Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 16:29:58 (5704)

2004-03-29 16:29:58# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[16:29]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem áður kom fram í máli mínu að þetta mál tekur ekki til hámarkslána sjóðsins. Ég reikna með að hv. þm. sé að vísa til þess sem ríkisstjórnin hefur boðað að sé á stefnuskrá hennar, að hækka hámarkslánin og hækka lánshlutfallið líka. Það mál er til sérstakrar skoðunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA og verður fjallað um það á Alþingi þegar niðurstaða stofnunarinnar liggur fyrir. Ég mun leggja fram frv. hér á Alþingi vegna þess máls en það er annað mál og varðar ekki þetta.

Hvað varðar vaxtaákvörðunina er gert ráð fyrir að hún myndist í fyrsta lagi af þeim kjörum sem ráðast í útboði á markaði, í öðru lagi af því uppgreiðsluálagi sem gert er ráð fyrir að dreift verði á lántakendurna, og ekki liggur fyrir nákvæmlega hvert gæti orðið, og í þriðja lagi af rekstrarkostnaði sjóðsins, rétt eins og er núna, og af afskriftaþörfinni, enn fremur eins og nú er. Þannig mundi vaxtaákvörðunin skapast.

Það er hins vegar ógerningur, hæstv. forseti, að spá fyrir um það nákvæmlega hver líkleg þróun vaxta verður í þessu kerfi. Þó er allt sem bendir til þess, allar forsendur, að vextir af húsnæðislánum fari í kjölfar þessara breytinga lækkandi og þá um leið vonandi almennt af vöxtum á lánamarkaði okkar.