Framtíð sjúklinga á Arnarholti

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:54:41 (5430)

2004-03-17 14:54:41# 130. lþ. 85.12 fundur 646. mál: #A framtíð sjúklinga á Arnarholti# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í niðurskurðar- og hagræðingartillögum Landspítala -- háskólasjúkrahúss kemur fram að ætlunin er að loka Arnarholti og flytja þá sjúklinga sem þar eru á aðra staði og er sjúkradeildin að Kleppi nefnd í því tilliti fyrir yngri sjúklinga sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða, en Landakot fyrir þá sem eldri eru.

Síðastliðið haust lögðu stjórnendur Landspítala -- háskólasjúkrahúss niður rekstur sem verið hafði að Gunnarsholti í Rangárvallasýslu og hluti þeirra sjúklinga sem þar dvöldu var fluttur að Arnarholti, enda eru í sjálfu sér engar forsendur fyrir því að Landspítali -- háskólasjúkrahús reki langlegudeild eins og þá sem var að Gunnarsholti. En það sama má e.t.v. segja um þann rekstur sem er á Arnarholti. Stærsti hluti þeirra sjúklinga sem þar dvelja, jafnvel allir, ættu að fá félagslega búsetu- og umönnunarþjónustu.

Fyrir stuttu heimsótti þingflokkur Samf. Landspítala -- háskólasjúkrahús og kynnti sér þá starfsemi sem þar fer fram. Meðal annars heimsóttum við Arnarholt. Augljóst er að hugsað er afar vel um þá einstaklinga sem þar dvelja og sumir hafa, eftir að hafa dvalið þar árum saman, farið að líta á staðinn sem heimili sitt og starfsfólk og sjúklinga sem heimilisfólk sitt.

Landspítali -- háskólasjúkrahús er hátæknisjúkrahús og eins og áður sagði vandséð að rekstur eins og sá sem er að Arnarholti sé í verkahring Landspítala -- háskólasjúkrahúss og því eðlilegt að niðurskurðar- og hagræðingaraðgerðir stjórnar sjúkrahússins feli í sér að leggja reksturinn af. Engu að síður verður að huga vel að því hvaða úrræði eru til staðar fyrir fólkið sem þar dvelur og þarf frekar á félagslegum úrræðum að halda en þjónustu hátæknisjúkrahúss. Umhverfið að Arnarholti er frábært og örugglega hægt að byggja þar upp enn frekar með tilliti til þeirrar þjónustu sem einstaklingarnir þurfa. En að mati fagfólks sem þarna starfar hafa flestir góða möguleika á að fara í önnur búsetuúrræði en þau verða þá að vera til staðar. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hversu margir sjúklingar verða fluttir frá Arnarholti?

2. Hversu mörgum þeirra gætu nýst félagsleg úrræði eins og t.d. sambýli?

3. Mun ráðherra beita sér fyrir slíkum úrræðum áður en sjúklingarnir verða fluttir frá Arnarholti?