Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 15:48:41 (5542)

2004-03-18 15:48:41# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[15:48]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Þessi frv. sem við erum hér að ræða eru afrakstur eða byggja á afrakstri nefndar, svokallaðrar 19 manna nefndar, sem skipuð var samkvæmt bráðabirgðaákvæðum í raforkulögum frá sl. vetri, nefndar sem átti að fara yfir þá þætti sem við fjöllum um, þ.e. um fyrirkomulag flutnings raforku, stærð flutningskerfisins, hvernig rekstur þess og kerfisstjórnun skuli háttað og um öryggi, skilvirkni og hagkvæmni kerfisins og hvernig þau atriði verði best tryggð. Þá var nefndinni falið að móta tillögur um með hvaða hætti jafna eigi kostnað vegna flutnings og dreifingar raforku. Nefndin var skipuð á sl. þingi, þ.e. á grundvelli lagasamþykktar um raforkumál, til að yfirfara og gera tillögur um þau atriði sem þá stóðu út af og ekki var sátt um.

Það er allt gott og blessað en í greinargerð með frv. er látið að því liggja að frv. séu byggð á starfi allrar nefndarinnar. Að vísu er þess getið í greinargerðinni að frv. byggist á meirihlutaáliti nefndarinnar, þess er þó getið í lítilli setningu.

Nefndinni var ætlað samkvæmt erindisbréfi að fara nákvæmlega ofan í þetta mál. Þá hefði mér fundist eðlilegt og rétt að í greinargerð með þessum frv. hefði verið greint frá því að nefndin hefði skipst ekki aðeins í meiri hluta og minni hluta heldur hefði einnig verið greint frá veigamestu minnihlutaálitum, þeim álitum sem voru lögð fram, og jafnframt hefði í greinargerðinni verið greint frá því hvar ágreiningurinn lá. Þessi vinna var unnin, frv. voru lögð fram á grundvelli þessarar nefndar og það var ekki ætlunin, ekki hef ég skilið það, að bara meirihlutasjónarmiðið ætti að koma fram.

Mér hefði jafnframt fundist eðlilegt að meirihlutaálit nefndarinnar hefði komið fram sem fylgiskjal með frv., bæði meirihlutaálitið og líka minnihlutaálitin. Í allnokkrum atriðum er í þessum frv. vikið frá þeim tillögum eða farið á svig við þær tillögur sem 19 manna nefndin lagði til. Það hefði verið eðlilegt að þær tillögur, greinargerðir nefndarinnar, hefðu fylgt sem fylgiskjöl. Þau koma ekkert fram á síðari stigum vinnslu þessa máls því að nú verða frv., þegar þau fara til nefndar, aftur send til umsagnar ákveðinna, skilgreindra aðila en nál. sem slík munu ekki koma fram í þessari meðferð.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. iðnrh.: Finnst ráðherranum þetta eðlileg málsmeðferð? Eða er kannski ráðherrann eitthvað að fela? Er verið að reyna að koma í veg fyrir að ákveðin atriði sem koma fram bæði í meirihlutaálitinu og líka í minnihlutaálitunum komi fram og verði hér með til umræðu með formlegum hætti sem hluti af þeirri vinnu sem liggur að baki þessum frv.?

Ég hef í fyrri ræðu minni gert grein fyrir minnihlutaáliti mínu sem ég gerði við lokaskil nefndarinnar, rakti að það er grundvallarskilningur minn og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að raforkan sé hluti almannaþjónustunnar og ekki hvað síst dreifikerfi hennar. Þess vegna er það skilyrðislaus krafa af hálfu okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að raforkudreifikerfið verði í opinberri eigu staðfastlega og verði ekki boðið til sölu eins og frv. gerir ráð fyrir, með opinni söluheimild, þó að sett séu einhver takmörk á árafjölda. Þar er kveðið skýrt á um að ríkið skuli losa eignarhald sitt sem allra fyrst og að eftir 2011 megi það fara á opinberan markað. Þetta tel ég alrangt, að hlutafélagavæða raforkukerfið með þessum hætti. Þetta form sem lagt er hér upp stríðir gegn þeirri stefnu og þeirri sýn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að raforkan sé sameign okkar allra, hluti almannaþjónustunnar. Við eigum að hafa þar jafnan aðgang, við eigum að njóta hennar sameiginlega. Hún er hluti af því að gera okkur að einni þjóð. Þess vegna er það að búta kerfið niður eða bjóða upp á að setja það á markað, einkavæðingu og markaðsvæðingu, algjörlega andstætt þeim sjónarmiðum sem ég hef og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Þetta var það fyrsta.

Í öðru lagi teljum við að hið opinbera eigi að eiga flutningskerfið, ríkið og sveitarfélögin. Sveitarfélögin, íbúar alls landsins, hafa lagt í núverandi orkufyrirtæki með einum eða öðrum hætti, með skattlagningu, með greiðslu skatta, með greiðslu fyrir notkun á orku sinni, þannig að íbúarnir og ríkið eiga sameiginlega þessi fyrirtæki. Og þó að um þau hafi verið stofnuð fyrirtæki eins og Rarik og Orkuveita Reykjavíkur eru þau nú í eigu þessara sveitarfélaga en þau geta seinna farið á markað fari fram sem horfir og þá er þetta allt saman komið á eitt einkavæðingarflipp, raforkukerfi landsmanna, orkukerfi landsmanna. Þessu erum við andvíg og teljum að ríkið og sveitarfélögin eigi að eiga flutningskerfið.

Í þriðja lagi erum við andvíg þeirri stefnu sem mörkuð er í frv. um að gerð skuli arðsemiskrafa, vaxandi arðsemiskrafa, til þessa þjónustumálaflokks, til raforkudreifingarinnar, og það sé farið að líta á þetta sem arðgefandi fyrirtæki. Við erum andvíg því sjónarmiði í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, þetta er þjónusta sem ekki á að gera arðsemiskröfur til. Arðurinn er fólginn í afhendingaröryggi og í góðri þjónustu sem nær til allra landsmanna. Þarna skilur á milli Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og ráðherra Framsfl. og ríkisstjórnarinnar sem leggur fram frv., ríkisstjórnar einkavæðingar og fákeppni í almannaþjónustu.

Það voru fleiri aðilar sem skiluðu líka stórum álitum í þeirri nefndarvinnu sem liggur að baki frv. og ég vil gera grein fyrir þeim. Ég hef áður gert grein fyrir nál. mínu. Fulltrúar ASÍ og BSRB sem voru í umræddri nefnd skiluðu mjög ítarlegu séráliti sem hvergi hefur hér verið nefnt og hæstv. ráðherra minntist ekki einu orði á. Það kemur hæstv. ráðherra kannski illa að svona stór, fjölmenn samtök skuli hafa afdráttarlausa skoðun á því hvernig haga skuli raforkumálum í landinu.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp það sérálit Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem fulltrúar þessara félaga lögðu inn við lokaafgreiðslu nefndarinnar:

,,Við undirrituð fulltrúar ASÍ og BSRB leggjum hér með fram sérálit vegna niðurstöðu svokallaðrar 19 manna nefndar um raforkuflutning og dreifingu.

Í upphafi skal tekið fram að full ástæða er til þess að gagnrýna stjórnvöld fyrir að hafa ekki tryggt Íslendingum undanþágu frá tilskipun 96/92 EB. Fullljóst er, að landfræðileg lega Íslands útilokar bæði heimili og fyrirtæki frá því að geta tekið þátt í raunverulegum innri markaði með raforku. Með raforkulögunum sem sett voru á síðasta ári og þessu frumvarpi er engu að síður verið að umbreyta öllu raforkukerfi landsmanna til þess eins að uppfylla þessa tilskipun, án þess að möguleiki sé á að gera sér nægjanlega grein fyrir tæknilegum og efnahagslegum afleiðingum þess. Þannig hefur ekki verið hægt að svara einföldum spurningum eins og hvaða áhrif þessar breytingar hafa, bæði vegna uppskiptingar kerfisins, aukinnar jöfnunar á flutningskostnaði, breyttrar áhættudreifingar og aukinna arðsemiskrafna á raforkuverð til heimila og fyrirtækja. Upplýsingar um einstaka rekstrarþætti liggja ekki fyrir né heldur hvert matsverð núverandi fjárfestinga í raforkukerfinu er. Því er að sumu leyti verið að óska eftir óútfylltri ávísun hvað raforkuverð varðar í framtíðinni. Forsendur fyrir því að nefndin hafi getað lokið störfum með viðunandi hætti hafa því ekki verið fyrir hendi þar sem ofangreindar upplýsingar hefur skort. Því er afar mikilvægt að virk endurskoðunarákvæði séu í lögunum þannig að hægt verði að grípa til ráðstafana ef í ljós kemur að kerfisbreytingarnar leiði til hækkaðs raforkuverðs. Stjórnvöld verða að gera sér grein fyrir því að erfitt getur reynst að ganga frá kjarasamningum með óbeina hótun um tugprósenta hækkun á raforkuverði, sem þegar vegur þungt í framfærslukostnaði landsmanna, yfirvofandi.``

Þetta álit var skrifað áður en gengið var frá kjarasamningum sem reyndar á eftir að greiða atkvæði um.

[16:00]

,,Afstaða ASÍ og BSRB til þessa máls byggist á þeirri grundvallarsýn að vatns- og gufuorka sem nýtist til raforkuframleiðslu sé auðlind sem allir landsmenn eigi rétt á að njóta sameiginlega og með sem jöfnustum hætti. Lög sem snerta nýtingu þessarar auðlindar verða því að taka mið af þessu grundvallarsjónarmiði. Orkan er ein af mikilvægustu forsendum lífskjara hér á landi og ljóst að framtíðaruppbygging í atvinnumálum byggist að miklu leyti á hagkvæmri orku. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að raforkukerfi landsmanna er mikilvæg samfélagsleg fjárfesting. Ef við ætlum að taka upp ávöxtunarkröfu markaðsins á allar þessar fjárfestingar, líkt og raforkulögin gera ráð fyrir og þetta frumvarp áréttar varðandi flutnings- og dreifiveiturnar, mun tvennt gerast. Búsetuskilyrði heimila og samkeppnisskilyrði fyrirtækja munu versna alls staðar á landinu með hækkun á raforkuverði. Rekstraröryggi kerfisins verður stefnt í voða, en reynsla erlendis hefur sýnt að skammtímahagsmunir markaðarins um hagnað í árshlutauppgjöri fá sífellt meira vægi. Þetta kemur fram í minni vilja til viðhalds og endurfjárfestinga auk þess sem dregið er verulega úr mannahaldi þannig að mikilvægur mannauður hefur glatast. Áherslur ASÍ og BSRB grundvallast á að hin nýju raforkulög þjóni hagsmunum almennings, miði að því að öll heimili og fyrirtæki njóti raforkukerfisins í landinu með sem jöfnustum hætti og að með lagasetningu verði afhendingaröryggi og gæði rafmagns tryggð sem og lækkandi verð til almennings í landinu.

Ofangreind heildarsamtök launafólks munu því ekki styðja framkomið frumvarp nema að eftirfarandi atriði verði að finna í frumvarpinu.

1. Við höfnum því að sett verði markaðsleg arðsemiskrafa á samfélagslegar fjárfestingar eins og flutningsfyrirtækið og dreifiveitur eru. Það mun valda hækkun á raforkuverði alls staðar á landinu og jafnframt leiða til röskunar á skilyrðum til búsetu og atvinnusköpunar. Miða skal við að gjaldskrár ásamt öðrum tekjum standi undir rekstri kerfisins, þar með talið fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun og má hér vísa til nýframkomins frumvarps um vatnsveitur sveitarfélaga. Arðsemiskrafa fyrirtækja í raforkuiðnaði verður að vera hófleg og taka mið af því að hér er um samfélagslegar fjárfestingar að ræða. Við teljum að eðlileg arðsemiskrafa liggi á bilinu 2--3% (arðsemi af eigin fé). Hlutfall hagnaðar fyrir vaxtagreiðslur og skatta af bókfærðu virði fastafjármuna (sem í frumvarpinu og raforkulögunum er kallað arðsemiskrafa) taki mið af þessari arðsemiskröfu.

2. Flutningsfyrirtækið verði í eigu opinberra aðila, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, enda er því ætlað að vera hluti af almennri grunngerð og þjóna almenningi og fyrirtækjum sem þjónustuaðili og er auk þess með einokunaraðstöðu. Því er mikilvægt að tryggja að slíkt félag verði ekki selt einkaaðilum í framtíðinni, né að rekstur þess og arðsemiskröfur verði sett undir markaðslegar forsendur um skammtímahagnað. Tryggja verður að bæði neytendur og orkuframleiðendur hafi opinn aðgang að öllum upplýsingum varðandi flutningsfyrirtækið sjálft og starfsemi þess.

3. Til þess að stuðla að sátt um bæði flutningsjöfnunina og rekstraröryggi flutningskerfisins föllumst við á tillögur um að flutningskerfið nái til 66 kV. Með þessu er jöfnun á flutningskostnaði sem best tryggð.

4. Jöfnun á dreifingarkostnaði raforku til heimilanna verði fjármögnuð með jöfnunargjaldi innan raforkukerfisins.

5. Í lögunum er gert ráð fyrir samstarfsnefnd um framkvæmd laganna. Í nefndinni á sæti m.a. fulltrúi Samtaka atvinnulífsins, en ekki er gert ráð fyrir fulltrúum stærstu samtaka launafólks, hvorki BSRB né ASÍ. Undirrituð telja að fulltrúar launafólks eigi fullt erindi í umrædda nefnd og óska því eftir að fá sæti í henni.

6. Samráðsnefndin hafi það verkefni að fylgjast með verðmyndun og verðþróun á raforku á næstu missirum og komi með tillögur að úrbótum reynist forsendur þessa frumvarps rangar með þeim afleiðingum að verð hækki óeðlilega frá því sem nú er.

7. Áhersla er lögð á að þess verði gætt að niðurgreiðslur vegna húshitunar á köldum svæðum landsins verði auknar í samræmi við hækkun á raforkuverði til húshitunar ef t.d. Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða ákveða að fella niður afslætti til húshitunar.``

Þetta segir í hinu ítarlega áliti fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambands Íslands í 19 manna nefndinni.

Mér finnst, virðulegi forseti, ámælisvert af hæstv. ráðherra að leggja fram þessi frv. sem unnin eru á grundvelli vinnu umræddrar nefndar og gera ekki grein fyrir meginálitaefnum og þeim meginnefndarálitum eða álitum einstakra nefndarmanna og aðila í þeim frv. sem hér eru lögð fram. Mér finnst þetta, virðulegi forseti, verulega aðfinnsluvert við vinnubrögð hæstv. ráðherra og kannski er ráðherrann að reyna að koma í veg fyrir að sjónarmið þessara stærstu samtaka launafólks landsins fái að koma hér með sama hætti inn í umræðuna og vert væri. Því hef ég, virðulegi forseti, gert grein fyrir þeim álitum. Í þeim eru nákvæmlega sömu atriði og ég hef verið að leggja áherslu á, lögð áhersla á að orkuflutningsfyrirtækin verði skýrt og ávallt afdráttarlaust í opinberri eigu, verði ekki seld, verði ekki með þessum opnu heimildum, eins og stendur í frv., til að selja. Fyrst mundi ríkið selja sinn hluta og síðan færi fyrirtækið á almenna markaði.

Í ræðum þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í umræðum um málið hefur ítarlega og rækilega verið bent á þær hættur sem felast í einkavæðingu raforkukerfisins við þær aðstæður sem eru á Íslandi. Bent hefur verið á þær hryllilegu afleiðingar sem hafa orðið í öðrum löndum þar sem þessi leið hefur verið farin, leið einkavæðingar og markaðsvæðingar á raforkukerfinu. Hví skyldum við gera það hér? Alveg fráleitt.

Því miður virðast gæfuleysi núv. ríkisstjórnar, einkavæðingarríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl., engin takmörk sett. Ákefð hæstv. iðnrh. í einkavæðingu almannaþjónustunnar er löngu landskunn og íbúar landsins fyrir löngu búnir að fá upp í kok af þeirri stefnu.

Ég óska eftir því og skora á hv. iðnn. að þegar hún fær þetta mál til meðferðar fari hún rækilega ofan í saumana á því, taki á því á sjálfstæðan hátt og breyti því í þá veruna að hagsmunir hinnar íslensku þjóðar, íbúanna og atvinnufyrirtækjanna um land allt verði hafðir í fyrirrúmi við lagasetningu um raforkumál en ekki einkavæðingaræði og einkavæðingarflipp hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. iðnrh. sem við erum búin að fá miklu meira en nóg af.