Áætlunarflug milli Sauðárkróks og Reykjavíkur

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 19:08:48 (5488)

2004-03-17 19:08:48# 130. lþ. 85.19 fundur 701. mál: #A áætlunarflug milli Sauðárkróks og Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[19:08]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgrh. um áætlunarflug á milli Sauðárkróks og Reykjavíkur. Hvernig hyggst ráðherrann bregðast við þeirri fyrirætlan Íslandsflugs að hætta áætlunarflugi milli Sauðárkróks og Reykjavíkur í maí næstkomandi að óbreyttum rekstrarskilyrðum?

Með bréfi dagsettu 27. febrúar síðastliðinn tilkynnti Ómar Benediktsson, framkvæmdastjóri Íslandsflugs, sveitarstjórn Skagafjarðar, bæjarstjórn Siglufjarðar og samgrh. að Íslandsflug treysti sér ekki lengur til að halda uppi flugi milli Sauðárkróks og Reykjavíkur að óbreyttum rekstrarskilyrðum. Eina leiðin, að mati Íslandsflugs, til að tryggja áframhald umrædds flugs er að það verði styrkt með fjárframlögum. Að óbreyttu verði fluginu hætt í maí næstkomandi.

Sauðárkróksflugvöllur er hluti af grunnneti samgöngukerfisins samkvæmt skilgreiningu samgönguáætlunar. Það þýðir að gert er ráð fyrir að reglubundið áætlunarflug sé um völlinn. Í Skagafirði eru fyrirtæki, skólar og þjónustustofnanir í örum vexti. Starfsskilyrði þeirra og vaxtarmöguleikar eru mjög háðir góðum samgöngum og ekki síst við höfuðborgarsvæðið. Þar má nefna Háskólann á Hólum, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Byggðastofnun, Íbúðalánasjóð, sjúkrahús og fyrirtæki Kaupfélags Skagfirðinga. Fyrirtækin byggja vöxt sinn, viðgang og samkeppnishæfni á greiðum og öruggum ferðum og stuttum ferðatíma.

Flugið er ekki síður mikilvægt fyrir Siglufjörð. Þegar áætlunarflug þangað var fellt niður var farþegum beint inn á Sauðárkróksflugið og ganga nú rútubílar á milli Sauðárkróks og Siglufjarðar til að þjóna þeim. Það er ljóst að fyrir eflingu atvinnulífs og þjónustustarfs í Skagafirði og Siglufirði skiptir áætlunarflugið miklu máli.

Ferðaþjónustumöguleikar eru einnig háðir öruggum og góðum samgöngum.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að skipulögð áætlunarleið í samgöngum sé ekki lengi í uppnámi. Ferðaþjónustan, viðskipta- og þjónustuaðilar reiða sig á áætlanir um flug til lengri tíma. Það yrði því mikið áfall fyrir Skagafjörð og Siglufjörð ef áætlunarflug til Sauðárkróksflugvallar legðist af. Að mínu viti þarf að finna leiðir til að efla þetta flug en jafnframt þarf nú þegar að grípa inn í og tryggja framtíðarrekstur flugsins milli Sauðárkróks og Reykjavíkur. Sé það ekki hægt með öðrum hætti mætti koma þar að hliðstætt því sem gert er með flug til Hafnar í Hornafirði og til Bíldudals. Ég leyfi mér því að ítreka spurningu mína til hæstv. samgrh.: Hvernig hyggst ráðherra bregðast við fyrirætlunum Íslandsflugs og koma í veg fyrir að umrætt flug leggist niður?