Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 14:23:15 (5533)

2004-03-18 14:23:15# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[14:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Þá á hæstv. ráðherra eftir að útskýra, ef vilji stjórnarflokkanna stendur til að gera þetta, af hverju er þá haft ,,ef``, af hverju er ekki sagt ,,skal``? Greiða skal úr ríkissjóði. Það stendur á meðan það stendur. Það gildir á meðan það eru lög. Alþingi getur auðvitað breytt þeim en það er ekkert að því að ganga þannig frá lögum. Ég verð að segja að ég undrast þetta ,,ef`` þeim mun meir sem ég heyri hæstv. ráðherra gera fleiri tilraunir til að útskýra hvers vegna það er haft svona.

Það er alveg rétt og út af fyrir sig gott að hæstv. iðn.- og viðskrh. er hamingjusöm, ánægð og stolt af verkum sínum. Mér finnst það bara fínt úr því að Framsfl. er orðinn svona gallharður markaðsvæðingar- og einkavæðingarflokkur að hann vill taka þessi svið almannaþjónustunnar hvert á fætur öðru og færa þau á það torg, þá er það bara þannig. Hæstv. iðn.- og viðskrh. er ánægð með verk sín í þeim efnum og þá liggur það fyrir og er gott, þ.e. fyrir hæstv. ráðherra. Það er auðvitað vont fyrir þjóðina að sitja uppi með hæstv. ráðherra í mikilvægum verkum sem hefur þessi viðhorf.

Ég hef mjög miklar áhyggjur af því, frú forseti, hvert þetta er að leiða okkur í raforkumálum og voru þó nóg áhyggjuefnin fyrir vegna þess sem er meginmeinsemdin í kerfinu að stóriðjusalan er í kerfinu sem aldrei átti að vera. Það átti að halda virkjunum og dreifingu fyrir almennan markað aðskildum og hafa stóriðjuna alveg sér. Hvers vegna er það ekki gert, þó seint sé, að nota nú tækifærið og setja stóriðjuna og línurnar vegna hennar og virkjanirnar sem selja henni út og láta það standa á eigin fótum og afskrifa niður skuldirnar á hinu kerfinu? Það mundi þýða að almenningur gæti innan fárra ára búið við miklu hagstæðara raforkuverð en hann gerir í dag af því að hann er beint og óbeint að niðurgreiða rafmagnið ofan í stóriðjuna. Það er auðvitað þannig sem allir sjá.