Hugbúnaðarkerfi ríkisins

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 16:14:40 (5699)

2004-03-29 16:14:40# 130. lþ. 89.94 fundur 436#B hugbúnaðarkerfi ríkisins# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[16:14]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég held að það sé nú upplýst hvað er á ferðinni í þessu máli, í þessari umræðu. Hér er, eina ferðina enn, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir að gera úlfalda úr mýflugu. Hér er talað eins og það hafi verið gefið í skyn árið 2001 að 160 millj. kr. upphafsfjárveiting væri heildarfjárveitingin sem þyrfti til málsins og síðan þyrfti ekkert að koma frekar að málinu. Þetta er auðvitað algjört rugl, herra forseti.

Hér kemur skýrt fram í svari mínu að Alþingi sjálft, við sem sitjum í þessum sal, hafði veitt til þessa verks til ársloka 2003 1.585 millj. kr. en kostnaðurinn var 1.536 millj. Það munar þarna þó nokkrum milljónum, 49 millj., sem fjárveitingaheimildirnar eru meiri en þær sem varið hefur verið í þetta verk til síðustu áramóta. Spurning mín út af þessu máli er náttúrlega óbreytt: Hvað verður til þess að hér er reynt að gera úlfalda úr mýflugu? Hvers vegna hafa þá hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og þeir sem hér hafa talað með henni sofið á þessari vakt undanfarin 4--5 ár og bara ekki tekið eftir þessu? Var þetta ekki fjárlagafrv. fyrir 2001? Var það ekki lagt hér fram á haustmánuðum árið 2000? Er ekki búið að vera að vinna í málinu samfellt síðan? Og það er verið að taka þessi kerfi í notkun núna og það á að vera búið að innleiða allt kerfið seinna á þessu ári. Hvar voruð þið þá þegar Róm brann ef þetta ástand er eins skelfilegt og þið haldið fram? Hvernig stendur á því að (Gripið fram í.) þetta mál er tekið upp mörgum árum eftir að um það er gerður samningur og þetta hefur legið hér fyrir í fjárlögum og fjáraukalögum árum saman?

(Forseti (HBl): Ég vil beina því til hæstv. ráðherra að hann beini orðum sínum til forseta.)

Ég biðst afsökunar, forseti góður.