Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 16:56:20 (5550)

2004-03-18 16:56:20# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[16:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra segir að þetta sé býsna gott frv. og að mjög hafi verið vandað til þess. Ég efast ekki um að menn hafi vandað sig við vinnuna. En hins vegar er mörgum spurningum ósvarað, t.d. ýmsu sem lýtur að kostnaði við þessar kerfisbreytingar og þar heyrum við yfirlýsingar frá þeim sem vel þekkja til í þessum geira bera brigður á það sem frá stjórnvöldum kemur.

Hitt er rangt hjá hæstv. ráðherra að við höfum, eins og hún segir og vísar þar væntanlega í ríkisstjórnina, vandað okkur mjög í öllu þessu ferli. Svo var ekki. Þegar sú grundvallarafstaða var tekin árið 1999 að samþykkja tilskipun Evrópusambandsins frá 1996 hafði engin umræða farið fram um þetta í landinu. Og þegar þál. var samþykkt árið 2000, aðeins gegn andmælum þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, fór engin umræða fram um málið. Það er ekki fyrr en á síðari stigum, eftir að allar grundvallarákvarðanir hafa verið teknar, að menn setjast niður og fara að vinna sín mál. Þá er það svo að veigamikil atriði eru óútkljáð, t.d. eftirlitsþátturinn, hvað kemur hann til með að kosta? Og ýmislegt sem lýtur að öðrum kostnaði.

Það er hins vegar ekki þetta sem við gagnrýnum fyrst og fremst þó að það sé ámælisvert og þurfi að hreinsa upp áður en málið heldur lengra, heldur sú grundvallarstefnubreyting sem frv. felur í sér og hefur mætt mikilli andstöðu í þjóðfélaginu. Menn skyldu ekki gera lítið úr því þegar stærstu heildarsamtök launafólks í landinu vara við þeirri þróun sem ríkisstjórnin er að halda með okkur inn á með einkavæðingu og markaðsvæðingu raforkugeirans á Íslandi.