Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 16:08:42 (5543)

2004-03-18 16:08:42# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um eignarhald í raforkugeiranum. Hann svaraði í rauninni spurningu sem ég velti fyrir mér áðan um eignarhald á dreifikerfinu og heimildir til að stunda annan rekstur, vísaði þar í 8. gr. núverandi raforkulaga þar sem segir að ,,flutningsfyrirtækið má ekki stunda aðra starfsemi en þá sem því er nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt lögum þessum``. Hann benti jafnframt á að dreifiveiturnar hefðu rýmri heimildir hvað þetta snertir.

Ég tel þetta hins vegar vera mjög mikilvæga lagagrein sem ég vísaði hér til, 8. gr. núverandi raforkulaga, því ég hafði varað við þeim hættum sem gætu fylgt því að flutningsfyrirtækið fjárfesti jafnframt annars staðar og vísaði þar í reynslu erlendis frá, frá Vivendi Universal, franska vatnsveiturisanum, sem gerðist annar stærsti fjölmiðlarisi í heimi og tapaði miklum fjármunum á því með mjög glannalegum fjárfestingum. Hlutabréf féllu í verði um 80% á einu ári sem síðan bitnaði á þessari grunnþjónustu. Hér er hins vegar girt fyrir þetta í ákvæði núverandi raforkulaga. Að þessu leyti er ég að svara sjálfum mér og leiðrétta misskilning sem kom fram hjá mér.

Það breytir ekki hinu að ég tel mjög mikilvægt og tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar fyrir stundu að í lögunum þarf að kveða skýrt á um það að flutningsfyrirtæki verði í eigu opinberra aðila. Það verði ekki sett á markað. Reynslan kennir okkur að sú er og verður raunin nema girt sé fyrir það í lögum. Reynslan kennir okkur að ef ekki er girt fyrir það með lögum verði það fyrr eða síðar sett á markað. Við höfum allt of oft orðið fyrir þeirri reynslu að fyrirheit eru gefin um hið gagnstæða en síðan er reyndin allt önnur. Vísa ég þar aftur í Póst og síma, reyndar í ríkisbankana líka og önnur fyrirtæki sem hafa verið einkavædd.

Annað atriði sem ég vék hér að eru hugmyndir stjórnvalda hvað þetta snertir. Það er rétt að ekki hafa komið fram tillögur um að setja sjálft flutningskerfið á markað og ég vísaði í yfirlýsingar ráðuneytisstjóra í iðnrn. þar sem hann talaði um markaðsvæðingu en þó einvörðungu á samkeppnissviðinu, ekki á flutningssviðinu.

Athyglisverðar áherslur koma fram í máli hans. Hann segir að markaðsvæðing raforkuframleiðslunnar væri til þess fallin að auka hagræði og samkeppni og efla hlutabréfamarkaðinn. Við eigum að setja raforkugeirann á markað til að efla hlutabréfamarkað. Er ekki markmiðið með raforkuframleiðslu að framleiða rafmagn og koma því til notenda á sem hagkvæmustum prísum? Og þar vísa ég aftur í yfirlýsingar sem komið hafa frá forstjórum úr orkugeiranum, bæði Guðmundi Þóroddssyni, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, og Friðriki Sophussyni, forstjóra Landsvirkjunar, sem hafa lýst því afdráttarlaust yfir að þessar kerfisbreytingar muni í fyrsta lagi leiða til umtalsverðs kostnaðar --- markaðsvæðingin ein muni hafa í för með sér milljarðs kostnaðarauka, segir forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur --- og þetta muni bitna á hinum almenna notanda en verða stórnotandanum, stórfyrirtækjunum, í hag. Þetta segja þeir báðir, bæði Guðmundur Þóroddsson og Friðrik Sophusson. Þessu lýstu þeir yfir á ráðstefnu um orkumálin ekki alls fyrir löngu.

En varðandi þessar yfirlýsingar og fullyrðingar, vonir og þrár ráðuneytisstjóra iðnrn. hefur reynslan erlendis frá sýnt allt annað. Þetta eykur ekki hagræði. Þetta skapar ekki þá samkeppni sem mundi leiða til hagræðis fyrir notendur, nema síður sé. Ég nefndi breska fyrirtækið British Energy sem sér um fjórðunginn af raforkuframleiðslunni í Bretlandi. Það hefur hvað eftir annað rambað á barmi gjaldþrots og hefur þurft á umtalsverðum fjármunum frá breskum skattgreiðendum að halda. Það kemur fram í skýrslu sem gerð hefur verið um raforkugeirann þar í landi að fyrirtæki sem framleiða 40%, næstum helming af allri raforku í Bretlandi, eru annaðhvort orðin gjaldþrota eða við það að verða gjaldþrota. Og hvert er svarið þá? Jú, það er að fá fjármagn frá ríkinu, frá skattgreiðandanum. Enda eru ráðleggingarnar sem koma t.d. frá fjármálageiranum annars vegar og gjörðum stjórnvalda hins vegar harla mótsagnakenndar. Evrópski fjárfestingarbankinn hefur sent frá sér skýrslu, svo dæmi sé tekið, þar sem segir að í raforkudreifikerfunum megi reikna með því til framtíðar að ríkið verði þar að koma inn. Þetta segir í yfirlýsingu frá Evrópska fjárfestingarbankanum, að á svæðum sérstaklega sem ekki gefa af sér hámarksarð verði ríkið að koma inn og að ekki sé hægt að treysta á einkafjármagnið hvað þetta snertir. Það er mjög skýrt.

[16:15]

Ég velti fyrir mér hver skýringin er á því að þrátt fyrir alla þá vankanta sem koma upp í tengslum við kerfisbreytingarnar, markaðsvæðingu og einkavæðingu, skuli haldið áfram. Hvers vegna er þessari för haldið áfram? Vandi Sovétríkjanna sálugu á sínum tíma var fyrst og fremst sá að það var einræðisríki sem þoldi ekki gagnrýni, þoldi ekki opna frjóa umræðu, gagnrýna umræðu. Mál voru keyrð áfram af meirihlutavilja þar sem stjórnarmeirihluti í þinginu var til málamynda, bara punt, til sýnis nánast. (JBjarn: Það er ekki svoleiðis hjá okkur.) Þar fylgdu allir stjórnarlínunni. En hitt var öllu verra. Hin ástæðan fyrir því að það ríki hrundi var að fyrst og fremst skyldi keyrt á hugmyndafræðinni. Menn höfnuðu reynslunni. Menn sögðu sem svo: Það er ekki að marka reynsluna, hugmyndirnar eru ekki orðnar að veruleika. Það þarf að láta reyna á þær áður en við gefum þeim einhvern dóm.

Hið sama er að gerast núna með einkavæðinguna og frjálshyggjuna, með markaðsvæðingu samfélagsþjónustunnar. Menn horfa til reynslunnar, á kerfi sem eru að hrynja, sem eru notendum í óhag og almenningi í óhag en engu að síður er haldið áfram á þeirri braut. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum er þetta gert? Þetta er gert vegna þess að menn trúa á hugmyndafræðina. Menn trúa að í grunninn muni þetta leiða til góðs þegar til langs tíma er litið. Það er trú manna. Svo verður bara stuttur tími langur og enn er reynslan slæm en menn halda áfram á þessari braut.

Þetta er náttúrlega eins og hver önnur tíska. Við þekkjum öll að þegar támjóir skór voru í búðunum og ekkert annað þá gengu allir í támjóum skóm. Svo komu þykkir sólar og allir fóru á þykka sóla. Þetta virðist eins í heimi stjórnmálanna. Þarna kemur þó enn eitt aflið til, þ.e. hagsmunatengdir aðilar sem vilja komast í skjótfenginn og auðveldan gróða af grundvallarþjónustu samfélagsins, þjónustu sem ekkert samfélag getur verið án. Þar er að sjálfsögðu komin skýringin á því að aðilar á borð við Verslunarráðið og önnur hagsmunasamtök atvinnurekenda kyndi undir þessari þróun.

Að lokum, varðandi spurninguna um jöfnunarkostnaðinn, hvar hann eigi að liggja. Á hann að liggja inni í kerfinu eða utan þess? Á það að vera á hendi skattborgarans að greiða inn í kerfið eins og nú er rætt um eða á jöfnunin að vera innan kerfisins? Ég tel grundvallaratriði að halda honum innan kerfisins. En þeir sem vilja markaðsvæða þennan geira leggja áherslu á hið gagnstæða, á nákvæmlega sama hátt og gerðist á sínum tíma með markaðsvæðingu póstþjónustunnar og símans. Menn sjá fyrir sér að í framtíðinni komi margir aðilar að málum og ekki verði hægt að láta þá sín í milli véla um eða taka á sig einhverjar slíkar sameiginlegar byrðar, þar þurfi að koma að þriðji aðili, ríkisvaldið. Þess vegna var ákveðið að gera Landssímann að hlutafélagi og þegar spurt var: Hvað á að gera gagnvart hinum dreifðu byggðum bæði varðandi símann og ekki síður póstinn? Þá var svarið þetta: Jú, ríkið á að koma þar inn. Þar á skattgreiðandinn að koma inn. Þar var horfið frá þeirri hugsun að landsmenn tækju allir þátt í jöfnuninni í gegnum þá Póst og síma. Þetta var markaðsvætt og hver eining átti að bera sig en síðan á ríkið að koma inn með stuðning. Þetta finnst mér alrangt.

Mér hefur alltaf fundist mikið ranglæti í þeirri þróun sem hefur átt sér stað innan raforkugeirans á síðustu árum. Mér fannst mjög miður þegar Akureyri og Reykjavíkurborg fóru að krefjast þess á sínum tíma fyrir fáeinum árum að arður yrði greiddur út úr Landsvirkjun á grundvelli þess að þeir væru það stórir eignaraðilar, Reykjavíkurborg með 45% og Akureyri með 5%.

Landsvirkjun er eign allra landsmanna. Með þessum kerfisbreytingum er verið að yfirfæra þetta ranglæti á nýtt kerfi. (Gripið fram í.) Já, ég vil líta á þetta sem sameiginleg gæði allra landsmanna. Ég vil að jöfnunin innan kerfisins eigi að taka til landsins alls. Mér finnst grundvallaratriði að gera það með þeim hætti.

Mér finnst mjög misráðið að fara með þessar jöfnunargreiðslur í gegnum ríkissjóð og láta skattborgarann greiða fyrir þetta. Mér finnst að þetta eigi að vera inni í kerfinu. Þetta er sjónarmið sem ég vildi gjarnan að kæmi fram við þessa 1. umr. í máli sem án efa á eftir að fá mjög rækilega umræðu í þinginu, bæði í þingnefnd, í iðnn. þingsins og að sjálfsögðu við 2. og 3. umr. málsins.