Uppsögn af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 18:33:35 (5653)

2004-03-23 18:33:35# 130. lþ. 88.12 fundur 453. mál: #A uppsögn af hálfu atvinnurekenda# þál., HHj
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[18:33]

Helgi Hjörvar:

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað fá að færa flm., þeim hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur, kærar þakkir fyrir framtakið.

Það er dapurlegt að við skulum árið 2004 enn vera að ræða margflutt mál, staðfestingu á jafnsjálfsögðum grundvallarréttindum og 158. samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, um réttinn til að fá upplýstar ástæður uppsagnar og að hún þurfi að eiga sér málefnaleg rök. Það er synd að ekki sé löngu búið að samþykkja málið.

Samþykktin er gerð árið 1982. Ég vek sérstaka athygli á því, frú forseti, að það er að verða aldarfjórðungur síðan samþykktin var samþykkt og hefur þó enn ekki verið hér í lög leidd. Það var ótrúlegt að heyra það dæmi sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir tilgreindi, um dóm í Hæstarétti hinn 11. mars sl., og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefur líka fjallað um. Ég held að Hæstiréttur hljóti að hafa átt síðasta orðið í því máli, til hvers lög standi, og það er þá ótvíræður úrskurður Hæstaréttar að Alþingi hafi ekki tryggt launafólki betur rétt í lögum en svo að dómur sem þessi falli og að réttindi þessa tiltekna sjómanns séu að lögum svo léleg að maður á bágt með að trúa því þegar maður heyrir endursögnina af málinu og málavöxtu.

Þetta er því miður ekki eina dæmið um það hversu höllum fæti launafólk stendur að ýmsu leyti í grundvallarréttindum á vinnumarkaði og það er sérstakt áhyggjuefni ef tilhneigingin og þróunin er slík að við séum hér að dragast aftur úr alþjóðlega hvað varðar réttindi launafólks. Hér hefur verið bent á þessar tvær samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og á mánudaginn var dró ég fram atriði sem lúta að svipuðum hlutum, þ.e. gerðir Evrópusambandsins gegn mismunun á vinnumarkaði, gerð nr. 43 frá árinu 2000, gegn mismunun á grundvelli kynþáttar eða uppruna, og gerð nr. 78 frá árinu 2000 sem er beint gegn mismunun á grundvelli fötlunar, aldurs, trúar, litarháttar og annarra slíkra þátta. Ísland hefur lagst gegn því að þessar gerðir yrðu teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og yrðu þar með að réttindum launafólks á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Eftir að hafa tekið þá afstöðu hefur ekkert verið gert til að innleiða í íslensk lög svipuð eða sambærileg réttindi og Norðmenn, frændur okkar, hafa gert. Þannig virðast vera þó nokkrar samþykktir og tilskipanir í nágrannalöndum okkar, frú forseti, sem varða lágmarksmannréttindi vinnandi fólks sem tekin hefur verið um pólitísk ákvörðun á Íslandi að innleiða ekki. Það er áhyggjuefni, frú forseti, og það er full ástæða til að taka það dæmi sem hinn ágæti lögmaður Einar Páll Tamimi vék að í máli sínu og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir las hér upp. Það er full ástæða til að taka það alvarlega þegar lögmaðurinn Einar Páll Tamimi bendir á að þannig gæti t.d. verktaki sem væri framsóknarmaður sagt upp starfsmanni hjá sér vegna þess að hann færi í framboð fyrir Sjálfstfl.

Ef lagaumhverfið er þannig að hægt sé að kúga starfsfólk og beita ómálefnalegum ástæðum fyrir uppsögnum er full ástæða til að hafa áhyggjur enda er ekki lengra síðan, frú forseti, en svo að í kosningunum árið 2003, á síðasta ári, leyfðu einstaka forsvarsmenn fyrirtækja sér að beina því til starfsfólks síns að það ætti atvinnuöryggi sitt undir því að styðja ekki tiltekin stjórnmálaviðhorf.

Það á að vekja alþingismenn til umhugsunar um rétt launafólks ef það er raunverulega svo og ef málsmetandi fræðimenn á sviði lögfræði vekja athygli á því að hér sé hægt að beita skoðanakúgun og að lágmarksmannréttindi launafólks á Íslandi séu svo illa varin að þessu leyti að þau standi trúlega ekki gagnvart mannréttindasáttmála Evrópu.

Ég vil þess vegna í lok máls míns, frú forseti, fá að beina þeim eindregnu tilmælum til hins nýja félmrh., Árna Magnússonar, að hann beiti sér sérstaklega fyrir því að þær samþykktir sem hér eru til umfjöllunar og þær tilskipanir sem ég vakti máls á hér á mánudaginn sem beinast gegn mismunun á vinnumarkaði verði teknar upp í íslensk lög. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Atla Gíslasyni að við höfum því miður sívaxandi fjölda dæma um það að fólk, miðaldra fólk, konur og karlar, missi atvinnu án sýnilegrar, málefnalegrar ástæðu. Hv. þm. vísaði í því efni til æskudýrkunar eða einhverra slíkra ástæðna. Þetta fólk sem unnið hefur fyrirtækjum sínum allt sitt besta, stundum árum og áratugum saman, á ákaflega erfitt uppdráttar á vinnumarkaði eftir slíka meðferð. Það er mjög mikilvægt að við tryggjum fólki visst öryggi, í fyrsta lagi að atvinnurekandi þurfi að tilgreina ástæðu uppsagnar, í öðru lagi að atvinnurekandi þurfi að rökstyðja hvers vegna hann segir upp starfsmanni og í þriðja lagi að þær ástæður verði að vera málefnalegar og megi ekki lúta að aldri, fötlun, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum eða öðrum slíkum hlutum. Vinnan, það að hafa vinnu, er grundvöllur lífsgæða og skiptir okkur Íslendinga jafnvel meira máli en margar aðrar þjóðir, svo stór hluti er hún af sjálfsmynd okkar og menningu allri. Sá sem missir með ómálefnalegum hætti, t.d. vegna aldurs, á miðjum aldri atvinnuna án þess að það sé rökstutt á það á hættu að verða fyrir alls kyns félagslegum hremmingum og fjárhagserfiðleikum sem á endanum verður verkefni samfélagsins, sem á endanum verða félagsleg vandamál sem þetta þing og sameiginlegir sjóðir okkar þurfa að bregðast við. Þess vegna er ekkert sjálfsagðara en að við hér höfum sameiginlega skoðun á því hvernig skuli standa að starfslokum vinnandi fólks.