Fríverslunarsamtök Evrópu 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 16:53:36 (5379)

2004-03-16 16:53:36# 130. lþ. 84.12 fundur 586. mál: #A Fríverslunarsamtök Evrópu 2003# skýrsl, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[16:53]

Björgvin G. Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þessa skýrslu. Hv. þm. Gunnar Birgisson hefur mælt fyrir henni og skýrt efni hennar prýðilega. Hann hefur gegnt formennsku af okkar hálfu í nefndinni af skörungsskap og ég vil leyfa mér að nefna það að formaður okkar í Samf., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem hefur til skamms tíma setið í þingmannanefndinni, hefur einmitt tekið til þess hversu vel hv. formanni nefndarinnar hefur farist það úr hendi og hversu ríkt hann hefur lagt sig eftir því að eiga gott samstarf við stjórnarandstöðuna. Ber að fagna því sérstaklega, enda miklu meiri árangur náðst en ef öfugt hefði verið farið. Það er mikilvægt því fyrir litla þjóð skiptir máli að standa saman út á við og hafa, eftir því sem kostur er, sameinaða málafylgju fyrir hagsmunum landsmanna allra.

Auðvitað er það svo að uppi eru mismunandi skoðanir og við í Samf. erum t.d. margir hverjir eindregnir Evrópusinnar. Við teljum að tími sé kominn til að sækja um aðild að Evrópusambandinu í fullri alvöru. Aðrir flokkar eru annarrar skoðunar eins og liggur fyrir. Eigi að síður höfum við í Samf. lagt okkur fram um það á vettvangi þingmannanefndar EFTA að stilla ágreiningi í hóf og ná sem breiðastri samstöðu í málflutningi nefndarinnar fyrir málefnum íslensku þjóðarinnar.

Ég hef sjálfur átt þess kost, virðulegi forseti, að taka lítillega þátt í starfi nefndarinnar sem einn af varamönnum Samf. Það hefur verið ákaflega lærdómsríkt og fer ekki fram hjá nokkrum manni sem það gerir að þátttakan í EFTA er einn af mikilvægustu hornsteinum í utanríkismálum okkar Íslendinga.

EFTA er okkur ákaflega mikilvægt, ekki síst vegna þess að í krafti þess höfum við Íslendingar gert marga ákaflega mikilvæga samninga um fríverslun við margar aðrar þjóðir. Þeir eru okkur sérstaklega mikilvægir vegna þess að samningamenn okkar hafa alltaf borið gæfu til að leggja höfuðáherslu á fríverslun með fisk sem hefur verið mikilvægasti útflutningur okkar um árabil. Gott dæmi um þetta er sá samningur sem hæstv. utanrrh. mælti fyrir í þáltill. í gær um fríverslunarsamning við Chile.

Fríverslunarsamningar okkar gegnum EFTA hafa ekki síst verið mikilvægir vegna þess að þeir hafa í reynd verið samhliða þeim samningum sem Evrópusambandið hefur gert um fríverslun við sömu ríki. Við höfum því í gegnum EFTA getað tryggt atvinnulífi okkar, ekki síst sjávarútvegi, fríverslun við sömu ríki og Evrópusambandið gerir fyrir aðildarlönd sín. Á þessu er þó einn mikilvægur munur sem gæti verið okkur EFTA-þjóðunum í hag eins og ég kem að síðar í máli mínu. Það skiptir hins vegar máli að EFTA hafi skýra stefnu hvaða ríki á að setja í forgang þegar kemur að því að ákveða við hvaða ríki á að gera næstu samninga.

Þetta finnst okkur í Samf. hins vegar ekki liggja nógu ljóst fyrir. Því höfum við fulltrúar Samf. lagt fram sérstaka fyrirspurn um hver stefna EFTA um forgangsverkefni á þessu sviði sé. Verður þeirri fyrirspurn dreift á næstunni og kemur hér inn sem svar fljótlega og getur málið þá fengið frekari umfjöllun.

En í því ljósi langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þm. Gunnars Birgissonar og formanns þingmannanefndar EFTA: Hver er forgangslisti EFTA varðandi næstu samninga? Af því tilefni langar mig sérstaklega að inna eftir því hvort á döfinni er að ræða fríverslunarsamninga við Japani. Vissulega er ég ekki hnútum kunnugur um hvernig tollar eru t.d. á fiskverkun gagnvart Japönum en veit þó að þeir eru mikilvæg viðskiptaþjóð á sviði fiskafurða og vaxandi og hlýtur því að skipta miklu máli að ná góðum samningum á því sviði. Ég spyr m.a. af því tilefni að mér er kunnugt um að í næsta mánuði fer sendinefnd þingmanna undir forustu hæstv. forseta Alþingis, Halldórs Blöndals, til Japans og væri ekki þjóðráð að fulltrúar okkar tækju það mál upp í þeim viðræðum sem þá fara fram á milli fulltrúa þjóðanna, Íslendinga og Japana?

Aðalerindi mitt hingað er þó að inna eftir stöðu mála varðandi fríverslun við Kanada. Slíkur samningur væri okkur mikilvægur, m.a. vegna þess að Evrópusambandið hefur enn ekki gert slíkan samning. Og tækist okkur að ná fríverslunarsamningi við Kanada hefðum við ákveðið forskot á Evrópusambandið, sem væri gagnlegt og sýndi líka vissan styrk EFTA. Ég held að nú séu brátt liðin sex eða sjö ár frá því hingað kom sendinefnd frá Kanada og ræddi m.a. við hv. utanrmn. þingsins um slíkan samning. Kanadamenn virtust þá ákaflega áfjáðir í að gera slíkan samning. Af honum hefur þó enn ekki orðið, sem sætir vægast sagt furðu. Mér er kunnugt um að íslensku þingmennirnir, þar á meðal formaður Samf., hafa ítrekað tekið þetta mál upp á fundum EFTA og rekið á eftir því. Ágreiningur milli Norðmanna og Kanada hefur hins vegar leitt til þess að þetta hefur ekki gengið eftir. Hver er eiginlega staða málsins? Það er eiginlega orðið kátlegt hversu mjög það hefur dregist.

Nú er nýlega kominn nýr forsætisráðherra í Kanada sem stokkaði svo rækilega upp í ríkisstjórninni að segja má að um nýja ríkisstjórn hafi verið að ræða og ný ríkisstjórn hafi tekið við. Þó að sami flokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, sem er einmitt systurflokkur hæstv. utanrrh., sé áfram við völd.

Ég vil því að endingu, hæstv. forseti, spyrja hv. formann þingmannanefndar EFTA hver staða málsins sé og hvort sé ekki kominn tími til að Íslendingar taki frumkvæði í þessu máli og ljúki því.