Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 14:37:43 (5774)

2004-03-30 14:37:43# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi lög eru á margan hátt til mikilla bóta að mínu mati. Það er verið að færa þau meira í átt að því sem gerist í raunveruleikanum í dag. Það er ekki verið að taka mikinn rétt af ábúanda. Það er samt að mínu mati verið að auka rétt jarðareiganda þannig að hann hafi eitthvað um eigur sínar að segja.

Það kom afskaplega vel fram að það var ríkisbóndinn sjálfur, Jón bóndi á Hólum, sem hér talaði áðan. Að sjálfsögðu vill hann að allar jarðir séu í ríkiseigu og ég skil vel að hann vilji það. Það viljum við aftur á móti ekki. Mér finnst alveg fráleitt þegar hann talar hér um að sveitarstjórn eigi að ráðskast með það hvernig menn vilja búa á jörðum sínum. Ef einhver vill hætta með sauðfé og fara í skógrækt og ef einhverjum í sveitarstjórninni líst ekki á það, á þá sveitarstjórn að geta ráðstafað því hvernig á að fara með jörðina? Það hugnast mér ekki. Það er einmitt verið að draga úr núgildandi 2. gr. ábúðarlaganna þar sem stendur að sveitarstjórnir geti knúð jarðareigendur til að ráðstafa jörðum sínum með tilteknum hætti, að ,,hver sá, sem á jörð og rekur ekki búskap á henni sjálfur, er skyldur að byggja hana hæfum umsækjanda, að dómi jarðanefndar``. Samkvæmt lögunum eins og þau eru í dag hefur eigandinn því ekkert um eignarrétt sinn að segja.

Ég tel að þetta frv. muni fá mjög ítarlega umfjöllun í landbn. Ég vil bara vekja athygli á því að þessi lög voru líka til umræðu hér í fyrravor og fóru í umsagnir. Bændasamtökin eru búin að vera með þetta mál mjög lengi, hafa verið með nefndir í því, munu halda áfram að vinna við það og þau verða kölluð til.