Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 14:35:50 (5536)

2004-03-18 14:35:50# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki heyrt fyrri spurningu mína um upplýsingarnar. Ég var auðvitað búin að fara í gegnum 5. gr. og taldi ekki nóg að það væru eingöngu stjórnvöld sem gætu kallað eftir upplýsingum frá hlutafélaginu. Ég tel fulla ástæðu til að þingmenn og Alþingi geti kallað eftir upplýsingum, það hef ég gagnrýnt harðlega hvað varðar önnur hlutafélög. Ég tel að þarna þurfum við að skerpa á því að þingmenn geti kallað eftir upplýsingum frá hlutafélaginu.

Varðandi hina spurninguna mína heldur hæstv. ráðherra því fram að hækkunin verði aðeins um 1%--1,5% á raforkureikningum á höfuðborgarsvæðinu. Ég þori varla að treysta því að þetta sé rétt vegna þess að því hefur verið haldið statt og stöðugt fram að það verði mun meiri hækkun á raforkureikningum. Við eigum eftir að sjá hvað verður. Verður þessi hækkun 1%--1,5% á rafmagnsreikningum höfuðborgarbúa um leið og lögin taka gildi? Eða má búast við því að frekari hækkun verði á næstu árum, eins og sérfræðingar hafa haldið fram í mín eyru, að það verði mun meiri hækkun á næstu tveimur til fjórum árum? Ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra lýsi því yfir að það verði ekki frekari hækkanir á rafmagnsreikningum hjá höfuðborgarbúum en þessi 1% sem hún nefnir hjá Orkuveitu Reykjavíkur.