Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 16:42:56 (5549)

2004-03-18 16:42:56# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[16:42]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka umræðuna sem hefur verið málefnaleg. Það er eðlilegt að fólk geri athugasemdir og hafi mismunandi skoðanir á málinu, þá er ég að tala um grundvallarþætti málsins. En ég hef, eftir að vera búin að vinna í málinu öll þau ár sem ég hef verið í iðnrn., sannfærst um að við erum að taka upp gott fyrirkomulag. Ég heyrði það á hv. síðasta ræðumanni að hann er fylgjandi fyrirkomulaginu og ég er ánægð að heyra það. En af því hann talaði um að við þyrftum að vanda okkur á hv. Alþingi í meðförum þingsins, vil ég segja að við erum búin að vera að vanda okkur öll þessi ár og höfum lagt gríðarlega vinnu í málið alveg frá upphafi, ekki bara síðan ég kom í ráðuneytið um áramótin 1999/2000 heldur alveg frá því að upphafleg vinna hófst við málið af hálfu forvera míns og þáltill. kom fyrir þingið eins og hv. þingmenn muna. Síðan er ferlið enn til umfjöllunar, þ.e. hvort hægt hefði verið að fá undanþágu frá tilskipuninni.

Ég fór yfir það í andsvari fyrr í umræðunni hvernig það mál var vaxið og hvað stjórnvöld gerðu til að athuga um slíkt. Í stuttu máli sagt var niðurstaðan sú að ekki væri hægt að fá undanþágu í sambandi við vinnsluna, þar yrði að taka upp samkeppni, vegna þess að þar erum við m.a. í samkeppni þó svo við séum eyland, þá er ég með stóriðjuna í huga.

Við hefðum getað fengið skilgreiningu sem einangrað ríki eða einangrað raforkukerfi, en þá þurftum við líka að geta sýnt fram á að það væri vandkvæðum bundið að taka upp fyrirkomulagið og miðað við niðurstöðu Orkustofnunar var það ekki vandkvæðum bundið. Ég vil halda því fram að það sé ekki vandkvæðum bundið þó það sé gríðarlega flókið og mikil breyting sem við erum í raun að fara út í.

[16:45]

En er einhver tilbúinn að segja að fyrirkomulagið sem við höfum í dag sé óaðfinnanlegt? Ég held að það sé það ekki. Ég held að það að forstjórar allra orkufyrirtækjanna hafi verið mjög á varðbergi og ekki sérstaklega áfjáðir að taka upp þetta fyrirkomulag hafi kannski eitthvað með það að gera að þeir hafa verið að vinna í mjög lokuðu kerfi þar sem ekki hefur verið kallað á miklar upplýsingar og ekki verið mikil upplýsingaskylda í raun og því hefur verið mikið svigrúm til þess að færa kostnað á milli liða og annað slíkt. Þeim tíma er að ljúka og nú þurfa þeir að einbeita sér að því að reksturinn verði gegnsær. Og eftirlitið er til staðar og verður unnið að því af hálfu Orkustofnunar.

Ég vil þá svara þeirri spurningu sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni þegar hann talar um að enn eigi að reyna undanþágu. Ég tel að það sé ekki ástæða til þess og það er svarið. Hv. þm. verður fyrir vonbrigðum, ég veit það.

Svo er spurningin: Mun þetta hækka orkuverð til heimila eða ekki? Ég fór yfir það líka fyrr í umræðunni hvernig það dæmi lítur út miðað við orkufyrirtækin í landinu. Það hefur verið farið í gríðarlega vinnu til þess að átta sig á því. Hjá Hitaveitu Suðurnesja sýnist mér þetta hækka verðið um 2,5% og það er fyrst og fremst vegna þess að þeir hafa notið algjörrar sérstöðu innan kerfisins með því að þurfa ekki að taka þátt í flutningskerfinu nema að mjög takmörkuðu leyti vegna eigin framleiðslu. Við erum ekki tilbúin að veita einu fyrirtæki einhver sérstök forréttindi og ég held að það standist bara ekki ákvæði EES-samningsins.

Það er svo sem ekki bara Hitaveita Suðurnesja sem notið hefur ákveðinna sérréttinda í þessum efnum, heldur má segja að það hafi líka átt við um Orkubú Vestfjarða og þar gæti verð hækkað um 1,5% miðað við þessar breytingar, hjá Norðurorku um 1,4%, Orkuveitu Reykjavíkur um 1%, en hins vegar lækkað um 2,6% hjá Rarik af því að Rarik hefur ekki notið sérstöðu, heldur hafa verið settar ákveðnar kvaðir á það fyrirtæki sem nú eru ekki heimilar og ekki ástæða til þess að viðhafa.

Þetta er það sem við höfum fengið út úr okkar reikningsdæmi og ég hlýt að halda því fram að þetta séu ekki breytingar sem eru svo miklar að ástæða sé til að gera mikið veður út af þeim.

Hins vegar miðað við tillögu frá þingmönnum Vinstri grænna eða sérálit sem kom frá þeim, þá eru þeir tilbúnir að leggja ákveðið gjald á alla kaupendur og sérstaklega náttúrlega á kaupendur á suðvesturhorninu. Ég tel að við verðum að fara ákveðna millileið í þessu með fullri virðingu fyrir aðstæðum landsbyggðarinnar, og ég sem ráðherra sem fer með þann málaflokk, byggðamál, tel samt að ekki sé hægt að ganga til hins ýtrasta í þessu sambandi og sú leið sem mælt er með í frv. að flutningskerfið nái niður á 66 kV (JBjarn: Framfærsluleiðin.) sé í raun ágætis millileið sem við ættum að geta sæst á.

Ég tel að það sé rétt ábending frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að við hefðum getað látið koma fram í greinargerð að ekki var samstaða í 19 manna nefndinni og það var bara klaufaskapur, held ég að megi segja. Hv. þm. hefur lagt sig fram um í dag að láta koma fram í umræðunni að það hafi orðið ágreiningur í nefndinni. En mér finnst hann ekki hafa verið mikill og þó svo að ekki fleiri hafi treyst sér til að skrifa undir nál. meiri hlutans þegar til kastanna kom var þetta ekki grundvallarágreiningur.

Varðandi fyrirspurnir sem hér hafa komið fram kom fyrirspurn frá hv. þm. Kjartani Ólafssyni um hvernig tryggt yrði að eigendur flutningsmannvirkja trassi ekki viðhald. Orkustofnun hefur þarna hlutverki að gegna. Hún getur beitt dagsektum sem eru allt upp í 500 þús. kr. á dag ef um vanrækslu er að ræða í sambandi við viðhald.

Komið er svar við því að Landsnet getur ekki í raun staðið í óskyldum rekstri.

Hvað varðar þrífösunina er það dreifiveitunnar að taka ákvarðanir um slíkt og það yrði borið undir Orkustofnun sem þarf að krefjast rökstuðnings fyrir öllum fjárfestingum og það yrði eins í sambandi við þrífösunina. Ég veit að þetta er eitt af hinum mikilvægu málum á landsbyggðinni og ég heyri það hvar sem ég kem á fundi.

Stórnotandi var eitt af því sem hv. þm. velti fyrir sér varðandi skilgreiningu. Það er skilgreint nokkuð þröngt, a.m.k. það þröngt að verið er að tala um einn mæli, þ.e. einn mælir er það sem þarna ræður ferð. Það er því ekki hægt að safna saman mælum þó að það tilheyri sama greiðanda og hann fái þannig afslátt.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson talaði um flókið kerfi sem verið væri að búa til og óttaðist það. Því er ekki að neita að fljótt á litið virðist þetta ansi flókið og sérstaklega er flókið að fara úr því kerfi sem við erum með í dag og yfir í þetta. En þegar við verðum búin að búa í nokkur ár við það kerfi hef ég trú á að það muni sanna sig.

Svo er það þetta ,,ef`` sem margir hv. þm. hafa nefnt og mislíkar að þetta ákvæði skuli vera orðað eins og raun ber vitni í frv., að ríkið greiði kostnað við dreifingu í mesta dreifbýlinu. Ég get alveg tekið undir að þetta er ekki venjulegt orðalag í frv. eða lögum, þannig mér er ekki sárt um að þetta verði orðað með öðrum hætti ef það verður niðurstaða hv. nefndar.

Af því hv. þm. talaði um mikinn kostnað við raforkukaup iðnfyrirtækja á landsbyggðinni, þá eru náttúrlega, eins og kom fram í máli mínu áðan, líkur á því að á Rarik-svæðinu verði um lækkun að ræða hjá kaupendum raforku, ekki síst á þéttbýlissvæðunum þar sem iðnfyrirtækin eru fyrst og fremst, af því að Rarik hefur eins og menn vita jafnað innan dreifikerfis síns með því að láta þéttbýlið í raun greiða fyrir dreifbýlið. En það verður ekki um það að ræða í hinu nýja kerfi.

Ég ætla ekki að fara mjög djúpt ofan í hugtök og frasa sem eru einkavæðingarfrasar, og hafa verið nefndir dálítið mikið í umræðunni. Verið er að markaðsvæða og það er ekki það sama og að einkavæða. Ég tel það fyrirkomulag að Landsnetið sé hlutafélag sé í raun mjög eðlilegt. Það er skýrt rekstrarform sem við þekkjum og hefur marga kosti. En það væri flókið mál ef ríkið þyrfti að fara að kaupa flutningsvirki af þeim fyrirtækjum sem eiga flutningsvirki önnur en ríkið og ekki kannski sérstaklega auðvelt að ná samningum um slíkt. Þetta er því allt í býsna góðu standi að mínu mati.

Þá er þetta komið að mörgu leyti. Hv. þm. las upp sérálit ASÍ og BSRB og við erum svo ljónheppin á hv. Alþingi að við erum með ágætan fulltrúa hér frá BSRB sem getur komið því vel á framfæri sem þar er sagt. En mér fannst það álit ekki vera mjög róttækt og það fellur í raun á margan hátt að því sem hér er lagt til í frv. (JBjarn: Arðsemin og eignarhaldið, fjarri því.) Ja, arðsemin, það er talað um að arðsemin eigi ekki að vera há en við verðum að bara horfast í augu við það að þegar búið er að taka þetta kerfi og einangra það er ekki hægt að reka það til frambúðar nema krefjast einhverrar arðsemi. Það sem hefur verið gert fram að þessu er að orkufyrirtækin hafa verið að taka fjármagn úr öðrum geirum til að geta viðhaldið þessum þáttum sem eru sérleyfisþættir, dreifikerfið og flutningskerfið, og það er bara ekki hægt í þessu nýja kerfi og þess vegna ekki hægt að reka það til langframa nema þar sé krafist einhverrar arðsemi.

Þarna er farin ákveðin millileið. Við erum ekki að ganga eins langt og t.d. Samtök atvinnulífsins í séráliti sínu. Þeim finnst þetta allt of lág arðsemiskrafa. Mér finnst hún viðunandi og þegar við tölum um að hún muni hækka meinum við náttúrlega fyrst og fremst það að hún hækki ekki vegna þess að verðið sé hækkað, heldur að fyrirtækin nái að hagræða.

Ég held ég hafi þá ekki fleiri orð um þetta. Ég var búin að koma upp í andsvörum nokkrum sinnum og svara einhverju af því sem þá hafði komið fram. En við lok umræðunnar vil ég bara þakka fyrir hana. Ég er bjartsýn á að við náum að búa til kerfi sem verður skilvirkt og okkur til framdráttar þegar til lengri tíma er litið.