Starfsskilyrði héraðsdómstólanna

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 10:59:44 (5504)

2004-03-18 10:59:44# 130. lþ. 86.95 fundur 420#B starfsskilyrði héraðsdómstólanna# (umræður utan dagskrár), SKK
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[10:59]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Á síðustu vikum hafa málefni dómstólanna verið til umræðu og því hefur verið haldið fram að dómstólarnir muni á næstunni fækka starfsfólki vegna fjárskorts. Dómstólaráð hefur sent frá sér fréttatilkynningu og stjórn Dómarafélagsins ályktað.

Af málflutningi stjórnarandstöðunnar má ætla að réttaröryggi almennings sé í hættu verði ekki gripið til aðgerða. Staðreyndin er hins vegar sú að bylting hefur orðið á síðustu árum hvað varðar rekstur dómsmála bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Fjöldi dómsmála hefur aukist en að sama skapi hefur málsmeðferðarhraði fyrir dómstólum og þar með réttaröryggi borgaranna aukist stórkostlega. Það má nefna sem dæmi að málsmeðferðartími fyrir Hæstarétti hefur verið styttur úr 3--4 árum í 3--12 mánuði.

Einnig verður ekki fram hjá því litið að fjárveitingar til dómstólanna hafa aukist umtalsvert því samkvæmt upplýsingum úr ríkisreikningi hafa fjárframlög til héraðsdómstólanna á tímabilinu 1998--2002 aukist um 39% en um 28% til Hæstaréttar. Það hlýtur því að liggja í hlutarins eðli að aukin fjárframlög til héraðsdómstólanna ættu að bæta starfskjör þeirra.

Lögmenn hafa tjáð sig opinberlega um það mál sem hér er til umræðu, en þeir starfa við dómstólana eins og kunnugt er. Í Viðskiptablaðinu þann 3. mars sl. birtust viðtöl við tvo reynda hæstaréttarlögmenn og fyrrum formenn Lögmannafélagsins, þau Þórunni Guðmundsdóttur og Jakob Möller. Báðir lögmennirnir lýstu því yfir að þeir hefðu ekki orðið varir við það að aukinn málafjöldi hefði haft neina breytingu í för með sér til hins verra. Í Viðskiptablaðinu segir Þórunn Guðmundsdóttir, með leyfi forseta:

,,Ég hef ekki orðið vör við að meðferð mála sem varða viðskiptahagsmuni gangi hægar en áður.``

Í sama streng tekur Jakob Möller þegar hann segir, með leyfi forseta:

,,Þetta hefur ekki verið vandamál í héraðsdómstólunum undanfarin ár og fjarri því að vera vandamál í Hæstarétti.``

Það liggur því fyrir, virðulegi forseti, að þeir lögmenn sem starfa við dómstólana og fara með hagsmuni fyrir þeim eru ekki sammála hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls í umræðunni í dag.