Uppsögn af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 17:56:48 (5648)

2004-03-23 17:56:48# 130. lþ. 88.12 fundur 453. mál: #A uppsögn af hálfu atvinnurekenda# þál., Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[17:56]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um fullgildingu á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda.

Þessi samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar gengur út á það að veita íslensku launafólki á almennum vinnumarkaði betra starfsöryggi en er í dag. Ég vil byrja á því áður en ég geri grein fyrir efni tillögunnar að segja litla dæmisögu úr íslenskum veruleika og segja frá dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp þann 11. mars 2004 í máli nr. 342/2003, Alfreð Hafsteinsson gegn Skagstrendingi hf. Örlítil tengsl við raunveruleikann áður en við byrjum að ræða efni tillögunnar.

Málavextir voru í stuttu máli þeir að í ársbyrjun 2002 var vélstjóra á frystitogara frá Skagaströnd sagt upp störfum þar sem hann hlýddi ekki skilyrðislausri fyrirskipun fyrirsvarsmanna útgerðarinnar að flytjast búferlum með eiginkonu sína og þrjú börn frá Reykjavík til Skagastrandar. Vélstjórinn naut góðra launa á frystitogaranum og þótti eðlilega sárt um skiprúm sitt og reyndi því að sætta mál við fyrirsvarsmenn útgerðarinnar. Lagði vélstjórinn fram þá lausn að eiginkonan og börnin flyttust til Skagastrandar að afloknum vorprófum barnanna sem þá voru 11, 13 og 16 ára. Þótti þeim hjónum að fyrirvaralaus búferlaflutningur hefði í för með sér verulega röskun á stöðu og högum fjölskyldunnar, þá einkum barnanna. Þessu tilboði höfnuðu fyrirsvarsmenn útgerðarinnar umsvifalaust og var stefnanda í kjölfarið sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Vélstjórinn höfðaði síðan mál á hendur útgerðinni og byggði mál sitt einkum á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, vísaði einnig til ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu til skýringar og fyllingar á innanlandslöggjöfum, réttarvernd launþega fyrir ómálefnalegum uppsögnum. Við munnlegan flutning málsins fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra létu fyrirsvarsmenn útgerðarinnar ekki sjá sig þrátt fyrir áskoranir þess efnis. Þeir höfðu ekki mótmælt framburði vélstjórans um málsatvik en höfðu ekki heldur samþykkt hann. Þeir einfaldlega neituðu að tjá sig og töldu að sér væri stætt á því, þeir hefðu skilyrðislausan rétt til að segja starfsmanni upp störfum.

[18:00]

Það kom fram fyrir dómnum, og virtist ekki vera umdeilt, að vélstjórinn hafi verið afbragðsstarfskraftur en þrátt fyrir það sýknaði héraðsdómur útgerðina. Hæstiréttur gerði að auki rök héraðsdóms fyrir sýknu útgerðarmannsins að sínum. Í niðurstöðu dómsins kemur m.a. fram að vélstjórinn hafi verið mjög vel hæfur til vélstjórnarstarfa og að ekkert hafi verið undan störfum hans að kvarta, raunar hafi hann verið mjög góður starfsmaður. Í niðurstöðu dómsins segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í málinu liggur því ekki fyrir svo óumdeilt sé hver ástæða uppsagnarinnar var en þó er ljóst að stefnandi gegndi starfi sínu óaðfinnanlega og því hefur honum ekki verið sagt upp vegna slælegrar frammistöðu. Er því ekki óvarlegt að ætla að búseta stefnanda hafi skipt þar mestu.``

Dómurinn fellst þannig á það sjónarmið að búsetan hafi verið ástæða uppsagnarinnar. Ég ítreka að í þessu tilviki neitar útgerðin að tjá sig.

Ástæður að baki uppsögninni skiptu samt engu máli að því er virtist. Almenn lög eru í þessum dómi látin ganga framar skýrum ákvæðum stjórnarskrárinnar, 65. gr., jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sem segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis o.s.frv. og m.a. er vísað til stöðu að öðru leyti. Hæstiréttur hefur áður staðfest að orðin ,,stöðu að öðru leyti`` geti vísað til búsetu.

Þessi nýi dómur Hæstaréttar staðfestir þannig það sem margur hefur vakið athygli á, að það má segja fólki upp, jafnvel þótt vísað sé til ómálefnalegra ástæðna. Má þá ekki með sömu rökum, virðulegi forseti, segja fólki upp á grundvelli kynferðis --- reyndar ekki á grundvelli kynferðis vegna þess að það er sérstaklega varið í öðrum lögum --- á grundvelli trúarbragða, stjórnmálaskoðana o.s.frv.?

Tillagan sem hér er mælt fyrir gengur út á það að launafólki á almennum vinnumarkaði hér á landi verði tryggð ákveðin grundvallarréttindi þegar það verður fyrir því að vera sagt upp störfum. Í dag skortir verulega á að svo sé, eins og þessi dómur Hæstaréttar sýnir. Þessi grundvallarréttindi sem eru talin felast í tillögunni eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi að starfsmaður eigi rétt á rökstuðningi fyrir uppsögninni óski hann eftir því. Það hefur verið gagnrýnt mjög af hálfu atvinnurekenda, þegar þessi samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur verið rædd, og þeir gjarnan bent á að þetta geti gert réttarvernd starfsmannsins enn verri, að fyrir liggi rökstuðningur um að viðkomandi sé hugsanlega ómögulegur starfsmaður o.s.frv. --- Ég vek athygli á því að þarna er það starfsmaðurinn sem á að hafa val um hvort hann biðji um rökstuðninginn. Hann metur það sjálfur hvort hann telji æskilegt að gera það.

Í öðru lagi að starfsmanni skuli ekki sagt upp nema að baki liggi gild ástæða í sambandi við hæfni eða hegðun starfsmanns eða hún byggist á rekstrarlegum ástæðum fyrirtækisins. Það er skilgreint í tillögunni hvað teljist ekki gildar ástæður uppsagnar og þar eru talin upp atriði eins og aðild að stéttarfélagi eða þátttaka í starfsemi þess, að gegna stöðu trúnaðarmanns, sem reyndar eru varðir sérstaklega í lögum nú þegar, að hafa borið fram kæru eða tekið þátt í málssókn gegn atvinnurekanda sem felur í sér ásökun um meint brot á lögum eða öðrum reglum, kynþáttur, hörundslitur, kynferði, hjúskaparstétt, fjölskylduábyrgð o.s.frv.

Í þriðja að tekið skuli upp tiltekið málsmeðferðarkerfi sem kemur til við uppsögn þar sem starfsmanni skal gefinn kostur á að verja sig gegn aðfinnslum sem á hann eru bornar. Hann skal eiga rétt á að vísa uppsögninni til hlutlauss aðila.

Þessi réttindi hafa flestar nágrannaþjóðir okkar litið á sem grundvallarréttindi launafólks en samþykkt nr. 158 sem hér er mælt fyrir er ein af grundvallarsamþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Því tel ég mjög óæskilegt að hún skuli ekki hafa verið tekin upp í lög hér á landi þar sem hún felur í sér ákveðin grundvallarréttindi.

Ég vil líka vísa til þess að þessi tillaga, ef gerð verður að lögum, mun draga örlítið úr því óhemjumisræmi sem nú gildir á íslenskum vinnumarkaði á milli réttarstöðu annars vegar þeirra sem eru á almenna markaðnum og hins vegar þeirra sem eru ríkisstarfsmenn eða opinberir starfsmenn. Slíkt misræmi eins og menn búa nú við hvað varðar starfsöryggi er óþolandi og ég leyfi mér að efast um að það ástand sem nú er hér á landi standist ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég er ekki ein um þá skoðun, virðulegi forseti, og ég vil í þessu samhengi vitna til orða Einars Páls Tamimis lögfræðings, lektors við Háskólann í Reykjavík og forstöðumanns Evrópuréttarstofnunar. Hann fjallaði um þetta efni á málþingi sem haldið var af hálfu BHM og Læknafélags Íslands í nóvember sl. og þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Hvernig verður þá tryggt að vinnuréttarsamband af þessu tagi leiði ekki til skoðanakúgunar og takmörkunar tjáningarfrelsis?`` --- Hann er að fjalla um málið út frá tjáningarfrelsinu. --- ,,Jú, með löggjöf um réttarstöðu starfsmanna, hvort sem er hjá hinu opinbera eða á almennum vinnumarkaði. Kjarasamningar kæmu þar einnig til álita en ég læt það liggja á milli hluta að þessu sinni. Eins og stendur er lagaumhverfi starfsmanna ríkisins með þokkalegu móti sem og annarra þeirra er reitt geta sig á stjórnsýslulög og ólögfestar reglur stjórnsýsluréttarins. Ástandið á almennum vinnumarkaði er hins vegar ömurlegt að þessu leyti. Ef litið er til hins almenna vinnumarkaðar þá er í stuttu máli hægt að lýsa lagaviðhorfum þannig að vinnuveitendur megi reka starfsmenn að vild án sérstakra skýringa þar á. Þeir eiga hins vegar ákveðin réttindi, svo sem til uppsagnarfrests o.s.frv. samkvæmt kjarasamningum. Þannig er ekkert sem kemur í veg fyrir að verktakafyrirtæki í eigu framsóknarmanns reki starfsmann vegna þess að hann fór í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Bara ef hann segir ekki frá því, sem honum ekki ber að gera. Þannig er mjög langt í land með að hægt sé að fyrirbyggja skerðingu tjáningarfrelsis og skoðanakúgun í einkageiranum. Reyndar eru nú uppi raddir, þar á meðal mín, sem hafa miklar efasemdir um að þetta fyrirkomulag á almennum vinnumarkaði samræmist Mannréttindasáttmála Evrópu, og kannski helst að þar verði skjól að finna í fyrirsjáanlegri framtíð.``

Virðulegi forseti. Ég held að það verði ekki lengur við þetta ástand búið á íslenskum vinnumarkaði. Ég held að íslenska ríkisstjórnin verði að skynja ábyrgð sína í þessum efnum. Sú leið hefur verið farin af hálfu íslenskra stjórnvalda hingað til í þríhliða nefndinni sem fjallar um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að þessi tillaga hefur verið tekin nokkrum sinnum til umræðu og ávallt verið hafnað vegna þess að ekki hefur náðst samkomulag á milli atvinnurekenda annars vegar og fulltrúa launafólks hins vegar.

Ríkisstjórnin hefur ábyrgð í þríhliða samstarfi. Hún þarf að hafa stefnu og hún getur ráðið úrslitum í svona málum. Það gengur ekki, hæstv. forseti, að atvinnurekendur geti komið í veg fyrir svo sjálfsögð mannréttindi launafólks sem rökstuðningur fyrir uppsögn þess er. Ekki er verið að tala um einhver útgjöld eða einhverjar meiri háttar breytingar. Það er einungis verið að tala um grundvallarréttindi.

Af því að ég hef nokkrum sinnum áður lagt fram tillögu um fullgildingu á þessari samþykkt án þess að hún hafi fengið hljómgrunn hjá meiri hlutanum á hinu háa Alþingi, hef ég líka farið þá leið að draga út sérstaklega rökstuðning uppsagnar og setja hana inn í lagafrv. í þeirri von að þá mætti taka þennan mikilvæga þátt út sem ég tel vera algjör grundvallarmannréttindi, að þegar fólk er svipt atvinnu sinni fái það rökstuðning og að það séu gildar ástæður fyrir uppsögninni en ekki hefur heldur verið fallist á þá leið. Ég vona að umhverfið eða andrúmsloftið sé svolítið að breytast hér, sérstaklega þegar umræðan er farin að snúast á þann veg að hugsanlega munum við fá þessa réttarbót með vorskipunum, eins og svo margt annað, frá Evrópu. Ég geri mér vonir um að þá sjái kannski hið háa Alþingi að sér og drífi í að gera þarna bót á. Ég vona það svo sannarlega og því er þessi tilraun gerð einu sinni enn, að leggja tillöguna fram.

Auk mín er hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir flutningsmaður að tillögunni.

Tillögugreinin hljóðar einfaldlega upp á það að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda samþykkt nr. 158 um uppsögn af hálfu atvinnurekanda sem gerð var á 68. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 22. júní 1982.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um tillöguna. Ég tel mig hafa lýst efni hennar í meginatriðum og hvet til þess að hún verði samþykkt og að það megi takast að gefa íslensku launafólki þessa nauðsynlegu réttarbót. Ég held að enginn ætti, og allra síst atvinnurekendur, að þurfa að hafa áhyggjur af því að með því væri sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði stefnt í óeðlilega hættu þó að þeir þyrftu að gefa rökstuðning fyrir uppsögn og að komið væri í veg fyrir að hægt yrði að segja fólki upp á ómálefnalegum forsendum. Við erum að tala hér um grundvallarmannréttindi, virðulegi forseti.