Áætlunarflug milli Sauðárkróks og Reykjavíkur

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 19:20:45 (5492)

2004-03-17 19:20:45# 130. lþ. 85.19 fundur 701. mál: #A áætlunarflug milli Sauðárkróks og Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[19:20]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Það er skaði að hv. þm. Sigurjón Þórðarson skuli ekki vera í salnum (SigurjÞ: Ég er hérna.) því hann þarf sjáanlega á uppfræðslu að halda um sérleyfismál í Skagafirði. Það kom fram hjá hv. þm. að ekki hefði verið endurnýjað sérleyfi við þá sem hafa (SigurjÞ: Suðurleiðir.) séð um sérleyfi í Skagafirði og til Siglufjarðar um langan tíma. Það er rangt. Sá samningur hefur verið endurnýjaður og þetta tiltekna fyrirtæki hefur sérleyfi á þessari leið, frá Sauðárkróksflugvelli og til Siglufjarðar (SigurjÞ: En ekki frá Siglufirði til Reykjavíkur.) en hins vegar ekki á leiðinni frá Varmahlíð til Reykjavíkur. Enda er annað fyrirtæki sem þar hefur sérleyfi og mjög óeðlilegt að ríkið geri samninga við tvö fyrirtæki um að sinna sömu leiðinni. Það gerum við ekki. En fyrirtækið fær verulegar greiðslur fyrir að sinna þessari þjónustu á svæðinu. Það er nauðsynlegt að hv. þm. átti sig á því.

Hvað varðar flugið hafa þær breytingar sem samgrh. hefur beitt sér fyrir í innanlandsfluginu sem betur fer leitt til þess að staða innanlandsflugsins er miklu betri en áður hefur verið. Fyrirtækin hafa verið að skila umtalsverðum hagnaði og þeir samningar sem hafa verið gerðir um styrki hafa gengið upp. Það er mikil aukning í innanlandsfluginu og þess vegna veldur miklum vonbrigðum að staðan á fluginu til Sauðárkróks skuli ekki vera betri. Yfir það mál förum við sérstaklega í samgrn. í samstarfi við Vegagerðina sem hefur séð um útboð á flugleiðum og sérleyfisleiðum. Við munum reyna að finna leiðir til þess að bæta þar úr.