Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 14:07:49 (5766)

2004-03-30 14:07:49# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[14:07]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað gildistöku laganna varðar þá fær landbn. málið til umfjöllunar og metur hvort hún klárar það á þessu þingi. Ég skal ekkert fullyrða um það. Ég tek undir það með hv. þm. að ég mæli fullseint fyrir málinu. Það var lengi til meðferðar í ríkisstjórn eins og gerist, í þingflokkum stjórnarflokkanna og kemur hingað þegar ekki eru margir þingdagar eftir. En ég minntist samt á hina ítarlegu meðferð sem málið hefur fengið í þinginu. Það hefur verið hér til umræðu áður og farið til umsagnar og síðan má nefna alla þá vinnu sem lögð hefur verið í það. Það verður því auðvitað fyrst og fremst mat þingsins hvort þessi lög taka gildi 1. júlí. Ég ætla ekki að vera með neina kröfugerð eða heimtufrekju um það, hv. þm. Ég legg málið í dóm þingsins og meðferð þingsins og treysti hv. landbn. til þess að fara sterkum höndum um það og þess vegna bara yfir þetta ákvæði þó ég telji reyndar mjög mikilvægt og vona að málið sé það mikið unnið að hægt sé að afgreiða það hér á vorþinginu. (JBjarn: Það kemur annað vorþing.)