Vernd votlendis samkvæmt Ramsar-samþykktinni

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:37:09 (5474)

2004-03-17 18:37:09# 130. lþ. 85.8 fundur 679. mál: #A vernd votlendis samkvæmt Ramsar-samþykktinni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:37]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er spurt:

,,Hvað líður verndaráætlunum í tengslum við Ramsar-samþykktina fyrir

a. Mývatn og Laxá,

b. Þjórsárver,

c. Grunnafjörð?

2. Hvenær eru áætluð verklok við gerð verndaráætlana fyrir þessi svæði?``

Því er til að svara að Umhverfisstofnun fer með umsjón og stjórn þeirra þriggja svæða sem Ísland hefur tilkynnt á skrá Ramsarsamningsins. Stofnunin hefur þegar hafið undirbúning að gerð verndaráætlunar fyrir Mývatns- og Laxársvæðið og miðað við það fé sem stofnunin hefur til verkefnisins og stöðu rannsókna á svæðinu er útlit fyrir að stofnunin ljúki gerð verndaráætlunarinnar á þessu ári og áætlunin verði tilbúin á næsta ári.

Vinna við gerð verndaráætlunar fyrir Þjórsárver er þegar hafin. Umhverfisstofnun telur ekki þörf á frekari rannsóknum vegna þeirrar vinnu og gerir stofnunin ráð fyrir að ljúka gerð verndaráætlunar fyrir svæðið á þessu ári.

Gerð verndaráætlunar fyrir Grunnafjörð er ekki hafin en Umhverfisstofnun gerir ráð fyrir að ljúka gerð hennar innan þriggja ára. Að mati stofnunarinnar er ekkert sem ógnar svæðinu í dag en stofnunin telur þörf á frekari rannsóknum á svæðinu.