Uppsögn af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 18:31:34 (5652)

2004-03-23 18:31:34# 130. lþ. 88.12 fundur 453. mál: #A uppsögn af hálfu atvinnurekenda# þál., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[18:31]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Frú forseti. Ég má til með að bregðast örlítið við ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Ég þakka honum fyrir að lýsa yfir stuðningi við málið.

Vegna dæmisins sem ég nefndi og ég sá sem ágæta leið til að draga fram það gríðarlega óöryggi sem fólk býr við á íslenskum vinnumarkaði, almennt launafólk, er það þannig í því dæmi að viðkomandi var í vinnu þegar þessi krafa var gerð. Þetta var ekki skilyrði fyrir því að hann fengi vinnuna. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að atvinnurekandinn hafi í hendi sér hvort hann ráði mann í vinnu sem býr í Reykjavík ef hann vill að hann búi á Skagaströnd en að gera slíkt að skilyrði eftir á hjá starfsmanni sem er að því er virðist ekki umdeilt að hafi verið góður starfsmaður, a.m.k. er því ekki mótmælt af hálfu atvinnurekandans, er óeðlilegt.

Ég get verið sammála hv. þingmanni um að þetta sé ekki góð niðurstaða, eða eðlileg, t.d. með tilliti til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, en dæmið dregur fram að mínu mati mjög skýrlega --- ég gæti nefnt fjölmörg fleiri, þetta er bara glænýr dómur --- hversu mikill glundroði í raun og veru ríkir í þessum efnum fyrir fólk. Það er engin vernd í lögum nema um sérstakar ástæður sé að ræða, eins og að menn séu trúnaðarmenn, þungun og nokkur atriði sem eru sérstaklega tekin út en að öðru leyti á fólk ekki rétt á neinum rökstuðningi og það á ekki rétt á málefnalegri ástæðu fyrir uppsögn.

Ég get hins vegar verið sammála hv. þingmanni um að þetta sé ekki eðlilegt en þetta kallar þá bara á það að við gerum lögin skýrari og að við skynjum ábyrgð okkar í þeim efnum.