Hættumat fyrir sumarhúsabyggð

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:27:27 (5470)

2004-03-17 18:27:27# 130. lþ. 85.7 fundur 593. mál: #A hættumat fyrir sumarhúsabyggð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:27]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Hér er spurt: ,,Hver er ástæðan fyrir þeim drætti sem hefur orðið á gerð hættumats fyrir fyrirhugaðar sumarhúsabyggðir á grundvelli laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, en Veðurstofan hefur ekki fengið heimild til að vinna slíkt mat síðasta hálfa árið?``

Því er til að svara að umhvrn. hefur í samráði við Veðurstofu Íslands forgangsraðað vinnu við gerð hættumats vegna ofanflóða. Í samræmi við lög nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, er megináhersla lögð á að meta ofanflóðahættu á svæðum þar sem fyrir er þétt byggð og föst búseta fólks, enda tilgangur laganna um varnir gegn snjóföllum og skriðuföllum að leysa þann fortíðarvanda sem skapast hafði í þéttbýlisstöðum víða um land vegna vanþekkingar á hegðun náttúruaflanna, en hættumat er forsenda fyrir frekari aðgerðum, svo sem vörnum eða uppkaupum.

Í framkvæmdaáætlun um aðgerðir til varnar snjóflóðum í þéttbýli sem ríkisstjórnin samþykkti 1997 er gert ráð fyrir að ljúka nauðsynlegum varnaraðgerðum fyrir eldri íbúabyggð á árinu 2010. Kostnaður við hættumat er greitt af Ofanflóðasjóði, en tekjur hans eru tímabundið árlegt gjald sem lagt er á allar brunatryggðar húseignir í landinu. Hættumat vegna ofanflóða hefur nú verið staðfest fyrir átta þéttbýlisstaði, Patreksfjörð, Bíldudal, Bolungarvík, Ísafjörð, Siglufjörð, Seyðisfjörð, Neskaupstað og Eskifjörð. Unnið er að hættumati fyrir Ólafsvík, Grundarfjörð, Tálknafjörð, Flateyri, Suðureyri, Þingeyri, Súðavík, Ólafsfjörð og Fáskrúðsfjörð. Er gert ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki fyrri hluta næsta árs. Með því telur ráðuneytið að meginmarkmiði laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum sé náð, þ.e. að meta hættu vegna ofanflóða á svæðum þar sem fyrir er þéttbýli með fastri búsetu.

Í ljósi þessa svo og þeirrar reynslu sem fengist hefur á reglugerð nr. 505/2000, um gerð hættumats og nýtingu hættusvæða, telur ráðuneytið að endurskoða þurfi reglur um hættumat og endurmeta forgangsröðun, t.d. með tilliti til dreifbýlis, frístundabyggðar og skíðasvæða sem nú eru í byggð eða notkun. Meðan endurskoðun reglugerðarinnar er ekki lokið tekur ráðuneytið og Ofanflóðasjóður ekki þátt í hættumatsgerð, nema í þeim verkefnum sem þegar hafa verið ákveðin og uppfylla skilyrði svo sem um þéttbýli og fasta búsetu. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að aðilar sem hafa í hyggju að leggja lönd sín undir nýja sumarhúsabyggð leiti til Veðurstofu Íslands um gerð hættumats á eigin kostnað ef þeir óska að hefja framkvæmdir á þeim svæðum.