Hugbúnaðarkerfi ríkisins

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 16:12:24 (5698)

2004-03-29 16:12:24# 130. lþ. 89.94 fundur 436#B hugbúnaðarkerfi ríkisins# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[16:12]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að það komi fram hjá mér að ég var ekki að bera á móti að hér gæti verið um bráðnauðsynlega framkvæmd að ræða eða að þörf væri fyrir þessa breytingu. Það sem ég er fyrst og fremst að gagnrýna er hvernig staðið var að málinu, hvernig það var kynnt fyrir Alþingi þannig að Alþingi var greinilega blekkt. Ég held að það sé alveg ljóst.

Ráðherra vísaði því á bug með engum rökum þegar hann þvertók fyrir að Alþingi hefði verið blekkt, að Alþingi hefðu verið gefnar rangar og villandi upplýsingar. Staðreynd málsins er samt sú að Alþingi var kynnt að kerfið kostaði 160 millj. en þessi framkvæmd er komin í næstum 2 milljarða.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Var aldrei ástæða á neinum stigum málsins frá árinu 2001 að leggja kostnaðaráætlanir fyrir þingið, þó að það væri ekki nema fyrir fjárln., t.d. þegar samningurinn við Skýrr lá fyrir? Það er ekki boðlegt að halda því fram að vegna þess að útboð hafi átt eftir að fara fram væri ekki hægt að gera Alþingi grein fyrir áætluðum kostnaði í þessu sambandi, eða a.m.k. fjárln.

Ég tel því fulla ástæðu til þess að eftir þeim leiðum sem við þingmenn höfum verði óskað eftir því að Ríkisendurskoðun fari ofan í málið og skoði það gaumgæfilega, m.a. hvernig staðið var að því að kynna það fyrir Alþingi. Ég tel það til vansa og bera vott um þá lítilsvirðingu sem framkvæmdarvaldið sýnir oft Alþingi.

Ráðherrann segir að ef þetta varði við lög um ráðherraábyrgð geti ég bara skoðað það og látið á það reyna. Ég hef ítrekað reynt að koma því inn í þá löggjöf að það varði við lög um ráðherraábyrgð ef ráðherra veitir Alþingi rangar og villandi upplýsingar. Ég hefði svo sannarlega látið á það reyna ef það ákvæði hefði verið komið inn í þau lög. Það er í dönsku lögunum og full ástæða er til að við setjum það inn í okkar ráðherralög líka vegna þess að það kemur aftur og aftur fyrir að framkvæmdarvaldið og ráðherrar veiti Alþingi rangar og villandi upplýsingar eins og gert var í þessu tilviki.