Áætlunarflug milli Sauðárkróks og Reykjavíkur

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 19:18:26 (5491)

2004-03-17 19:18:26# 130. lþ. 85.19 fundur 701. mál: #A áætlunarflug milli Sauðárkróks og Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[19:18]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir undirtektirnar. Ég veit að hann gerir sér grein fyrir því hversu mikilvægt þetta flug er og hve Sauðárkrókur og mannvirkin þar eru mikilvæg. Sauðárkróksflugvöllur er hluti af grunnneti flugsamgangna og um hann á að fara reglulegt áætlunarflug. Samkeppnishæfni stofnana í Skagafirði og atvinnulífs á Siglufirði er líka háð flugi. Við heyrum frá Akureyri hversu Háskólinn á Akureyri hefur t.d. talið gríðarlega mikilvægt fyrir samkeppnishæfni þess skóla að bjóða upp á tíðar flugferðir á milli Akureyrar og Reykjavíkur þannig að starfsmenn Háskólans á Akureyri geti kennt og tekið þátt í störfum í Reykjavík samdægurs og eins að menn komi frá Reykjavík og kenni á Akureyri. Samkeppnishæfni þessara stofnana og vaxtarmöguleikar eru háðir þessu örugga samgöngukerfi og tíðum ferðum.

Nú eru átta ferðir í viku á milli Sauðárkróks og Reykjavíkur og finnst mörgum sem þær megi ekki færri vera. Ég legg áherslu á það, frú forseti, að hæstv. ráðherra gangi sem fyrst í þetta mál og létti af óöryggi sem hefur skapast með yfirlýsingu Íslandsflugs um að hætta flugi til Sauðárkróks nema til komi breyttar rekstrarforsendur, hvort sem að því kæmi Íslandsflug eða annar aðili. Það er ljóst að menn hafa gert ráð fyrir að fá slíka þjónustu og það væri gríðarlegt áfall fyrir vöxt, viðgang og samkeppnishæfni þessarar byggðar ef flug legðist af, sem ég treysti hæstv. ráðherra til að bregðast við og koma í veg fyrir.