Erfðafjárskattur

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 14:39:09 (5610)

2004-03-23 14:39:09# 130. lþ. 88.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv. 14/2004, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er svo sem búinn að fara yfir sjónarmið mín varðandi þessi rök sem hv. þm. nefndi núna, um að undanþágan leiddi til öflugri starfsemi þeirra sem undanþágunnar njóta.

Ég vil almennt fara yfir það að það er verra fyrir ríkissjóð að hafa innheimtukerfi eða skattlagningarkerfi sem byggir á háum skattprósentum sem síðan er þá mætt með því að hafa svo og svo víðtækar undanþágur fyrir afmarkaða hópa eða einstaklinga til þess að skattheimtan lendi ekki á þeim af fullum þunga, búa til skattfrelsi o.s.frv. Við þekkjum það t.d. í tekjuskattinum, við erum með tiltölulega háa skattprósentu og mætum henni með því að hafa tiltölulega háan persónuafslátt o.s.frv. Svipað má segja um virðisaukaskattinn, við erum komin með mjög háan virðisaukaskatt og honum er mætt með því að hafa suma hluti í lægra skattþrepi og enn aðra hluti í engu skattþrepi, þ.e. í 0%, og það er togstreita um að færa einstaka vöruflokka á milli skattþrepa, úr hærra skattþrepi í lægra skattþrep, eins og menn hafa heyrt í þessum sal á málflutningi manna, hvort sem það eru matvörur, barnaföt eða annað. Það er það sem leiðir af kerfi með hárri skattlagningarprósentu, menn lenda í verulegum ógöngum. Menn þurfa að mæta því með undanþágum og sitja síðan uppi með töluverðan vilja einstaklinga til að fara fram hjá kerfinu og losa sig undan því að greiða skattinn.

Þess vegna tala ég fyrir því almennt --- og það á við í þessu máli sérstaklega --- að hafa lága skattprósentu, og helst undanþágulausa. Ég er ekki þar með að gera lítið úr þeim sjónarmiðum sem liggja að baki hjá þeim sem flytja þá brtt. sem hér er til umræðu.