrsluna fyrir framan sig og geta lesið þar ítarlegar upplýsingar um störf hennar.

Hvað þetta ár varðar sér EFTA-nefndin síður en svo fram á verkefnaskort. Sá sem hér stendur hefur verið kjörinn formaður þingmannanefndar EFTA fyrir árið og jafnframt varaformaður þingmannanefndar EES. Á næsta fundi þingmannanefndar EES í apríl nk. verður tekin fyrir skýrsla um ársskýrslu embættisnefndar EES fyrir árið 2003 og skýrsla um sveitarstjórnir og EES, en það mál er reyndar tekið upp að frumkvæði hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar.

Samstarf við þriðju ríki verða áfram í brennidepli innan þingmannanefndar EFTA. Auk Kanada verður fylgst náið með gangi mála gagnvart t.d. Rússlandi, Bandaríkjunum, Egyptalandi, Túnis og fleiri ríkjum. Einhver hreyfing virðist núna vera á gerð fríverslunarsamninga, t.d. var nýlega verið að ljúka samningaviðræðum um Líbanon.

Stækkun innri markaðarins og hugsanlegar afleiðingar fyrir EFTA-ríkin verður væntanlega rædd innan EFTA og samstarf við nýju aðildarríkin einnig.

Sá sem hér stendur og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fóru nýlega í heimsókn til Eystrasaltsríkjanna, ásamt öðrum fulltrúum í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA, þar sem við kynntum EES-samninginn og ræddum ýmis hagsmunamál honum tengd. Þetta voru mjög góðir fundir og gagnlegir. Íslandsdeildin mun eins og hún hefur gert í mörg ár eiga fundi með þingmönnum þess ríkis sem næst tekur við forustu innan ESB. Þessir fundir eru mikilvægir til að minna á okkur sem erum EFTA-megin í EES-samstarfinu og kynna helstu áherslumál okkar hverju sinni.

Það er staðreynd að margir aðilar innan ESB, jafnvel þeir sem ættu að vera sæmilega upplýstir, hafa ekki hugmynd um hvað EES-samningurinn er og veitir ekki af að vekja athygli á honum og stöðu Íslands í Evrópu við hvert tækifæri sem gefst.

Ég vil aðeins fjalla um áætlun um innri markað Evrópusambandsins 2003--2006 sem framkvæmdastjórn ESB gaf út á síðasta ári, en í henni er að finna almenna stefnumörkun um málefni innri markaðarins. Áhersla er lögð á að styrkja innri markaðinn og afnema hindranir. Í viðauka eru tillögur framkvæmdastjórnarinnar að nýrri lagasetningu til næstu þriggja ára. Þetta er plagg sem allar fastanefndir þingsins þyrftu að kynna sér vel ef þær hafa ekki þegar gert það. Mikilvægt er fyrir alþingismenn að gera sér grein fyrir hugsanlegum áhrifum áætlunarinnar á íslenska stefnumörkun.

Fylgjast þarf vel með starfi framkvæmdarvaldsins við að skilgreina íslenska hagsmuni. Í þessu sambandi skiptir máli að samnýta alla farvegi innan þingsins. Við þingmenn þurfum að koma að málum í tæka tíð á meðan enn er hægt að hafa áhrif á stefnumótunina. Það er til einskis fyrir okkur að koma að málum þegar tillaga að lagasetningu er þegar komin fram hjá ESB. Tími EFTA-ríkjanna til áhrifa er á fyrri stigum á meðan tillögur eru enn í mótun. Það er þá sem sérfræðingar ráðuneytanna eru að leggja línurnar hvað Ísland varðar. Utanríkismálanefnd, aðrar fastanefndir og Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA bera sameiginlega ábyrgð á því að Alþingi ræki skyldur sínar á sviði EES-mála.

Í þessu sambandi vil ég nefna eitt atriði, virðulegi forseti. Öðru hverju kemur upp sú umræða hvort Alþingi eigi að hafa starfsmann í Brussel. Má búast við að þessi umræða skjóti upp kollinum aftur núna þegar til umræðu er að sveitarfélögin hafi starfsmann í fullu starfi í Brussel, en slíkar tillögur má finna í nýlegri skýrslu utanrrn. Eflaust verða einhverjir til að benda á að ef sveitarfélögin telji þetta nauðsynlegt sé enn meiri ástæða fyrir Alþingi að íhuga slíkt skref. Ég tel að þessi umræða sé á villigötum. Það er engin þörf á að leggja í slíkan kostnað því það er vel hægt að sinna þessum málaflokki héðan á mun ódýrari hátt. Nær væri að styrkja alþjóðasvið þingsins með starfsmanni hér heima sem væri í fullu starfi við að fylgjast með Evrópumálunum. Það er mun ódýrari lausn þó að viðkomandi þyrfti að ferðast nokkrum sinnum á ári til Brussel því mjög dýrt er að halda uppi starfsmanni með búsetu erlendis. En vissulega er þörf á því að starfsmaður sé í fullu starfi við að sinna þessum málaflokki og miðla áfram upplýsingum innan þingsins til allra þeirra sem að málaflokknum koma.

Að lokum vil ég nefna, virðulegi forseti, að ákveðið hefur verið að halda ráðstefnu þingmannanefndar EFTA í samvinnu við ráðgjafanefnd EFTA í tilefni af 10 ára afmæli EES-samningsins. Ræða á hlutverk EFTA og EES í nýrri Evrópu. Ráðstefnan verður haldin í Reykjavík í haust, nánar tiltekið 21. október. Þátttakendur verða stjórnmálamenn af EES-svæðinu, aðilar vinnumarkaðarins, sveitarstjórnarmenn og embættismenn. Þetta verður gott tækifæri til að ræða stöðu okkar í Evrópu og framtíðarsýn. Vonast ég eftir góðri þátttöku frá Alþingi.